31.5.2007 | 11:22
Tapa Eyjamenn, hvernig sem fer?
Greinilegt er að harkaleg átök eiga sér stað um Vinnslustöðina, einn stærsta einstaka vinnuveitandann í Vestmannaeyjum. Staðan er alvarleg, því fyrirtækið á umtalsverðar aflaheimildir og hverfi þær úr bænum verður það gríðarleg blóðtaka fyrir samfélagið. Eigendur Stillu, Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir, segjast að vísu stefna að því að byggja upp öflugt sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum, en væntanlega munu þeir ekki hugsa sig tvisvar um fái þeir gott tilboð í kvótann, sama hvaðan það kemur. Þannig sjáum við hvernig atvinnulífið á Flateyri umturnaðis á einni nóttu fyrir stuttu.
En jafnvel þótt heimamönnum tækist að halda völdum í fyrirtækinu verður það þeim dýrt. Þurfi þeir að kaupa upp 50% hlutabréfa í Vinnslustöðinni á meira en 8,5 á hlut, mun það kosta þá að lágmarki 6,5 milljarða króna. Það eru 6500 milljónir. Og þeir peningar eru ekki ókeypis. Þurfi að taka alla þá peninga að láni kostar hvert vaxtaprósent 65 milljónir króna á ári og þá á eftir að borga af lánunum. Takist heimamönnum að fjármagna þessi kaup má því búast við að þeir muni greiða sér arð úr félaginu sem nemur að lágmarki vaxtagreiðslum og afborgunum af þessum lánum, og þeir peningar verða ekki notaðir í fjárfestingar í Eyjum.
Þó stór hluti núverandi hluthafa sé búsettur í Eyjum og kaupverð hlutafjárins skili sér því til þeirra, er samt alls ekki gefið að þeir fjármunir verði fjárfestir aftur hér í Eyjum. Þannig þekkjum við hvernig ýmsir eigendur útgerðarfélaga hér í Eyjum hafa nýtt hagnað fyrirtækja sinna til að fjárfesta í fyrirtækjum uppi á landi og út um heim. Þó þeir séu margir hverjir duglegir við að styrkja ýmsa starfsemi hér í Eyjum er ljóst að fjármagnstekjur af fyrirtækjarekstri og fjárfestingum í Reykjavík eða Lúxemborg skila ekki miklu til samfélagsins hér.
Því er ljóst að hvort sem Stilla ehf. eða Eyjamenn ehf. vinna kapphlaupið um Vinnslustöðina verður það félaginu dýrt. Og það mun verða Eyjamönnum öllum dýrt. Hverfi kvóti fyrirtækisins fá Eyjum er ekki víst að bæjarráð Vestmannaeyja sjái ástæðu til að álykta sérstaklega gegn sértækum aðgerðum í sjávarútvegi, eða fagna frjálsu framsali kvóta.
Leggja fram 85% hærra tilboð í Vinnslustöðina en heimamenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 22:21
Afhroð í Reykjavík
Þá er kosningum lokið að þessu sinni. Ljóst er að þetta er versta útreið sem Framsóknarflokkurinn hefur hlotið í sögunni. En það er samt athyglisvert að varla er hægt að tala um afhroð nema á Suð-Vestur horninu.
Í Norðvesturkjördæmi tapar flokkurinn aðeins um 3 prósentustigum en missir mann. Í Norðaustri tapar Framsókn að vísu 8 prósentustigum og einum manni, en hafa ber í huga að í síðustu kosningum vann Valgerður Sverrisdóttir gríðarlegan sigur, sem var svo stór að kom jafnvel bjartsýnustu Framsóknarmönnum á óvart. Í Suðurkjördæmi tapar flokkurinn um 5 prósentustigum, en heldur sínum tveimur mönnum. Í þessum þremur landsbyggðarkjördæmum er flokkurinn þannig með á bilinu 18-25 prósent fylgi.
Það er síðan í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur sem flokkurinn bíður afhroð, og fylgistapið í Kraganum er einnig verulegt, þó Siv hafi náð að halda sínu sæti og vinna ákveðinn varnarsigur. Það er því umhugsunarefni að þrátt fyrir gríðarlega áherslu flokksins á að afla fylgis á höfuðborgarsvæðinu, á kostnað landsbyggðarkjördæmanna, stendur þar varla steinn yfir steini. Við hljótum því að líta til þeirra sem leitt hafa flokkinn í Reykjavík og velta því fyrir okkur hvort ekki sé kominn tími til að taka taumana úr þeirra höndum.
Flokkurinn þarf að leita upprunans í þeirri endurreisn sem framundan er. Hann er í eðli sínu félagshyggjuflokkur með áherslu á bætt lífskjör og aukna atvinnu um land allt. Ekki hægrikrata flokkur, fastur í 101-Reykjavík með hausinn ofan í kaffibollanum dreymandi um ESB. Það er kominn tími til að allir flokksmenn átti sig á því.
12.5.2007 | 11:23
Íhaldið í Eyjum við sama heygarðshornið
Enn þráast íhaldið í Eyjum við og heldur uppi njósnum í kjördeildum. Maður hélt sannast sagna að þessi ógeðfelldi siður væri úr sögunni, en hér halda íhaldsmenn áfram að berja hausnum við stein. Það er ljóst að lítið er við þessu að gera, því í kjörstjórn í Eyjum hefur íhaldið meirihluta og formaður yfirkjörstjórnar á Suðurlandi er sýslumaðurinn í Eyjum, einnig valinkunnur íhaldsmaður. Því er ljóst að þó kært verði ef íhaldið heldur því til streitu að keyra upplýsingar úr kjördeildum saman við skrár sínar í Ásgarði, mun kjörstjórn úrskurða þeim í hag og þeir halda uppteknum hætti jafnvel þótt kært verði áfram til yfirkjörstjórnar. Þá má búast við að yfirkjörstjórn taki tímann sinn í að fara yfir kærur og því hafi íhaldið í raun frítt spil hér í Eyjum.
Þetta er ljótur blettur á annars fallegum degi. Megi Eyjamenn sem aðrir Íslendingar eiga góðan dag. Ritstjóri mun a.m.k. ekki láta þessi sovésku vinnubrögð íhaldsins í Eyjum skemma fyrir sér daginn.
11.5.2007 | 18:43
Er einangrun Johnsens alger?
Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja skrifar pistil inn á vef Eyjafrétta þar sem hann ber á bak aftur staðhæfingar Árna Johnsen um að heilbrigðisráðuneytið sé að undirbúa flutning sjúkraflugsins frá Eyjum. Þar staðfestir Elliði það sem við Framsóknarmenn vissum, að Siv Friðleifsdóttir hefur engin áform uppi um að færa sjúkraflugið úr höndum okkar. Greinilegt er að Elliði er í betri tengslum við raunveruleikann en Johnsen.
Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mikil einangrun Johnsens í Sjálfstæðisflokknum virðist vera. Geir Haarde hefur nú gefið það út opinberlega að ekki komi til greina að Johnsen verði ráðherra í ráðuneyti hans og augljóst hefur verið í allri kosningabaráttunni að nærveru hans hefur ekki verið óskað. En að Johnsen sé svo einangraður innan flokksins að hann geti ekki einu sinni fengið upplýsingar frá bæjarstjórn Sjálfstæðismanna um stöðu sjúkraflugsins er ansi hart.
Þetta vekur upp spurningar um hver verði eiginlega staða hans á Alþingi eftir kosningar ef hans eigin menn vilja ekki vinna með honum? Verður hann hálfgerður eins manns flokkur að potast fyrir okkur Eyjamenn? Má ég þá frekar biðja um þá Guðna og Bjarna Harðar. Þeir hafa þó a.m.k. flokkinn sinn á bak við sig.
9.5.2007 | 21:47
Johnsen fer mikinn
Árni Johnsen fer mikinn í grein á eyjar.net í dag vegna sjúkraflugsins. Þar fylgir hann línunni úr Valhöll og Ásgarði, að kenna Framsókn um allt sem miður fer í þessari ríkisstjórn. Í grein sinni heldur Árni því fram að innan heilbrigðisráðuneytisins sé unnið hörðum höndum að því að koma sjúkraflugi Eyjamanna í hendur Mýflugs og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Telji Árni sig hafa heimildir fyrir að unnið sé að slíku innan heilbrigðisráðuneytisins hefur hann greinilega aðra heimildarmenn en æðstu menn ráðuneytisins, því þeir hafa ekki heyrt af slíkum hugmyndum.
Það er staðreynd að Eyjaskelfirinn ógurlegi, Björn Bjarnason hefur unnið að því hörðum höndum að afla Landhelgisgæslunni aukinna verkefna til að standa undir mikilli útþenslu hennar og aukin þátttaka í sjúkraflugi er liður í því. Með flugvél staðsetta í Eyjum er ekki þörf á að nýta Gæsluna nema að litlu leiti í sjúkraflug hingað og því er það mikið hagsmunamál gæslunnar og Björns að tryggja að þyrlurnar hafi næg verkefni. Og þegar kemur að dómsmálaráðherra hljóta spor hans hér í Eyjum að hræða. Á móti má benda á að Siv Friðleifsdóttir tryggði stóraukin fjárframlög til Hraunbúða í tíð sinni í félagsmálaráðuneytinu og hefur beitt sér fyrir endurskoðun á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunarinnar, auk þess að vinna að því að tryggja áframhaldandi veru sjúkraflugvélar í Eyjum.
Við getum því valið hvort við treystum betur, orðum Árna Johnsen eða verkum Sivjar Friðleifsdóttur. Það ætti ekki að vera erfitt val.
8.5.2007 | 22:29
Hvar er Elliði?
Það má nú margt segja um bæjarstjórann okkar, en ekki að hann sé fjölmiðlafælinn maður. Hann hefur enda verið duglegur við að koma bænum okkar á framfæri, en ekki síður hvesst sig ef honum hefur þótt á okkur brotið. Nú ber hins vegar svo við að ekki heyrist hósti né stuna í bæjarstjóranum vegna sjúkraflugsins. Áreiðanlegar heimildir herma að Eyjaskelfirinn ógurlegi, Björn Bjarnason, sé að undirbúa yfirtöku landhelgisgæslunnar á neyðarflugi til Eyja og þar með verði engin sjúkraflugvél staðsett í Eyjum.
Miðað við ramakveinin sem Elliði rak upp þegar hann taldi sig geta kennt heilbrigðisráðuneytinu um slælega þjónustu í sjúkrafluginu, er einkennilegt að nú skuli hann halda sig kyrfilega til hlés. Það skyldi þó ekki vera að Björn Bjarnason og Valhallargengið hefðu náð að múlbinda bæjarstjórann málglaða fram yfir kosningar...
7.5.2007 | 20:53
Fundargerð bæjarráðs breytt
Fyrir fáeinum dögum birti ritstjóri hér færslu vegna máls sem rætt var á bæjarráðsfundi þann 17. apríl síðastliðinn. Þar var bókað eftirfarandi:
7. 200704091 - Trúnaðarmál
Bæjarráð samþykkir að ljúka greiðslu vegna ábyrgða í tengslum við Áhugafélagið Húsið með greiðslu kr. 1.160.826.
Ritstjóri gerði athugasemdir við að málið væri fært sem trúnaðarmál og sendi í kjölfarið erindi til framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs þar sem farið var fram á upplýsingar um málið. Var ritstjóra bent á að senda formlegt erindi til bæjarráðs þar sem um væri að ræða trúnaðarmál.
Vegna anna í kosningabaráttu hefur dregist að senda erindi til bæjarráðs, en þegar ritstjóri settist niður rétt í þessu til að setja það saman komst hann að því að fundargerð bæjarráðs hefur verið breytt. Nú hljómar sami liður á þessa leið:
7. 200704091 - Samningsumleitanir vegna skuldar Áhugafélagsins Hússins við Glitni.
Bæjarráð samþykkir að ljúka greiðslu vegna ábyrgða í tengslum við Áhugafélagið Húsið með greiðslu kr. 1.160.826
Viðbót:
Eins og réttilega er bent á í athugasemd hlýtur að vera ólöglegt að breyta fundargerðum eftirá á þennan hátt, þegar ekki er aðeins búið að undirrita þær, heldur einnig að samþykkja þær á fundi bæjarstjórnar eins og gert var við þessa fundargerð. Bæjarráð hlýtur því að skulda okkur Eyjamönnum skýringar á þessum vinnubrögðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 13:23
Hvað hafa Eyjamenn gert íhaldinu?
Blekið var varla þornað á glansmyndunum af bæjarfulltrúum og frambjóðendum íhaldsins þegar fréttir bárust af enn einni atlögu íhaldsins að okkur hér í Eyjum. Enn á ný er það dómsmálaráðherrann sem vegur að okkur. Ritstjóri hallast helst að því að Björn hafi orðið fyrir einhverju áfalli á þjóðhátíð fyrir margt löngu því hann lætur einskis ófreistað að berja á okkur Eyjamönnum. Nú ætlar hann að hafa af okkur sjúkraflugið.
Eftir því sem læknar og sjúkraflutningamenn í Eyjum staðhæfa er ætlun dómsmálaráðuneytisins að sjá til þess að hætt verði að staðsetja sjúkraflugvél í Eyjum. Þess í stað skal sinna bráðatilfellum með þyrlu ofan af landi og er Björn þar væntanlega að skaffa nýju þyrlusveitinni sinni aukin verkefni og meira fjármagn. Þá er ætlunin að sinna öllu öðru sjúkraflugi til Eyja með flugvél sem staðsett verður á Norðurlandi!
Við framsóknarmenn munum berjast gegn þessum fyrirætlunum íhaldsins með kjafti og klóm og hafa til þess stuðning heilbrigðisráðherra. Ritstjóri væntir þess að bæjarstjórinn okkar láti líka vel í sér heyra og láti dómsmálaráðherra vita það að við svona vinnubrögð verði ekki unað. Illar tungur væna hann reyndar um að hafa ætlað að sitja á málinu fram yfir kosningar, en því trúir ritstjóri ekki að óreyndu.
3.5.2007 | 21:08
Af Baugsmálum
Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að ætla að ræða Baugsmál. Samt getur ritstjóri ekki orða bundist. Eftir áralanga rannsókn, hundruða milljóna króna útgjöld og 94 ákæruliði standa eftir 5 liðir og samtals 12 mánuðir skilorðsbundnir fyrir einn kreditreikning. Og hverjum dettur í hug að skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins, þeir Haraldur Johannessen og kumpánar þurfi að bera nokkra ábyrgð. Hvað þá haninn á haugnum við Sölvhólsgötuna.
Annars hafa hugtökin rétt og rangt og sekt eða sakleysi nú lengi vafist fyrir íhaldinu.
2.5.2007 | 17:21
Ætla Grétar og Árni að gleyma Eyjum?
Á visir.is er frétt um að Grétar Mar Jónsson, oddviti Frjálslyndra á Suðurlandi hafi farið fram á að hagnaður ríkisins af sölu hlutar í Hitaveitu Suðurnesja verði nýttur til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Í fréttinni tekur Árni Mathiesen undir með Grétari og segir að Suðurnes muni:
...með einhverjum hætti njóta sölu ríkisins á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja.
Heldur þykir mér þeir herramenn fljótir að eigna Suðurnesjum allt í Hitaveitu Suðurnesja og minni á að Vestmannaeyjabær á tæplega 7% í HS. Þá má reyndar benda á að Hafnarfjarðarbær á rúm 15% og Árborg tæplega 1,5%.
Í öllu falli þarf að minna þá herramenn á að það eru fleiri en Suðurnesjamenn sem hafa byggt upp HS og því mættu þeir hugsa aðeins út fyrir Reykjanesið þegar þeir fara að dreifa gróðanum. Eyjarnar vilja því miður allt of oft gleymast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)