Í sátt við íbúana

Skipulagsmál eru með mikilvægustu málum sérhvers sveitarfélags, enda hefur okkar nánasta umhverfi gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífshamingju okkar. Því er brýnt að fyllsta samráð sé haft við íbúa þegar breytingar standa fyrir dyrum. Því miður hefur það allt of oft gerst að rokið sé af stað með framkvæmdir eftir hentisemi ráðandi bæjaryfirvalda hverju sinni, oft undir þrýstingi frá einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum. Hefur það jafnvel gerst að farið hefur verið á svig við gildandi lög, eða að minnsta kosti anda laganna.

Í nýrri rannsóknarskýrslu Alþingis er einmitt bent á hættuna sem hlotist getur af því að keyra mál fram eftir lagabókstafnum einum án þess að samráð sé haft við þá sem málið varðar. Þá er oft reynt er að gera lítið úr þeim gagnrýnisröddum sem þó heyrast og þeim legið á hálsi fyrir að standa í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og úrbótum. Nærtækasta dæmið er sú gagnrýni sem þó heyrðist varðandi útrásina, en þögguð var niður sem úrtöluraddir óánægjuliðs.

Það er nú einu sinni svo að samfélagið er ekkert annað en fólkið sem þar býr. Geti bæjaryfirvöld ekki unnið í sátt við íbúana er oft betra heima setið en af stað farið. Nýjasta dæmið um þetta er þær breytingar sem gerðar hafa verið á deiliskipulagi tjaldsvæðisins. Þar standa tugir íbúa nú í deilum við bæjarstjórnina, eins og hún leggur sig, þar sem þeir telja farið fram með óðagoti og offorsi. Kynning á breytingum sem gera átti á deiliskipulagi var í mýflugumynd og enn hefur ekki verið haldinn kynningarfundur með íbúunum þrátt fyrir að búið sé að samþykkja skipulagið. Þetta eru vinnubrögð sem ekki eiga að líðast, en eru því miður allt of algeng hér í bæ.

Íbúalýðræði og andmælaréttur er fótum troðinn og ekkert tillit er tekið til þeirra sem þó hafa beinna hagsmuna að gæta í málinu. Bæjaryfirvöldum hefði verið í lófa lagið að halda kynningarfund með íbúum áður en nýtt deiliskipulag var auglýst og vinna hugmyndirnar í framhaldinu í samvinnu við þá. Það var ekki gert, heldur kosið að fara í hart með tilheyrandi kærum og málaferlum. Það er ekki auðvelt sem einstaklingur að reyna að standa á rétti sínum gagnvart yfirvöldum og það hafa íbúar í Bessahrauni þegar fengið að reyna.

Umhverfis- og skipulagsmál og ekki síst vinnubrögð bæjarstjórnar í þeim málaflokki eru mörgum bæjarbúum ofarlega í huga. Það er kominn tími til að þessum vinnubrögðum verði breytt. Skipulagsmál Vestmannaeyjabæjar þarf að vinna í sátt við íbúana, en ekki með valdboði og tilskipunum. Þannig vinnubrögð þurfa að heyra sögunni til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta hljómar mjög sætt. En ég er búin að hlusta á þessa þulu fyrir hverjar kosningar. Alltaf er ég settur í forgang.... en bara fram yfir kjördag :)

Finnur Bárðarson, 30.4.2010 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband