Uppgjör

Í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis er kallað á uppgjör. Krafan um afsagnir stjórnmálamanna er hávær og einhverjir hafa þegar brugðist við henni. Þá hefur Samfylkingin snúið baki við þriðju leiðinni svokölluðu, sem Jóhanna Sigurðardóttir kallaði Blairisma í ræðu um helgina. Sjálfstæðisflokkurinn skelfur og búast má við uppgjöri á næsta landsþingi. En hvað með Framsóknarflokkinn?

Framsóknarflokkurinn hóf sitt uppgjör fyrir rúmu ári síðan. Á flokksþingi í janúar í fyrra var forystan endurnýjuð og mikil umræða átti sér stað um stefnu flokksins síðasta áratug eða svo. Ljóst er að flokkurinn hafði fjarlægst grunngildi sín á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hann hafði breyst í nokkurs konar mini-sjálfstæðisflokk, þar sem foringjaræði, flokkshollusta, bitlingar og pólitískar ráðningar héldu flokksmönnum í heljargreipum.

Uppgjörið var afgerandi. Ný forysta leiddi flokkinn í gegnum Alþingiskosningar þar sem þingflokkurinn var nær algerlega endurnýjaður. Með nýju fólki kom ný hugmyndafræði og ný stefna, sem þó er gömul í grunninn. Framsóknarflokkurinn er hægt og sígandi að nálgast aftur rætur sínar sem flokkur samvinnu, lýðræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. Þær rætur eru samofnar rótum íslensku þjóðarinnar og hafa veitt hinni litlu eyþjóð kjölfestu í sjálfstæðisbaráttu síðustu aldar. Þessar rætur er einnig að finna í Vestmannaeyjum og að þeim þarf að hlúa.

En hvaða þýðingu hafa þessi gömlu gildi Framsóknarflokksins fyrir samtímann og hvað þýða þau fyrir samfélagið hér í Eyjum? Þau snúast um forgangsröðun. Við höfum lært það af biturri reynslu að hamingjan býr ekki í steinsteypu. Hamingjan býr í góðum skólum, öflugri menningarstarfsemi og raunverulegu lýðræði þar sem þeir sem nota og veita þjónustuna hafa bein áhrif á hvernig hún þróast. Hún felst í samfélagslegri ábyrgð þar einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélag taka höndum saman við að byggja upp betra samfélag.

Þannig samfélag vill Framsóknarflokkurinn byggja upp, í Eyjum sem og annarsstaðar.

Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér sýnist þetta vera hreinskilð uppgjör hjá þér við laskaða fortíð. Flokkurinn þarf auðvitað að sanna það fyrir kjósendum að hugur hafi fylgt máli og það mun taka einhvern tíma. Það sem okkur vantar í þetta samfélag er samvinnustefnan í sinni góðu og upprunalegu mynd. Það var mikið slys hvernig ómerkilegum hagsmunaklíkum tókst að afskræma þessi fjöldasamtök sem lyft höfðu grettistaki við uppbyggingu samfélagsins og innleitt manneskjulega og sanngjarna viðskiptahætti.

Ég ítreka þá skoðun mína að verslun í formi samvinnufélaga væri gott innlegg í þá nýju mynd sem nú er brýnt að koma á okkar brotna samfélag. Og ég spyr:

Hvað gæti staðið í vegi fyrir því að endurreisa þessa viðskiptahætti sem við vitum að breyttu samfélaginu þegar við tókum þá upp?

Árni Gunnarsson, 28.4.2010 kl. 13:07

2 Smámynd: Ritstjóri

Samvinnuhreyfingin lifir góðu lífi, m.a. á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég er sammála þér að mikilvægt er að gera þessu rekstrarformi hærra undir höfði hér á landi í sem flestum geirum atvinnulífsins. Sparisjóðirnir, sem byggðir voru upp á hugmyndafræði samvinnustefnunnar eru dæmi um slíkt. Þeir sparisjóðir sem héldu sig við þá hugmyndafræði lifa góðu lífi, en hinir, sem eltu hugmyndafræði hlutafélagaformsins eru ýmist hrundir eða í andarslitrunum.

Því miður virðist það stefna stjórnvalda að útrýma þessu rekstrarformi hér á landi. Þannig gerir nýtt frumvarp um tryggingafélög ekki ráð fyrir að hægt sé að rekja gagnkvæm tryggingarfélög auk þess sem aðgerðir síðustu ára hafa þrengt mjög að möguleikum á rekstri samvinnufélaga af ýmsu tagi.

Joseph Stiglitz hefur m.a. bent á mikilvægi þess að byggja upp blönduð hagkerfi sem byggja á einkarekstr, ríkisrekstri og samfélagslegum rekstri, eða samvinnufélögum. Hann telur það lykilatriði við að endurreisa hagkerfi heimsins, þar sem gríðarleg áhætta felst í einhæfu hagkerfi sem byggir annað hvort á einkarekstri eða ríkisrekstri eða blöndu þessara tveggja rekstrarforma.

Eygló Harðardóttir, ritari fFramsóknarflokksins hefur barist fyrir endurreisn samvinnufélagsformsins undanfarin misseri og orðið nokkuð ágengt, en líkt og með flokkinn sjálfan erum við enn að berjast við drauga fortíðarinnar, sem kastað hafa rýrð á þetta mikilvæga rekstraform.

Þakka annars innlitið og góða athugasemd.

Ritstjóri, 28.4.2010 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband