B-listi Framsóknar og óháðra í Vestmannaeyjum

B-listi Framsóknar og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum 2010 hefur verið samþykktur. Hann skipar fjölbreyttur hópur karla og kvenna, sem eiga það sameiginlegt að vilja berjast fyrir auknu lýðræði, samvinnu og gegnsæi í stjórnun Vestmannaeyja.

 

Við teljum mikilvægt að bæjarbúar hafi raunverulegan valkost á miðju stjórnmálanna. B-listi Framsóknar og óháðra hafnar öfgum til hægri og vinstri og vill efla Vestmannaeyjar með beinni þátttöku bæjarbúa í stjórnun og stefnumótun bæjarins. Með samvinnu, opinni stjórnsýslu og íbúalýðræði getum við byggt saman betra samfélag.

 

Listinn er þannig skipaður:


  1. Sigurður E. Vilhelmsson, líffræðingur

  2. Sonja Andrésdóttir, matráður

  3. Eggert Björgvinsson, tónlistarkennari

  4. Eydís Unnur Tórshamar, sjúkraliði

  5. Jónatan Guðni Jónsson, grunnskólakennari

  6. Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, tryggingaráðgjafi

  7. Sigrún Hjörleifsdóttir, ráðskona

  8. Sveinn Friðriksson, verkamaður

  9. Oddný Garðarsdóttir, húsmóðir

  10. Jóhann Þorvaldsson, vélstjóri

  11. Íris Jónsdóttir, verslunarmaður

  12. Viktor Hjartarson, verkamaður

  13. Hallgrímur Rögnvaldsson, verkstjóri

  14. Skæringur Georgsson, húsasmíðameistari


Í sátt við íbúana

Skipulagsmál eru með mikilvægustu málum sérhvers sveitarfélags, enda hefur okkar nánasta umhverfi gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífshamingju okkar. Því er brýnt að fyllsta samráð sé haft við íbúa þegar breytingar standa fyrir dyrum. Því miður hefur það allt of oft gerst að rokið sé af stað með framkvæmdir eftir hentisemi ráðandi bæjaryfirvalda hverju sinni, oft undir þrýstingi frá einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum. Hefur það jafnvel gerst að farið hefur verið á svig við gildandi lög, eða að minnsta kosti anda laganna.

Í nýrri rannsóknarskýrslu Alþingis er einmitt bent á hættuna sem hlotist getur af því að keyra mál fram eftir lagabókstafnum einum án þess að samráð sé haft við þá sem málið varðar. Þá er oft reynt er að gera lítið úr þeim gagnrýnisröddum sem þó heyrast og þeim legið á hálsi fyrir að standa í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og úrbótum. Nærtækasta dæmið er sú gagnrýni sem þó heyrðist varðandi útrásina, en þögguð var niður sem úrtöluraddir óánægjuliðs.

Það er nú einu sinni svo að samfélagið er ekkert annað en fólkið sem þar býr. Geti bæjaryfirvöld ekki unnið í sátt við íbúana er oft betra heima setið en af stað farið. Nýjasta dæmið um þetta er þær breytingar sem gerðar hafa verið á deiliskipulagi tjaldsvæðisins. Þar standa tugir íbúa nú í deilum við bæjarstjórnina, eins og hún leggur sig, þar sem þeir telja farið fram með óðagoti og offorsi. Kynning á breytingum sem gera átti á deiliskipulagi var í mýflugumynd og enn hefur ekki verið haldinn kynningarfundur með íbúunum þrátt fyrir að búið sé að samþykkja skipulagið. Þetta eru vinnubrögð sem ekki eiga að líðast, en eru því miður allt of algeng hér í bæ.

Íbúalýðræði og andmælaréttur er fótum troðinn og ekkert tillit er tekið til þeirra sem þó hafa beinna hagsmuna að gæta í málinu. Bæjaryfirvöldum hefði verið í lófa lagið að halda kynningarfund með íbúum áður en nýtt deiliskipulag var auglýst og vinna hugmyndirnar í framhaldinu í samvinnu við þá. Það var ekki gert, heldur kosið að fara í hart með tilheyrandi kærum og málaferlum. Það er ekki auðvelt sem einstaklingur að reyna að standa á rétti sínum gagnvart yfirvöldum og það hafa íbúar í Bessahrauni þegar fengið að reyna.

Umhverfis- og skipulagsmál og ekki síst vinnubrögð bæjarstjórnar í þeim málaflokki eru mörgum bæjarbúum ofarlega í huga. Það er kominn tími til að þessum vinnubrögðum verði breytt. Skipulagsmál Vestmannaeyjabæjar þarf að vinna í sátt við íbúana, en ekki með valdboði og tilskipunum. Þannig vinnubrögð þurfa að heyra sögunni til.


Skjót viðbrögð við áskorun

Það er gaman að sjá hve skjótt bæjarstjórn Vestmannaeyja brást við þeirri áskorun sem var sett fram hér á blogginu um síðustu helgi og áframsend á alla bæjarfulltrúa. Eyjamenn, nær og fjær eru hvattir til að fjölmenna austur á laugardaginn til að leggja nágrönnum okkar lið. Þetta er dæmi um á samvinnu og samstöðu sem fleytir okkur í gegnum alla erfiðleika.
mbl.is Herjólfur flytur sjálfboðaliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör

Í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis er kallað á uppgjör. Krafan um afsagnir stjórnmálamanna er hávær og einhverjir hafa þegar brugðist við henni. Þá hefur Samfylkingin snúið baki við þriðju leiðinni svokölluðu, sem Jóhanna Sigurðardóttir kallaði Blairisma í ræðu um helgina. Sjálfstæðisflokkurinn skelfur og búast má við uppgjöri á næsta landsþingi. En hvað með Framsóknarflokkinn?

Framsóknarflokkurinn hóf sitt uppgjör fyrir rúmu ári síðan. Á flokksþingi í janúar í fyrra var forystan endurnýjuð og mikil umræða átti sér stað um stefnu flokksins síðasta áratug eða svo. Ljóst er að flokkurinn hafði fjarlægst grunngildi sín á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hann hafði breyst í nokkurs konar mini-sjálfstæðisflokk, þar sem foringjaræði, flokkshollusta, bitlingar og pólitískar ráðningar héldu flokksmönnum í heljargreipum.

Uppgjörið var afgerandi. Ný forysta leiddi flokkinn í gegnum Alþingiskosningar þar sem þingflokkurinn var nær algerlega endurnýjaður. Með nýju fólki kom ný hugmyndafræði og ný stefna, sem þó er gömul í grunninn. Framsóknarflokkurinn er hægt og sígandi að nálgast aftur rætur sínar sem flokkur samvinnu, lýðræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. Þær rætur eru samofnar rótum íslensku þjóðarinnar og hafa veitt hinni litlu eyþjóð kjölfestu í sjálfstæðisbaráttu síðustu aldar. Þessar rætur er einnig að finna í Vestmannaeyjum og að þeim þarf að hlúa.

En hvaða þýðingu hafa þessi gömlu gildi Framsóknarflokksins fyrir samtímann og hvað þýða þau fyrir samfélagið hér í Eyjum? Þau snúast um forgangsröðun. Við höfum lært það af biturri reynslu að hamingjan býr ekki í steinsteypu. Hamingjan býr í góðum skólum, öflugri menningarstarfsemi og raunverulegu lýðræði þar sem þeir sem nota og veita þjónustuna hafa bein áhrif á hvernig hún þróast. Hún felst í samfélagslegri ábyrgð þar einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélag taka höndum saman við að byggja upp betra samfélag.

Þannig samfélag vill Framsóknarflokkurinn byggja upp, í Eyjum sem og annarsstaðar.

Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja

Samvinna og lýðræði

Samvinna og samstaða eru hugtök sem voru Eyjamönnum ofarlega í huga fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Átök og upphlaup kjörtímabilsins þar á undan voru okkur erfið og áttu þar allir flokkar einhverja sök. Því er ekki skrýtið að slagorð á borð við “Einn flokk til ábyrgðar” hafi átt upp á pallborðið fyrir fjórum árum. Störf bæjarstjórnar síðustu fjögur árin hafa svo einkennst af því sem kallað hefur verið samvinna, þar sem meirihluti og minnihluti hafa gengið saman hönd í hönd.

En hvað er samvinna í raun? Samvinna felur ekki í sér að allir þurfi alltaf að vera sammála, eða að þeir sem ekki eru sammála þori ekki að tjá skoðanir sínar. Samvinna felur heldur ekki í sér að einhver einn ráði öllu. Slíkir starfshættir kallast einræði. Samvinna er þegar ólíkir hópar, með ólíkar skoðanir eru leiddir saman, allir fá að tjá hug sinn og síðan er leitast við að sætta ólíkar skoðanir og vinna saman að lausn sem er heildinni til hagsbóta. Þannig er samvinna og þannig er líka lýðræðið.

Lýðræðið felst ekki í því að kosið sé á fjögurra ára fresti og þess á milli ráði sá öllu sem flest atkvæðin fékk. Lýðræðið felst í því að kjörnir fulltrúar endurspegli ólíkar skoðanir samfélagsins og vinni að framgangi þeirra í samfélaginu. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða að hvetja almenning til að tjá skoðanir sínar, hversu vel eða illa sem þeim hugnast þær, hlusta á fólk og taka mark á því. Fílabeinsturnar fylltir jábræðrum geta aldrei verið táknmyndir lýðræðisins. Það hefur aldrei verið ljósara en einmitt nú.

Sveitarstjórnarmenn, þingmenn og ráðherrar taka daglega ákvarðanir sem varða okkur öll. Þeir eiga að vera fulltrúar okkar allra, en ekki bara sumra. En ábyrgðin hvílir líka á almenningi. Við verðum að þora að láta rödd okkar heyrast. Við eigum þá kröfu að á okkur sé hlustað og við eigum þá kröfu að geta sagt okkar skoðun án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. Á því byggir lýðræðið og á því byggir samvinnan.

Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja

(Greinin birtist í Fréttum 15. apríl)


Nýjir tímar með Landeyjahöfn

Með opnun Landeyjahafnar í sumar verður bylting í samgöngumálum Eyjamanna. Til þessa hafa menn einkum einblínt á þær breytingar sem hin nýja siglingaleið hefur á þá sem þegar ferðast milli lands og Eyja. Breytingarnar sem verða með hinni nýju höfn eru hins vegar miklu víðtækari. Nýjir möguleikar opnast í flutningum á fólki og farmi og ef við höldum rétt á spilunum geta Vestmannaeyjar öðlast nýtt hlutverk sem hlið Íslands að umheiminum.

Með höfn í Bakkafjöru getum við reynt að breyta ferðamynstri farþega skemmtiferðaskipa. Nú eru Eyjarnar aðeins viðkomustaður á leið til Reykjavíkur, þaðan sem farið er í útsýnisferðir um Suðurland. Ný höfn á miðju Suðurlandi getur gert Vestmannaeyjar að upphafsstað slíkra ferða, þar sem farþegar koma í land í Eyjum, fara með Herjólfi upp í Bakkafjöru og áfram að Gullfossi og Geysi, austur á Skóga eða í Skaftafell, á meðan skipin sigla til Reykjavíkur. Slíkt yrði ekki aðeins til mikilla hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum, heldur munu Rangæingar njóta góðs af aukinni umferð ferðamanna um svæðið.

Vöruflutningar um Vestmannaeyjahöfn geta einnig stóraukist, þar sem flutningaleiðir til og frá Austfjörðum og allt vestur á Reykjanes gætu styst verulega. Auknir vöruflutningar með Herjólfi og aukin útskipun í Eyjum gætu leitt af sér aukna ferðatíðni og aukin umsvif í Vestmannaeyjahöfn og þar með treyst samgöngur til Eyja og aukið atvinnu. Aftur gætu Rangæingar notið góðs af, t.d. með  vörugeymslum og annarri umsýslu, þar sem nægt landrými er til staðar.

En á þessum tímamótum þurfum við að hugsa stórt. Við þurfum að kanna til hlítar alla möguleika í nýtingu hinnar nýju hafnar og þeirra tækifæra sem hún býður upp á. Í síðustu viku lögðu þingmenn Framsóknarflokksins fram tillögu til þingsályktunar um að kannaðir verði möguleikar á ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og Bretlands. Ætlunin er að kanna forsendur þess að flytja vörur og ferðamenn beint milli Eyja og Evrópu á svipaðan hátt og gert er með Norrænu milli Seyðisfjarðar og Danmerkur. Með slíkum ferjusiglingum væri hægt að stórauka straum ferðamanna, innlendra sem erlendra, um Vestmannaeyjar og Suðurland, auk þess sem nýjir möguleikar opnast í útflutningi frá Eyjum og Suðurlandinu öllu.

Fyrirkomulag slíkra siglinga má hugsa sér á margan hátt. Þannig gætu útgerðarfyrirtæki í Eyjum átt samstarf við ferðaþjónustuaðila í Eyjum og á Suðurlandi öllu  um rekstur slíkrar ferju, eða samið við skipafélög, innlend eða erlend um reksturinn. Hægt væri að leggja áherslu á flutning ferðamanna yfir sumarið, en aukið hlut fraktflutninga yfir vetrartímann. Áfangastaðir á Bretlandseyjum gætu þannig ráðist af árstíma og áherslu á ferðamenn eða frakt.

Ítarleg hagkvæmniathugun á borð við þá sem Framsóknarmenn leggja til er forsenda þess að farið verði af stað í slíkt verkefni. Mikil vinna er framundan, en ávinningurinn getur verið gríðarlegur í sköpun starfa, aukinni hagkvæmni í flutningum og stóraukinni ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta, út- og innflytjendur, ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög komi að þessari vinnu, sem og skipafélög og aðrir hugsanlegir rekstraraðilar. Ríkið getur leikið stórt hlutverk við að koma þessari vinnu af stað, en skipulag og framkvæmd verður að vera í höndum heimamanna.

Mikilvægi samvinnu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga í Vestmannaeyjum, Rangárþingi og á Suðurlandi öllu hefur aldrei verið meira en einmitt nú, því samvinnan er afl hinna smáu og með samvinnunni eru okkur allar leiðir færar.

Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja

(Greinin birtist í Fréttum 8. apríl síðastliðinn)


Höldum hreinsunardaginn undir Eyjafjöllum

Árlegur hreinsunardagur verður í Vestmannaeyjum næstkomandi laugardag, 1. maí. Bæjarstjórn hefur lýst yfir vilja sínum til að aðstoða nágranna okkar undir Eyjafjöllum eins og frekast er unnt. Því legg ég til að hreinsunardagurinn verði haldinn undir Eyjafjöllunum og að Eyjamenn leggi þannig nágrönnum sínum lið í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.

Þegar hafa félagar í Björgunarfélagi Vestmannaeyja ásamt fleirum lagt á sig mikið og óeigingjarnt starf undir Eyjafjöllunum undanfarna daga, en betur má ef duga skal. Bæjarstjórn getur haft forgöngu um að stefna þeim félagasamtökum sem árlega taka þátt í hreinsunardeginum upp á land, auk þess að semja við Flugfélag Vestmannaeyja, eða Eimskip um ferðir á Bakka eða í Þorlákshöfn, auk rútuferða á staðinn. Þá getur bærinn einnig lagt til verkfæri og áhöld til verksins.

Þannig gætum við Eyjamenn sýnt vilja okkar í verki og stutt við nágranna okkar í þeim miklu hörmungum sem þar ganga yfir.

(Aths. ritstjóra: Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og tæknisviði hefur hreinsunardagurinn verið færður til 8. maí. Telji menn það betra væri hægt að færa hreinsunardaginn fram aftur og nýta þennan almenna frídag til björgunarstarfa  uppi á landi. Annars væri hægt að nýta þessa auka viku til frekara skipulags, ef þörf krefur.)


Íhaldið og þunglyndið

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig spunameistarar íhaldsins hafa reynt að stjórna umræðu síðustu daga um meirihlutaskiptin í Reykjavík. Hver á fætur öðrum hafa þeir skrifað leiðara, blogg og innsendar greinar þar sem hamrað er á því að borgarfulltrúar minnihlutans standi fyrir ófrægingarherferð á hendur nýjum borgarstjóra, Ólafi F. Magnússyni. Spunameistararnir tyggja það upp hver eftir öðrum að hér sé á ferðinni svívirðilegasta mannorðsmorð sem sögur fara af. Ekkert sé heilagt og minnihlutinn nýti sér veikindi Ólafs til að gera hann tortryggilegan.

Það er nú samt svo að þeir sem mest hafa rætt veikindi Ólafs síðustu vikuna eru einmitt þessir spunameistarar íhaldsins, í veikburða tilraun til að þeyta skít í allar áttir og vona að eitthvað festist. Og nú hefur bæjarstjórinn okkar í Vestmannaeyjum bæst í þennan hóp.

Maður hélt nú að Elliði hefði látið af svona löguðu þegar hann komst aftur í meirihluta á síðasta kjörtímabili. Sérstaklega eftir að hann endurfæddist í hlutverki hins algóða og alltumlykjandi bæjarstjóra eftir síðustu kosningar. Umskiptin voru reyndar svo svakaleg að stundum hélt maður að sá Elliði sem froðufelldi í ræðustól, blaðagreinum og viðtölum á meðan hann hamaðist á Andrési bakara hefði hreinlega verið einhver allt annar Elliði en nú situr á stóli bæjarstjóra sem sameiningartákn Eyjamanna og talar vel um minnihlutann í öðru hverju orði. En þetta er sennilega bara munurinn á því að vera í minnihluta eða meirihluta.

Það er svo efni í annan pistil hvernig nýr borgarstjóri í Reykjavík hefur tekist á við umræðuna um veikindi sín. Að heimilislæknir skuli vera haldinn svo miklum fordómum gagnvart geðsjúkdómum að hann neitar að tala um þunglyndi heldur vill aðeins tala um "andlegt mótlæti" er sorglegt. Ef Ólafur hefði lent í bílslysi, brotnað illa og farið í endurhæfingu hefði enginn talað um "líkamlegt mótlæti". Sennilega hefðu allir hrósað Ólafi fyrir þann viljastyrk og dugnað sem þurfti til að ná fullri heilsu og starfsorku. Hann hefði jafnvel verið talinn öflugri borgarstjóri fyrir vikið. Hefði Ólafur getað horfst í augu við eigin sjúkdóm líkt og Kjell Magne Bondevik, fyrrum forsætisráðherra Noregs gerði, væri málinu líklegast lokið.

Að pennar íhaldsins skuli telja að umræða um veikindi Ólafs verði til þess að grafa undan stöðu hans sem borgarstjóri afhjúpar í raun fordóma þeirra sjálfra gagnvart geðsjúkdómum. Að sálfræðingurinn Elliði skuli reyna að nýta sér þau í pólitískum tilgangi er raunalegt að sjá. Að Ólafur skuli sjálfur leiða þessa umræðu er þó sorglegast af öllu. Fordómar hans sjálfs gætu orðið honum að falli.


Breyttur fundartími

Eins og fram kom í auglýsingu í síðasta tölublaði Frétta hefur fundartími aðalfundar Framsóknarfélags Vestmannaeyja verið færður fram um klukkustund.

Aðalfundurinn hefst kl. 19:00

Opinn stjórnmálafundur með Bjarna Harðarsyni hefst kl. 20:00

Hvetjum alla til að mæta í Framsóknarheimilið að Kirkjuvegi á morgun, þriðjudag.

Stjórnin


Aðalfundur Framsóknarfélags Vestmannaeyja

Aðalfundur Framsóknarfélags Vestmannaeyja verður haldinn þriðjudaginn 30. október, í húsnæði félagsins að Kirkjuvegi.

Á dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem kjörnir verða fulltrúar félagsins á kjördæmisþing sem haldið verður á Hvolsvelli helgina 2.-3. nóvember. Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

Þeir félagsmenn sem hafa hug á að sækja kjördæmisþingið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við formann félagsins, Sigurð E. Vilhelmsson, í síma 893-9402.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband