19.11.2006 | 13:49
Andsvar?
Forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Grettisson birti í gær það sem hann kallar andsvar við nýlegri grein hér á vefnum á eyjar.net og Eyjafréttum. Merkilegt er að í þessu andsvari hans svarar hann ekki í neinu þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á vinnubrögð meirihlutans í bæjarstjórn, eða þá staðreynd að hann er langt kominn með að svíkja helstu kosningaloforð sín aðeins 6 mánuðum eftir kosningar. Hann sakar undirritaðan um að ausa auri með því einu að lýsa leikhúsi fáránleikans, sem síðasti bæjarstjórnarfundur vissulega var.
Ég vona svo sannarlega að sem flestir nýti sér upptökur Fjölsýnar og Bjarna Jónasar af bæjarstjórnarfundinum, skelli poppi í örbylgjuna, prenti út handritið sem birt var hér fyrir helgi og búi sig svo undir góða skemmtun. Ég vara fólk þó við að söguþráðurinn verður ansi flókinn á köflum og ekki alltaf auðvelt að átta sig á rökvísi meirihlutans. Hvað um það, þessir 4 tímar eru vel þess virði.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 12:46
Góður fundur í gær
Góð mæting var á fund með Jóni Sigurðssyni og Guðna Ágústssyni í Akóges salnum í gær. Fjörlegar umræður voru um helstu hagsmunamál Eyjamanna og stöðuna í landsmálunum almennt. Formaður og varaformaður Framsóknarflokksins fóru af fundi með góða innsýn í hvar skórinn kreppir, en einkum voru samgöngu- og atvinnumál til umræðu. Við væntum þess að Framsóknarflokkurinn vinni vel að málefnum Eyjamanna á næstu misserum og mun Framsóknarfélag Vestmannaeyja tryggja að ríkisstjórnin fái ekki færi á að gleyma okkur.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 12:06
Opinn fundur á morgun, laugardag
Minnum á opinn fund með forystu Framsóknarflokksins á morgun, laugardag kl. 11:00 í Akóges salnum. Allir velkomnir.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2006 | 11:43
Með allt niðrum sig í eldhúsinu
Ég datt inn í útsendinguna hans Bjarna Jónasar frá bæjarstjórnarfundinum í fyrradag og ég varð eiginlega kjaftstopp. Er þetta fólkið sem var kosið til að stjórna bænum okkar? Aftur og aftur var meirihlutinn uppvís að þvílíkri handabakavinnu og tómu fúski að ég hef bara ekki vitað annað eins. Á tímabili hélt ég að ég væri að hlusta á útvarpsleikhúsið flytja Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur, þar sem börnin gengu í hlutverk fullorðinna og fullorðnir voru orðnir óvitar.
Fyrst var það eldhúsið á nýja Sóla. Í bæjarráði á þriðjudaginn var samþykkt, að tillögu starfshóps um sameiningu á starfsemi Sóla og Rauðagerðis að við gerð fjárhagsáætlunar 2007 verði gert ráð fyrir rekstri fullkomins eldhúss í nýja leikskólanum og að þar verði framreiddur matur. Gott og vel. Faghópur hafði gert ítarlega rekstrarkönnun sem sýndi fram á að hagkvæmara var að reka eldhús í leikskólanum en að kaupa tilbúinn mat. Allt leit mjög eðlilega út, þar til minnihlutinn fór að spyrja.
Svo var það sameining leikskólanna. Þar varð farsinn enn fáránlegri. Ég vorkenndi hreinlega formanni skólamálaráðs þar sem hann reyndi árangurslaust að útskýra allt fúskið. Hver á fætur öðrum fóru svo bæjarfulltrúar D-listans í pontu til að reyna að bera blak af formanni skólamálaráðs. Þetta var orðið svo pínlegt að ég var næstum búinn að slökkva á útvarpinu.
Einhvern veginn svona fór umræðan fram (leikfélaginu er velkomið að stela þessu og nota í gamanleikrit á næsta ári):
V: Hvaða starfshópur var það sem gerði þessa úttekt og hvenær var hann skipaður?
D: Ehhh, það var starfshópur sem átti að meta þörf á hækkun leikskólagjalda… nei, það var einhver annar starfshópur… ehhh, augnablik, ehhh, það var hópur skipaður leikskólastjórunum, leikskólafulltrúa, Páli Marvin Jónssyni og Elliða Vignissyni.
V: Hvers vegna var minnihlutanum ekki boðið að skipa fulltrúa í hópinn?
D: Þetta var faglegur hópur, þ.e. bara faglegir fulltrúar, ekki pólitískir fulltrúar.
V: Eru Páll Marvin Jónsson og Elliði Vignisson ekki pólitískir fulltrúar?
D: Jú, nei, jú, nei, jú, nei, sko, þeir eru ekki í hópnum.
V: Eru þeir í hópnum, eða ekki?
D: Sko, þeir eru ekki í hópnum. Þeir sitja alla fundi með sama rétt og þeir sem eru í hópnum, en þeir eru samt ekki í hópnum. Þess vegna er þetta sko bara faglegur hópur og minnihlutinn á ekkert með að vera með einhverja fulltrúa þar.
V: OK, en áttu foreldrar ekki að hafa fulltrúa í hópnum?
D: Jú, þeir eiga fulltrúa í hópnum og koma sko að allri ákvarðanatöku. Þeir hafa bara ekki verið boðaðir á fundi nema á fundinn í fyrradag þegar búið var að taka allar ákvarðanir.
V: Og hvernig stendur á því að það er búið að ákveða að setja upp fullkomið eldhús í Sóla án þess að það hafi verið rætt, t.d. í Skólamálaráði?
D: Ehhh, það er ekki búið að ákveða að setja upp fullkomið eldhús í Sóla. Það var bara verið að samþykkja að kaupa öll tæki og tól fyrir fullkomið eldhús. Ekki að það verði fullkomið eldhús á Sóla. Sú umræða er eftir.
V: En það á samt að kaupa öll tækin?
D: Já, við sko föttuðum allt í einu um helgina að það þurfti að fara að panta öll tækin í eldhúsið helst í gær og þess vegna þurfti að ákveða hvaða tæki átti að panta. Það var enginn tími fyrir faglega umræðu, svo við ákváðum bara að kaupa öll hugsanleg tæki og taka svo faglegu umræðuna seinna og ákveða þá hvað ætti að gera við tækin.
V: OK, gott og vel, þetta er skítaredding af því þið unnuð ekki vinnuna ykkar. En hvað með sameiningu leikskólanna, stóð ekki í kosningabæklingnum ykkar í vor: “Við viljum að leikskólarnir verði áfram reknir sem sjálfstæðar einingar og á hverjum leikskóla fyrir sig verði starfandi leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.”
D: Jú auðvitað lofuðum við því. Við vildum fá atkvæði allra leikskólakennaranna og foreldranna. En það vissu auðvitað allir að það var ekki hægt svo það er náttúrulega óréttlátt að rukka okkur um það núna. Þetta er bara eins og með knattspyrnuhúsið. Þið vilduð byggja allt of dýrt knattspyrnuhús og við mótmæltum því, en samt ekki of mikið, en við ráðum núna svo við ætlum að byggja ennþá dýrara knattspyrnuhús. Ljúga ekki allir fyrir kosningar hvort sem er?
V: En þið sögðuð líka fyrir kosningar að það væri forkastanlegt að leggja fram tillögur um hagræðingu í rekstri án þess að hafa neina fjárhagslega útreikninga á bak við þær. Sagði Elsa Valgeirs ekki að svoleiðis tillögur væru arfavitlaus grautur? Nú stendur hún að þessum tillögum með ykkur án þess að neinar tölur séu á bak við þær. Er þetta ekki lengur arfavitlaus grautur?
D: Sko… við ráðum og þegið þið svo! Og hættið að rifja upp hvað við sögðum fyrir kosningar. Það voru kosningaloforð. Þið vitið að það er aldrei neitt að marka þau!
V: Svo neituðuð þið að láta okkur í minnihlutanum hafa skýrslu starfshópsins svo við gætum kynnt okkur hana fyrir skólamálaráðsfundinn.
D: Já, auðvitað. Þið lekið alltaf öllu í fjölmiðlana svo það er ekki hægt að treysta ykkur.
V: En skýrslan var samt komin í fjölmiðlana áður en skólamálaráðsfundurinn var haldinn.
D: Já, sko, þegar við látum fjölmiðla hafa trúnaðarskjöl áður en kjörnir fulltrúar fá þau er það náttúrulega bara til að tryggja greiðan aðgang almennings að upplýsingum. Þegar þið gerið það er það alvarlegur trúnaðarbrestur sem verður að stöðva!
V: Já, en þið sögðuð líka fjölmiðlum að faghópurinn hefði lagt til hvernig ætti að standa að sameiningunni, hver yrði skólastjóri og hver aðstoðar og svoleiðis. Það er ekkert um það í skýrslunni.
D: Hvað eruð þið alltaf að hnýta í einhver smáatriði. Þetta var pólitísk ákvörðun og ekkert meira með það. Við vildum bara að þetta hljómaði allt mjög faglegt. Er það ekki í lagi?
V: Jæja, þá erum við hérna með bókanir á 18 blaðsíðum.
D: Já bókið þið bara eins og ykkur sýnist. Það les hvort sem er enginn fundargerðirnar og það eru bara tveir sem hlusta á útsendingarnar hjá Bjarna Jónasar og öllum er hvort sem er sama því við ráðum öllu, nénénéné. Eruð þið ekki hvort sem er sammála okkur? Hvað eruð þið þá að rífast?
V: Sko, við erum kannski ekki efnislega ósammála ykkur í öllum atriðum. Við erum bara mjög ósátt við að þið segið eitt fyrir kosningar og gerið svo annað eftir kosningar. Þá erum við líka mjög ósátt við vinnubrögðin hjá ykkur. Þið eruð alltaf með allt á síðustu stundu og við fáum aldrei að hafa fulltrúa í vinnuhópum og nefndum og svo fáum við aldrei að vita neitt fyrr en 5 mínútum fyrir fund.
D: Góðu bestu hættið þessu tuði. Hvað með það þó við séum alltaf með allt niðrum okkur í stjórnsýslunni? Við ráðum. Og hvað með það þó við náum aldrei að rusla neinu af fyrr en 5 mínútum fyrir fundi? Við ráðum. Og hvað með það þó við tökum pólitískar ákvarðanir án faglegrar umræðu? Við ráðum. Og hvað með það þó við ráðum í stöður eftir pólitískum geðþótta án þess að auglýsa? Við ráðum. Og hvað með það þó við afhendum fjölmiðlum trúnaðargögn áður en þið fáið þau í hendur? Við ráðum. Og hvað með það þó við séum langt komin með að svíkja öll helstu kosningaloforð okkar á fyrstu 6 mánuðum kjörtímabilsins? Við ráðum.
Það verða hvort sem er allir búnir að gleyma þessu þegar kemur að næstu kosningum.
Mundi nokkur í vor að við vorum ein í meirihluta í 12 ár?
Einn flokk til ábyrgðar og hana nú!
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2006 | 17:26
Þingmenn segja Björgvin ljúga
Þingmenn deildu hart í upphafi þingfundar á þriðjudag um kosningaloforð Framsóknarflokksins frá árinu 1999 um að veita milljarði til baráttunnar gegn fíkniefnum. Sæunn Stefánsdóttir, Framsóknarflokki, hóf umræðuna og ásakaði Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, um að slá ryki í augu kjósenda með því að segja að ekki hefði verið staðið við loforðið. Hún bætti við að teknar hefðu verið saman upplýsingar um þróun fjárframlaga til málaflokksins árið 2003 og þá hafi komið í ljós að aukningin hefði verið 1,7 milljarðar.
Björgvin sagði Framsókn vera að rjúka upp korteri fyrir kosningar við að reyna að tína saman til allt sem mögulega gæti fallið undir forvarnir og meðferðarúrræði í kerfinu. Hann sagði milljarðinn hafa verið táknræna tölu um átak sem aldrei hafi orðið og að Framsókn geti ekki vikið sér undan málinu með talnaleikjum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði að ef einhver héldi öðru fram en að milljarði hefði verið varið í þennan málaflokk þá væri sá hinn sami að skrökva. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra tók í sama streng og sagði lygar ekki ganga á Suðurlandi þar sem mönnum væri kennt að segja sannleikann, en þeir eru báðir þingmenn kjördæmisins. “Ungir stjórnmálamenn og drengilegir menn sem lenda í þeirri ógæfu að bera ljúgvitni og fara með rangt mál eiga einfaldlega að biðjast afsökunar.”
Björgvin fór fram á að forseti Alþingis vítti Guðna fyrir að bera á sig ósannindi og vildi fá tækifæri til svara fyrir sig, en þingforseti varð ekki við ósk hans.
Úr Fréttablaðinu.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 08:14
Opinn fundur með forystu flokksins
18. nóvember, 2006 | ||
11:00 | til | 12:00 |
Forysta Framsóknarflokksins heldur opinn fund í Akóges salnum næstkomandi laugardag, 18. nóvember, kl. 11:00. Allir eru velkomnir. Klukkutíma fyrr mun forystan hitta flokksbundna Framsóknarmenn og konur til skrafs og ráðagerða. Við hvetjum alla til að mæta og ræða landsins gagn og nauðsynjar við nýkjörna forystu flokksins.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2006 | 13:58
Prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi
Þá er öðru prófkjöri lokið í Suðurkjördæmi, í þetta sinn hjá Sjálfstæðismönnum. Mikil spenna var í kringum prófkjörið, ekki síst þar sem menn biðu eftir raunverulegri mælingu á fylgi Árna Johnsen í kjördæminu eftir hremmingar hans á liðnum árum. Árni hefur alltaf verið umdeildur og varla til það mannsbarn í landinu sem ekki hefur á honum skoðun, hver svo sem hún síðan er.
Enda kom það í ljós í prófkjörinu þar sem aðeins tæp 54% kjósenda merkti við hann á kjörseðlinum og af þeim settu þrír af hverjum fjórum hann í 1. eða 2. sæti.
Það sem kemur mest á óvart í þessu prófkjöri er slæm útkoma Árna Mathiesen fjármálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra. Að hann skuli ekki hljóta nema um 45% atkvæða í 1. sætið og að réttur þriðjungur sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi skuli ekki vilja sjá hann á listanum í vor getur ekki verið annað en áfall fyrir hann. Það er alveg ljóst að taki nafni hans Sigfússon ákvörðun um að bjóða sig fram að fjórum árum liðnum verður lítið pláss fyrir fjármálaráðherrann í Suðurkjördæmi.
Það hlýtur líka að vera áfall fyrir þau Drífu og Guðjón að sjálfstæðismenn í kjördæminu skuli ekki meta meira við þau störf þeirra á Alþingi. Þau líða kannski fyrir það, líkt og margir aðrir þingmenn sem fallið hafa í nýlegum prófkjörum, að þau eru ekki með minnisstæðustu þingmönnum okkar og ekki nógu dugleg að berja bumbur og vekja athygli á störfum sínum. Það er ekki nóg að vinna bara á bak við tjöldin ef enginn veit af því.
Ég verð þó að hrósa honum Guðjóni fyrir stórmannleg viðbrögð við þessum úrslitum. Hann háði heiðarlega og góða kosningabaráttu og yfirlýsing hans í gær ætti að vera öðrum til fyrirmyndar. Þarna fer greinilega góður keppnismaður sem getur tekið tapi og fer ekki bara í fýlu þegar á móti blæs.
Tvennt að lokum. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því hvernig margir sjálfstæðismenn, einkum í Reykjavík bregðast við árangri Árna Johnsen í prófkjörinu. Má þar t.d. benda á Friðjón R. Friðjónsson, fyrrum starfsmann í dómsmálaráðuneytinu og stuðningsmann Björns Bjarnasonar, sem og skrif Andrésar Magnússonar, sem lengi hefur verið í nánu samneyti við innvígða og innmúraða. Ef þessi viðhorf eru almenn meðal sjálfstæðismanna utan Suðurkjördæmis er hætta á að Árni einangrist innan þingflokksins og að slagkraftur hans verði minni inni á þingi en menn hafa gert sér vonir um.
Hitt er túlkun vinkonu minnar Guðrúnar Erlingsdóttur á úrslitum í prjófkjöri Sjálfstæðismanna. Ég er ekki sammála henni um að útkoma Árna Mathiesen sé einhver vísbending um óánægju með ríkisstjórnina. Ég held að hún sýni mun frekar að Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi, umfram Samfylkinguna (og Frjálslynda), hafa trú á heimamönnum og sjá ekki tilganginn í því að treysta á fólk frá Reykjavík eða Seltjarnarnesi eða Hafnarfirði eða Akranesi sem málsvara sína á Alþingi.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2006 | 13:13
Annir og appelsínur
Örlítið hlé hefur orðið á skrifum inn á Framsóknarblaðið, en það skýrist nú af miklu annríki ritstjórnar í tengslum við Nótt safnanna sem haldin var með pompi og prakt nýliðna helgi. Þrátt fyrir veðurofsann tókst frábærlega til og sýndi sig að þó stærstur hluti aðkeyptra atriða hefði fallið niður vegna veðurs fóru heimamenn létt með að halda uppi fjörinu. Frábær skemmtun í alla staði.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 12:10
Mikil viðbrögð
Það er gaman að sjá hversu mikil viðbrögð pistill gærdagsins hefur vakið meðal lesenda. Þannig hafa okkur borist fjölmörg skeyti, ýmist í tölvupósti eða á öðrum vefmiðlum. Þar hefur fólk ýmist skammað okkur fyrir að ganga ekki nógu langt, eða kallað okkur sóðableðil og öðrum ljótum nöfnum. Þá hefur ritstjóri meira að segja verið sakaður um lygar (fyrir utan að sjálfsögðu dónaskap).
Það verður að segjast eins og er að einu meintu lygarnar sem bent hefur verið á eru misritun á tölum um útstrikanir, sem var snarlega leiðrétt um leið og bent var á hana. Aðrar “lygar” hafa nú ekki fundist í pistlinum. Hins vegar er fólk eðlilega sárt þegar bent er á bresti í mönnum sem það hefur treyst til forystu í góðri trú.
Ég verð þó að játa að lokaorð Sólveigar Adólfsdóttur í pistli á Eyjafréttum fóru aðeins fyrir brjóstið á mér. Þar talar hún um að við þurfum samstöðu en ekki sundrungu. Ritstjóri veit allt um nauðsyn þess að standa saman. Síðasta kjörtímabil kenndi Framsóknarmönnum í Vestmannaeyjum allt um það hversu nauðsynlegt er að standa saman. Þannig lagði forysta Framsóknarfélagsins allt í sölurnar til að halda áfram samstarfi Framsóknar og V-lista í bæjarstjórn og eftir að V-listinn sleit samstarfi við bæjarfulltrúann okkar héldum við samstarfinu áfram þó svo Framsóknarflokkurinn ætti ekki beina aðild að nýjum meirihluta.
Þegar talað er um leiðtoga V-listans og nauðsyn samstöðu meðal Eyjamanna í sömu setningu setur mann samt hljóðan. Síðari hluta síðasta kjörtímabils logaði bærinn í illdeilum, ekki síst vegna stjórnarhátta þessa sama leiðtoga. Hann kom með flugi úr Skerjafirðinum að morgni, gaf út tilskipanir um hreinsanir og umbyltingar í grunnskólum, leikskólum og stjórnkerfi og var svo floginn burt að kvöldi. Fótgönguliðar V-listans þurftu svo að rökstyðja þessar ákvarðanir og verja þær í fjarveru leiðtogans. Enn sér ekki fyrir endan á þeirri sundrungu og glundroða sem þessi vinnubrögð leiðtoga V-listans sköpuðu.
Þegar svo kom að undirbúningi framboðs til sveitarstjórnar fórum við inn í þá vinnu af fullum heilindum og unnum af kappi með stórum hluta V-listafólks til að freista þess að brjóta blað í sögu Vestmannaeyja og tryggja félagshyggjuframboði hreinan meirihluta. Því miður var það svo að leiðtogi V-listans tók fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörinni uppstillingarnefnd og setti nefndinni stólinn fyrir dyrnar. Hans listi yrði samþykktur og annað var ekki til umræðu.
Hvort ástæðan fyrir þessu var að leiðtoginn var þegar farinn að undirbúa framboð til alþingiskosninga og vildi ekki hafa á listanum neina þá sem gætu hugsanlega skyggt á hann í aðdraganda þeirra skal ósagt látið. Að minnsta kosti var hann fljótur að láta sig hverfa að kosningum loknum.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 11:19
Athugasemd til Eyjafrétta
Athugasemd birtist á vef Eyjafrétta í gær þar sem tölur um útstrikanir Lúðvíks Bergvinssonar voru leiðréttar. Ritstjóri Framsóknarblaðsins leiðrétti tölurnar samstundis hér á síðunni og sendi eftirfarandi tölvupóst til ritstjórnar Eyjafrétta. Þar sem hún hefur enn ekki séð ástæðu til að birta póstinn á vef sínum fylgir hann hér í heild sinni:
Kæra ritstjórn,
Gaman að vita að Lúðvík hefur a.m.k. mátt vera að því að lesa vefinn okkar í dag. Hvað varðar útstrikanir játar ritstjórn á sig mistök við útreikninga og hefur villan verið leiðrétt í pistlinum.
Í kjölfarið vill ritstjórn benda Fréttum og Lúðvík á meinlega villu sem slæddist inn í viðtal Ómars Garðarssonar við Lúðvík í nýlegu tölublaði Frétta. Þar minnir Lúðvík ranglega að V-listinn hafi fengið
um 40% atkvæða í síðustu kosningum. Hið rétta er að V-listinn fékk aðeins rúmlega 30% atkvæða í kosningunum (34.5%). Vonumst við til að Lúðvík og/eða ritstjórn Frétta bregðist jafn skjótt við og
Framsóknarblaðið og leiðrétti þessa villu.
Bestu kveðjur,
Sigurður E. Vilhelmsson
ritstjóri Framsóknarblaðsins
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)