Hannes ábyrgist vatnslögn

Bæjarstjóri Vestmannaeyja brást skjótt við, eins og hans er von og vísa, í kjölfar skrifa um vatnslögnina í gær.  Sendi hann frá sér tilkynningu um að Hannes Smárason, fyrir hönd Geysir Green Energy, hafi lýst því yfir að félagið muni styðja ákvörðun HS (hitaveitunnar, ekki Hannesar) um að leggja nýja vatnslögn til Eyja.  Jafnframt upplýsir bæjarstjórinn að samningar þeir sem gerðir voru við innlögn Bæjarveitanna í HS tryggi að ekki sé unnt að hækka gjaldskrá til Vestmannaeyja umfram almenna gjaldskrá HS.

Þá er að vona að þær sviptingar sem framundan virðast vera á eignarhaldi í HS muni ekki hafa áhrif á þetta.  Þó er ljóst að einhvern veginn verður GGE að ná nægum arði út úr fyrirtækinu til að hafa upp í kaupverðið á hlutum sveitarfélaganna.  Hvort það verður gert með almennum gjaldskrárhækkunum eða með því að draga úr viðhaldi og/eða þjónustu verður að koma í ljós.


Loforð um vatnslögn - hvar er það nú?

Þegar bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í sumar að selja Geysi Green Energy hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, höfðu ýmsir af því áhyggjur að í framhaldinu kynni þjónusta við Eyjamenn að versna og kostnaður að aukast. Sérstaklega var horft til þess að vatnsleiðslur þær sem leiða ferskvatn til okkar ofan af landi eru orðnar lélegar og brýnt að ráðast í endurnýjun þeirra á næstu misserum.  Má þannig t.d. benda á færslu  hér á blogginu frá því fyrir 3-4 vikum, sem velti upp þeirri spurningu hvort við stefndum í hring og áður en langt um liði yrði veitukerfi bæjarins aftur komið í hendur Eyjamanna. 

Bæjarstjórinn okkar blés á allar slíkar vangaveltur og tilkynnti okkur að Hitaveitan væri búin að lofa að leggja nýja leiðslu og það loforð stæði, þrátt fyrir söluna.

Fyrir nokkrum dögum birtist svo frétt á vefmiðli DV þar sem segir að þingmenn Suðurkjördæmis rói nú að því öllum árum að fá ríkið til að greiða 500 milljónir króna fyrir nýja vatnslögn til Vestmannaeyja.  Ástæðan er sögð sú að Hitaveitan ráði ekki við að leggja nýja leiðslu nema með því að stórhækka verð á rafmagni og vatni til Eyjamanna.

Það var og.  Nú væri gaman að vita frá hverjum bæjarstjórinn okkar hafði þetta loforð um nýja vatnslögn til Eyja og hvort því loforði hafi fylgt einhver skilyrði.  Af þessum nýjustu fréttum að dæma hefur því einhver logið að Elliða, því varla færi Elliði að ljúga að okkur.  Elliði þarf að upplýsa okkur bæjarbúa um hvað hefur breyst og hvort við megum búast við umtalsverðum hækkunum á rafmagni og hita ef ríkið neitar að borga leiðsluna.  Nema hann sé nú þegar að undirbúa stofnun Bæjarveita Vestmannaeyja, sem taki yfir reksturinn á vatnslögninni.


Mannorðsmorð sjálfstæðismanna

Að fylgjast með Birni Inga Hrafnssyni undanfarna daga hefur verið eins og að sitja framhaldsnámskeið í pólitík og PR málum.  Greinilegt er að þar fer maður sem hefur mjög gott vald á hvoru tveggja og ljóst að honum hefur farið mikið fram á síðustu misserum.  Á sama hátt hafa sjálfstæðismenn í borginni hagað sér eins og þeir væru að kenna námskeið um hvernig ekki á að haga sér í pólitík og hvernig alls ekki á að umgangast fjölmiðla.  Hvort sem menn eru sammála Birni Inga og hans pólitík eða ekki verður að segjast að hann hefur spilað snilldarlega úr þeirri hönd sem hann sat uppi með fyrir aðeins viku síðan.

Í Silfri Egils minntist Björn Ingi hins vegar á það að hann hafi verið ítrekað varaður við því þegar hann ræddi stjórnarslit, að hann yrði að vera búinn undir þau vinnubrögð sem sjálfstæðismenn myndu beita.  Allt yrði gert til að sverta mannorð hans og allt yrði tínt til svo gera mætti hann sem tortryggilegastan í augum almennings.  Þessi vinnubrögð held ég að margir þekki.  Að minnsta kosti eru þau alþekkt hér í Eyjum.  Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili fékk heldur betur að finna fyrir því þegar hann sleit samstarfi við sjálfstæðismenn og endaði það með því að fyrirtæki hans varð gjaldþrota og hann hrökklaðist burt úr bænum eigna- og ærulaus.  Hér í Eyjum hefur nefninlega enginn grætt á því að vera á annarri skoðun en íhaldið.  Hafi menn aðra skoðun er þeim best að þegja yfir því.


Forystan þarf að taka í taumana

Þegar maður hélt loksins að áralöngu skeiði niðurlægingar Framsóknarflokksins væri að ljúka, að botninum væri náð og nú væri engin leið fær önnur en upp á við, tekst fámennum hópi flokksmanna á höfuðborgarsvæðinu að draga flokkinn enn dýpra.

Þetta eru þeir sömu menn og stjórnuðu helför Halldórs Ásgrímssonar.  Þetta eru sömu mennirnir og lögðu á ráðin um Freyjuklúðrið í Kópavoginum og Fréttastjóramálið í Efstaleitinu.  Þetta eru mennirnir sem eyddu tugum milljóna króna í síðustu sveitarstjórnarkosningum til að tryggja einum manni framtíð í pólitík.  Þetta eru mennirnir sem eru í krafti pólitískra áhrifa búnir að koma sér fyrir allan hringinn á jötu íslenskrar orku og er þar skamms að minnast einkennilegrar skipanar Páls Magnússonar sem stjórnarformanns Landsvirkjunar 5 mínútum fyrir kosningar í vor.  Þetta eru mennirnir sem eru að ná að festa stimpil spillingar og einkavinavæðingar varanlega á Framsóknarflokkinn. 

Og þetta eru mennirnir sem telja sig réttborna foringja flokksins.

Almennir framsóknarmenn hafa mátt sitja undir ýmsu siðustu misseri og einn af öðrum hafa þeir gefist upp á að verja vitleysuna sem runnið hefur undan rifjum þessara manna.  Í Vestmannaeyjum, þar sem menn hafa misst vinnuna fyrir minni sakir en fylgja Framsóknarflokknum að málum, skiljum við sem enn þraukum hreinlega ekki hvernig menn geta verið svona gjörsamlega blindir á afleiðingar eigin gjörða.  Manni dettur helst í hug að þessir menn lifi eftir gamla mottóinu "Heimsyfirráð eða dauði" og ef þeir nái ekki takmarki sínu skuli flokkurinn falla með þeim.  Það er að minnsta kosti einhver einkennileg sjálfseyðingarhvöt sem þar ræður för.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að formaður flokksins, Guðni Ágústsson, hafi boðað til fundar með sveitarstjórnarmönnum á SV-horninu eftir helgi.  Þá er bara að vona að hann hafi kjark til að setja hnefann í borðið.  Það er kominn tími til að sýna þessum greifum að þeir fá ekki að ríða húsum Framsóknarflokksins óáreittir mikið lengur. 

Verði þeir ekki stöðvaðir munu þeir ganga af honum dauðum. 


Lögfræðiaðstoð vs Marshallaðstoð

Heldur virðist ritstjóri hafa verið fljótur á sér að hvítþvo Kristján Möller eftir afsökunarbeiðni hans til Einars Hermannssonar, skipaverkfræðings.  Nú er komið á daginn að sú afsökunarbeiðni virðist aðeins hafa komið fram eftir hótun um lögsókn vegna ummæla ráðherrans.  Greinilegt er að lögfræðingur ráðherrans hefur ráðlagt honum að biðjast afsökunar fremur en tapa meiðyrðamáli fyrir dómi.  Ráðherrann hefði betur þegið þau ráð fyrr, í stað þess að þiggja ráð aðstoðarmanna um að þrjóskast við og neita að viðurkenna mistök sín.  Hefði hann gert það strax væri málið lílegast dautt og grafið.

Það er kaldhæðni örlaganna að Kristján Möller skuli sitja uppi með svartapétur í Grímseyjarferjumálinu.  Maðurinn sem hvað harðast gekk fram í gagnrýni á ráðherra og stjórnsýslu fyrir kosningar er nú maðurinn sem ekki aðeins heldur hlífiskildi yfir lögbrjótum heldur er eiginlega orðinn holdgerfingur klúðursins í kringum þessa blessuðu ferju.  Það er greinilegt að annað hvort hlustar ráðherrann ekki á ráðgjafa sína í þessu máli, eða hann ætti að leita sér nýrrar aðstoðar.


mbl.is Afsökunarbeiðni í skugga málsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bæjarveitur Vestmannaeyja framtíðin?

Í sumar seldi Vestmannaeyjabær sem kunnugt er hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Geysir Green Energy fyrir á fjórða milljarð króna.  Síðan þá hefur farið fram fjörug umræða um hvað gera skuli við alla þessa peninga.  Sýnist sitt hverjum og bæjarstjórn hefur lýst því yfir að ekki verði rasað um ráð fram við ráðstöfun þeirra.  Það hentar líka núverandi meirihluta ágætlega að sitja eitthvað lengur á peningunum, því eftir því sem nær dregur kosningum eykst pólitískt vægi þeirra.

En eitt er það sem menn þurfa að velta fyrir sér og það í fúlustu alvöru.  Nú þegar stefnir í að GGE eignist Hitaveituna með húð og hári berast fréttir af því að leitað sé eftir erlendum fjárfestum sem hægt verði að selja hlut í GGE.  Hafa þar heyrst tölur um þriðjungshlut eða þaðan af hærra.  Þá hafa fjárfestingabankar á borð við Goldman Sachs verið nefndir til sögunnar.

Reynslan af einkavæðingu orkufyrirtækjanna í nágrannalöndum okkar hefur líka sýnt að alls staðar hækkar verðið og þjónustan versnar.  Þar verða litlu svæðin einna verst úti.  Þegar kemur að því að endurnýja vatnslögnina milli lands og Eyja, verður einhver sem hefur áhuga á því annar en við Eyjamenn?  Fari hún í sundur, liggur eitthvað á að gera við?  Verður það efst á forgangslistanum hjá Goldman Sachs, sem verða jú að fá viðunandi ávöxtun af fjárfestingunni sinni?

Getur hugsast að Vestmannaeyjabær muni standa frammi fyrir því eftir nokkur ár að þurfa að taka aftur yfir almenna veitustarfsemi í Eyjum, því hún skilar einfaldlega ekki nægum hagnaði á "frjálsa markaðnum"?  Gæti verið að eftir nokkur ár þurfum við að stofna Bæjarveitur Vestmannaeyja til að sinna þeirri starfsemi sem skilar ekki nægum arði til New York?

Þá gæti verið gott að eiga 3,5 milljarða inni á bók.

Bærinn tekur frumkvæði í uppbyggingu Setursins

Í tillögum þeim er bæjarstjórn Vestmannaeyja lagði fram um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í þorskkvóta kennir ýmissa grasa.  Tillögurnar eru um margt metnaðarfullar og sýna að bæjaryfirvöld eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að draga úr því höggi sem sveitarfélagið verður fyrir.  Því eru það nokkur vonbrigði að ríkisstjórnin skuli skella skollaeyrum við flestu því sem lagt er fram í tillögum bæjarins.

Eitt er það þó sem vekur nokkra athygli og það eru nýstárlegar aðferðir bæjarstjórnar við að fá ráðherra menntamála til samstarfs um uppbyggingu Rannsókna- og fræðasetursins.  Bæjaryfirvöld eru greinilega búin að gefast upp á að bíða eftir ríkinu í þeim efnum og fer fram á að fá að fjármagna uppbygginguna úr bæjarsjóði.  Bærinn býðst til þess að kaupa húsnæði ÁTVR á neðstu hæð Setursins og í framhaldinu afganginn af Hvíta húsinu af Háskóla Íslands.  Eina skilyrðið er að fjármunirnir sem bærinn greiðir fyrir húseignina fari í uppbyggingu setursins.

Það er orðið löngu tímabært að gera gangskör í því að byggja upp starfsemina í Setrinu.  Einmenningsútibú eru engan veginn til þess fallin að byggja upp það þekkingarsamfélag sem þarf til að halda úti öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi.  Of lengi hefur verið beðið eftir því að menntamálaráðuneytið leggi sitt lóð á vogarskálarnar.  Það er tímabært að bærinn taki frumkvæðið.  Það þarf ekki að bíða lengur.  Elliði þarf bara að gera Þorgerði tilboð sem hún getur ekki hafnað. 


Kristján Möller játar mistök sín

Kristján Möller, samgönguráðherra játar í Blaðinu í dag að það hafi verið mistök að ætla að gera Einar Hermannsson, skipaverkfræðing að blóraböggli í Grímseyjarferjumálinu.  Hann hefur þegar beðið Einar afsökunar á málatilbúnaðinum á fundi í ráðuneytinu.  Það heyrir til undantekninga að stjórnmálamenn íslenskir, hvað þá ráðherrar, játi þegar þeim verða á mistök.  Þau tilfelli þar sem þeir biðjast afsökunar eru svo teljandi á fingrum annarrar handar.  Þó svo Kristján hefði mátt gera þetta miklu fyrr, á hann hrós skilið.  Fleiri stjórnmálamenn mættu taka hann sér til fyrirmyndar.

Kristjáns vegna skulum við vona að þarna hafi aðeins verið á ferðinni slæm ráðgjöf aðstoðarmanna og að sá subbuskapur sem viðgekkst á síðum dagblaða í kjölfarið hafi ekki verið undan rifjum ráðherrans runnir.  Vanstillingin sem þar kom fram var með slíkum endemum að erfitt var að sjá að þar væri á ferðinni maður með áralanga reynslu af fréttamennsku. 

Kannski ætti ráðherrann að leita sér nýrrar ráðgjafar í almannatengslum ekki síður en í skipasmíðum.

Nú þegar þetta mál er frá hefði maður vonað að hægt hefði verið að taka á raunverulegum sökudólgum í Grímseyjarferjumálinu, þeim Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra.  Af þeim gögnum sem komið hafa fram í dagsljósið virðist líklegt að þeir hafi gerst sekir um lögbrot við fjárveitingar til verkefnisins og mikilvægt fyrir lýðræðisþróun í landinu að fá úr því skorið hvort svo hafi verið.

Því miður virðist Baugsstjórninni þó ætla að takast að sópa málinu öllu saman undir teppi.  Það er svosem ekkert nýtt að Sjálfstæðismenn haldi hlífiskildi yfir lögbrjótum í sínum röðum, en eflaust hefðu margir ekki trúað því upp á Samfylkinguna að ætla að kóa með þeim í því.  Hræddur er ég um að fleiri en Jóhanna Sigurðardóttir hefðu hrópað á rannsóknarnefndir fyrir aðeins fáeinum mánuðum og ekki hefði komið á óvart að sjá Kristján Möller þar fremstan í flokki.

En eins og einhver sagði, völd spilla og alger völd spilla algerlega.


Hvar er stóri pakkinn Lúðvík?

Í fréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 14. júlí var viðtal við Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar og starfsbróður Árna Johnsen í stjórnarliðinu.  Þar fullyrti Lúðvík að vatnaskil yrðu í samgöngumálum Vestmannaeyja á næstunni og vænta mætti stórfrétta um leið og gangaskýrslan svokallaða yrði lögð fram.  

Lúðvík sagði að "þá muni verða kynntur sko, stór pakki til leiks þannig að það verða miklar áherslur lagðar á samgöngur við Vestmannaeyjar áfram sem hingað til. [...] Við munum sjá vatnaskil í samgöngum til Vestmannaeyja..."

Ritstjóri gerir sér reyndar grein fyrir því að Lúðvík hefur aldrei viljað kenna sig við svokallaða karamellupólitík, en 15 aukaferðir með Herjólfi ná því varla að teljast karamella, hvað þá "stór pakki" eða "vatnaskil".

Það skyldi þó aldrei vera að úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Vestmannaeyjum í fyrra og útreiðin í prófkjöri Samfylkingarinnar hafi haft meiri áhrif á stöðu Lúðvíks innan Samfylkingarinnar en menn gerðu sér grein fyrir í fyrstu.  Að minnsta kosti virðist hann hafa álíka mikil áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar og Árni Johnsen, starfsbróðir hans. 

Og embætti þingflokksformanns er varla svipur hjá sjón frá því þegar prímus mótor Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson gegndi því.  Það var a.m.k. eitthvað að marka það sem hann sagði.  Á meðan bíðum við Eyjamenn enn eftir "vatnaskilum" í samgöngumálum.


Er Johnsen utan vallar?

Árni Johnsen fer mikinn í grein í Morgunblaðinu í dag.  Þar segir hann að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar (sem hann styður), séu dónaskapur og lítilsvirðing við landsbyggðina.  Hann finnur aðgerðunum allt til foráttu og notar sinn alþekkta ritstíl og orðaval til að hrauna yfir samflokksmenn sína í ríkisstjórninni.

Johnsen kemur að vísu ekki með neinar tillögur um hvað hann hefði viljað gera öðruvísi heldur segir bara að "stokka verði spilin upp á nýtt", "gera úttekt á málinu", "taka á af festu og myndarskap" og "setja nýjan hrygg í málið", hvað svo sem það nú þýðir.

Það sem er kannski merkilegast við þessa grein Johnsens er að í henni kristallast það sem bent var á í aðdraganda alþingiskosninganna.  Johnsen er einangraður í eigin þingflokki, rúinn völdum og áhrifum.  Hann hefur engin áhrif á stefnu og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hefur ekkert að segja um málefni Vestmannaeyja.

Hann er ekki einusinni samstíga meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, sem halda vart vatni yfir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hvetja hana til að halda áfram á sömu braut.

Svo notað sé íþróttamál má segja að Johnsen hafi verið settur út úr liðinu og ekki bara það.  Hann er ekki á bekknum og ekki einu sinni uppi í stúku.  Hann virðist bara vera víðsfjarri vellinum í einhverjum allt öðrum leik.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband