Enn sleppur Lúðvík fyrir horn

Lengi vel stefndi í enn eina snautlega útreiðina fyrir Lúðvík Bergvinsson, alþingismann. Á síðasta ári eða svo hefur hann mátt þola hverja niðurlæginguna af annarri.

Þannig var hann rassskelltur í varaformannskjöri í Samfylkingunni, þar sem ungliðinn Ágúst Ólafur Ágústsson rúllaði yfir hann. Þá fékk hann vægast sagt slaka útkomu í sveitarstjórnarkosningum í Vestmannaeyjum, þar sem V-listinn undir forystu hans náði aðeins rúmum 30% atkvæða auk þess sem tæp 10% kjósenda strikuðu nafn Lúðvíks útaf listanum og D-lista vantaði aðeins um 90 atkvæði til að fella 3ja mann V-listans og ná þannig 5-2 stöðu í bæjarstjórn.

Í gær var svo lengi útlit fyrir að Lúðvík endaði í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, á eftir Björgvin G. Sigurðssyni, sem Lúðvík segir að eigi enga vona á ráðherrasæti komist Samfylkingin í ríkisstjórn, og nýliðunum Róbert Marshall og Ragnheiði Hergeirsdóttur. Á síðustu metrunum tókst þessu sjálfskipaða ráðherraefni þó að skreiðast fram úr nýliðunum og hékk á 2. sætinu með 25 atkvæðum.

Það er aldrei að vita nema vinnubrögð Lúðvíks séu loksins að koma í bakið á honum. Kjósendur í Eyjum höfnuðu honum í vor eftir einræðistilburði við skipan á framboðslista V-listans og væntanlega hafa samherjar Lúðvíks í Eyjum vont bragði í munni eftir prófkjörsbaráttuna nú. Þannig unnu báðir meðframbjóðendur Lúðvíks í Samfylkingarfélagi Vestmannaeyja af heilindum með honum í prófkjörinu en tvennum sögum fer af stuðningi Lúðvíks við þá félaga sína, einkum þegar upp á land var komið.

Svo er náttúrulega spurning hvenær Lúðvík áttar sig á því að kannski ætti hann bara að fylgja fordæmi Jóns Gunnarssonar og finna sér eitthvað annað að gera.


Góður aðalfundur

Á aðalfundi Framsóknarfélagsins sl. sunnudag var að sjálfsögðu mikið spjallað um pólitík; allt frá raforkuverði yfir í skýra andstöðu við einkavæðingu Íbúðalánasjóðs.

Formaður félagsins, Sigurður E. Vilhelmsson var endurkjörinn og Jónatan Guðni Jónsson kom nýr inn í stjórnina í stað Þórunnar Engilbertsdóttur. Að öðru leyti hélt sama mannval áfram, en stjórnina skipa, auk Sigurðar og Jónatans, þau Hallgrímur Rögnvaldsson, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Kristmundsson, Skæringur Georgsson og Víkingur Smárason.

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins og ráðherra kjördæmisins, var gestur fundarins og hélt stutta tölu. Að henni lokinni, opnaði hann nýja vefsíðu félagsins, www.framsoknarbladid.is. Bjarni Harðarson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, mætti einnig og skýrði frá sinni sýn á stjórnmálin og framboði sínu.

Að lokum var stjórninni falið að tilnefna fulltrúa á kjördæmisþingið um næstu helgi í Reykjanesbæ og hvetur hún áhugasama til að hafa samband við Sigurð E. Vilhelmsson, s.vilhelmsson@gmail.com.


Aðalfundur Framsóknarfélagsins

29. október, 2006
13:00til15:00

Aðalfundur Framsóknarfélags Vestmannaeyja verður haldinn á Hótel Þórshamri sunnudaginn 29. október kl. 13:00. Gestur fundarins verður Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.


Kjördæmisþing

4. nóvember, 2006til5. nóvember, 2006

Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi verður haldið í Reykjanesbæ helgina 4.-5. nóvember.  Helst á dagskrá þingsins verður ákvörðun um hvernig valið verður á lista fyrir alþingiskosningarnar.

Stjórnin hvetur þá sem vilja fara á þingið til að hafa samband við formann félagsins, Sigurð E. Vilhelmsson í s. 6913139.

Dagskrá þingsins verður hægt að ná í hér á síðunni.


Flokksþing

2. mars, 2007til3. mars, 2007

Flokksþing Framsóknarmanna verður haldið dagana 2. og 3. mars á Hótel Sögu. Drög að ályktunum frá málefnahópum verða kynntar og teknar til umræðu og afgreiðslu. Takið dagana frá strax, því varla er hægt að hugsa sér betra veganesti inn í kosningabaráttu, en kröftugt og gott flokksþing.


Miðstjórnarfundur

25. nóvember, 2006
9:00til13:00

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins verður haldinn á Hótel Loftleiðum laugardaginn 25. nóvember kl. 9-17.  Að honum loknum mun LFK halda upp á 25 ára afmæli sambandsins með móttöku, og skemmtilegum erindum.  Afmælishátíðin, sem jafnframt er útgáfuhóf fimmtu bókarinnar í ritröðinni Sókn og sigrar, stendur frá 17-19.  Framsóknarfólk er hvatt til að fagna merkum tímamótum.


Stjórnmálaafl óskast fyrir landsbyggðina!

Skoðanakannanir á fylgi stjórnmálaflokka síðustu mánuði hefur verið hreinn og klár hryllingslestur fyrir flesta Framsóknarmenn. Sumir segja að helsta ástæðan sé sú að við séum hreinlega búin að gera allt sem við ætluðum okkur að gera!

Ég held ekki. Ég tel helstu ástæðuna vera að við höfum gleymt uppruna okkar. Við höfum verið svo önnum kafin við að berjast um molana sem hrjóta af borðum stóru Reykjavíkurflokkanna að við höfum gleymt upprunanum og kjölfestu flokksins, þ.e.a.s. landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri-grænir eru flokkar höfuðborgarsvæðisins, sem má t.d. sjá á því að 6 af 7 ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru af höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum alls ekki staðið okkur í stykkinu gagnvart fylgismönnum okkar og kjósendum. Almennar aðgerðir sem tryggja velsæld íbúa á landinu öllu, s.s. samgöngubætur, efling fjárhags sveitarfélaganna, aukin menntun og jákvæð íbúaþróun eru grunnforsendur fyrir möguleika ALLRA svæða til að þróast frekar.

Kjósendur Framsóknarflokksins hafa kosið hann til að tryggja velsæld sína, en hver er niðurstaðan? Fjárhagur margra sveitarfélaga á landsbyggðinni er mjög slæmur, helstu mennta- og rannsóknastofnanir eru enn staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og íbúaþróun hefur aðeins verið á einn veg, af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið.

9 af 12 þingmönnum með landsbyggðarfylgi?

Framsóknarflokkurinn hefur ætíð sótt sitt kjarnafylgi fyrst og fremst til dreif- og þéttbýlis á landsbyggðinni.

Smá upprifjun fyrir þá sem eru búnir að gleyma kosningaúrslitunum.

  • NA-kjördæmi: Nær 33% fylgi eftir mjög áhrifaríkar byggðaaðgerðar, nú síðast byggingu álversins í Reyðarfirði og staðsetningu háskóla á Akureyri = 4 þingmenn.
  • NV-kjördæmi: Ríflega 20% fylgi í NV-kjördæmi þrátt fyrir geysisterka stöðu Frjálslynda flokksins og mikla fækkun íbúa = 2 þingmenn.
  • Suðurkjördæmi: Tæp 24% þrátt fyrir umfangsmiklar fyrirætlanir um eignaupptöku lands í Skaftafells- og Árnessýslunum = 2 þingmenn (og næg aukaatkvæði til að tryggja uppbótarmann í Reykjavík-Norður.)

Þannig eiga 9 af 12 þingmönnum flokksins sæti sitt landsbyggðinni að þakka!

Nýtt hátæknisjúkrahús og Sundabrú

Landssíminn er seldur og það eina sem lagt er til að gert verði við hagnaðinn er að auka enn á þensluna á höfuðborgarsvæðinu með því að byggja Sundabrú og hátæknisjúkrahús fyrir tugi milljarða í miðri Reykjavík.

Mikil þörf virðist greinilega vera á að auka enn við fjölda hátæknistarfa á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir yfirlýsingar Heilbrigðisráðuneytisins um að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) verði hátæknisjúkrahús landsbyggðarinnar.

Ef nýtt og fullkomið hátæknisjúkrahús verður byggt í Reykjavík, er örugglega ekki langt í að draga þurfi saman rekstur FSA og annarra sjúkrahúsa á landsbyggðinni, t.d. á Akranesi, Vestmannaeyjum og Sauðárkróki, vegna aukinna umsvifa nýja sjúkrahússins í Reykjavík. Það verður nefnilega svo miklu hagkvæmara og öruggara að hafa sem mesta starfsemi á einum stað.

Mætti ekki alveg eins nýta hluta af fjármagninu af sölu Landssímans í að halda áfram að byggja upp FSA sem hátæknisjúkrahús? Kjósendur Jóns Kristjánssonar, Valgerðar Sverrisdóttur, Dagnýjar Jónsdóttur og Birkis J. Jónssonar yrðu eflaust mjög ánægðir með þá ákvörðun.

Byggðastefna skilar árangri, - í Reykjavík

Í skýrslu sem sem var unnin fyrir Forsætisráðuneytið um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni kennir ýmissa grasa. Þar nefnir Heilbrigðisráðuneytið m.a. sem dæmi um eflingu opinberra starfa á landsbyggðinni að Lýðheilsustöð hafi verið stofnuð og forstjóri sé tekinn til starfa. Ef efla hefði átt opinber störf á landsbyggðinni, hefði þá ekki verið tilvalið að setja stofnunina niður á landsbyggðinni, en ekki á Laugaveginum?

Nei, greinilega ekki. En í staðinn eru uppi hugmyndir um að efla tengsl stofnunarinnar við stofnanir á landsbyggðinni t.d. Háskólann á Akureyri og FSA með þróun nýrra lýðheilsuverkefna í samvinnu við þær stofnanir. Landbúnaðarráðherra tók nýlega skref í rétta átt og staðsetti nýstofnaða Landbúnaðarstofnun á Selfossi. Það hefði verið óskandi að heilbrigðisráðherra hefði gert það sama með Lýðheilsustöðina og staðsett hana t.d. á Egilsstöðum og viðskiptaráðherra hefði gjarnan mátt staðsetja hina nýju Neytendastofu á Húsavík, Ísafirði, eða jafnvel í Reykjanesbæ þar sem störfum hefur fækkað mikið vegna fækkunar hjá varnarliðinu.

Um 60% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru staðsett um 72% opinberra starfsmanna. Uppbyggingin á svæðinu hefur verið gífurleg, sem gerir Reykjavík og nágrenni eitt besta dæmið um að virk byggðastefna skilar úrvalsárangri.

Staðsetning opinberra starfa s.s. í stjórnsýslu, mennta-, heilbrigðis- og rannsóknastofnunum skiptir miklu máli til að auka arðsemi viðkomandi svæða.

Það sýnir Reykjavík og sannar.

2.700 störf flutt

Á síðustu áratugum hefur sú þróun verið stöðug að fólki af landsbyggðinni hefur fækkað, hvort sem litið er til þéttbýlis á landsbyggðinni eða dreifbýlis.

Byggðastofnun hefur bent á að hvergi, ekki einu sinni á hinum Norðurlöndunum, hafi fólk safnast jafn mikið saman á einu svæði og Stór-Reykjavíkursvæðinu. Til 1970 var íbúaþróun mjög svipuð í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og hér. Ungt og menntað fólk flutti í miklum mæli af landsbyggðinni, oft konur fyrst með börnin og svo karlarnir á eftir. Um 1970 gripu stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum inn í þessa þróun með því að flytja umtalsverðan fjölda opinberra starfa út á landsbyggðina og hafa haldið þeim aðgerðum áfram. Nú síðast í byrjun þessa árs ákvað sænska ríkisstjórnin að flytja 2.700 störf út á land, þar af sex stofnanir í heilu lagi og hluta 12 annarra, þrátt fyrir að aðeins tæp 10% af Svíum búi í höfuðborginn Stokkhólmi. Með þessum aðgerðum hefur að mestu tekist að stöðva þessa þróun.

Hér á landi hefur þessi fólksflótti hinsvegar staðið stöðugt, án þess að stjórnvöld hafi gripið til neinna marktækra aðgerða. Við erum enn að velta fyrir okkur að flytja nokkur láglauna fjarvinnsluverkefni út á land, jafnframt því sem við viljum gjarnan eyða ágóðanum af síðustu stóru einkavæðingunni í að byggja flott hátæknisjúkrahús og risastóra brú í miðri Reykjavík.

Örsmár Reykjavíkurflokkur?

Hvað ef við myndum gera það sama í NV-kjördæmi og Suðurkjördæmi og við gerðum í NA-kjördæmi? Gripa til marktækra byggðaaðgerða sem skila árangri? Það gæti þýtt rúmlega þriðjungsfylgi í landsbyggðarkjördæmunum þremur, íbúaþróun yrði snúið við og hver veit, kannski færi þingmönnum að fjölga á landsbyggðinni í stað Kragans? Við gætum verið með 12 þingmenn bara af landsbyggðinni! Allt í viðbót væri hreinn plús og við værum í oddastöðu í íslenskum stjórnmálum um ókomna tíð.

Ég vil því hvetja flokkinn til að fara horfast í augu við uppruna sinn og eðli sem breiðfylking landsbyggðarinnar og kasta fyrir róða tilburðum til að gerast örsmár Reykjavíkurflokkur.

Eygló Harðardóttir

 

 


Framtíðaraflið eða framsóknarmennskan?

Eygló Harðardóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins skrifar: Það var fullt af orðum, en lítið nýtt í hinni svokölluðu vitrænu byggðastefnu Samfylkingarinnar sem leiðandi stjórnmálaafls framtíðarinnar a.m.k. eins og hún var kynnt í grein þingmannsins Björgvins G. Sigurðssonar í Vaktinni þann 8. september 2005.

Í greininni talar Björgvin um það sem hann vill gera í draumsýninni um nýja byggðastefnu Samfylkingarinnar. Þar nefnir hann nútímalegar og öruggar samgöngur, háhraðanettengingu og aðgang að framhaldsskóla og háskólamenntun úr heimabyggð. Svo talar hann fjálglega um uppbyggingu sérhæfðs háskóla á Suðursvæðinu, með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Reykjanesbæ og Selfossi.

Eftir lestur greinarinnar veltir maður fyrir sér hvar þingmaðurinn hefur verið að undanförnu. Hverju hefur framsóknarmennskan áorkað, á meðan hið “leiðandi framtíðarafl” hefur verið viðsfjarri? Rennum aðeins yfir óskalista þingmannsins.

  • Nútímalegar og öruggar samgöngur.

Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum varið til framkvæmda i vegamálum. Í Suðurkjördæmi má einna helst nefna tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, 800 milljónir í hringveg um Hornafjarðarfljót, nýja vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu og 400 milljónir í Suðurstrandarveg. Ferðum Herjólfs mun væntanlega fjölga um 120-130 strax á næsta ári og er niðurstöðu um ferjuhöfn í Bakkafjöru eða jarðgöng að vænta.

Ég vil einnig benda þingmanninum á að spjalla aðeins við Eirík Bergmann Einarsson, flokksbróður sinn um reglur er gilda um niðurgreiðslu flugleiða innan Evrópusambandsins og þannig á EES-svæðinu.

  • Háhraðatenging.
  • Strax á þessu ári verður varið einum milljarði króna til upbyggingar á sviði fjarskipta og 1,5 milljörðum króna árin 2007-2009. Bætt verður við GSM sendum á hringveginum, auðvelduð dreifing stafræns sjónvarps um gervihnött, og háhraðatengingar byggðar upp á landsbyggðinni.

Aðgangur að framhaldsskólum og háskólamenntun úr heimabyggð.

Sjaldan hefur meira framboð verið af menntun á landsbyggðinni. Háskólinn á Akureyri hefur fyrirlöngu sannað gildi sitt, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn (starfsstöðvar á Hvanneyri, Reykjum og Reykjavík) hafa aldrei boðið upp á fjölbreyttara nám og Háskólinn á Hólum býður upp á nám á heimsmælikvarða í ferðamálum, fiskeldi og hrossarækt.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar hafa gjörbylt möguleikum fólks á landsbyggðinni til að stunda sitt nám í heimabyggð, en þær eru nú 9 talsins með starfsemi um allt land. Í Eyjum eru t.d. um 70 háskólanemar sem stunda fjarnám auk þess sem mikill fjöldi Eyjamanna sækir bæði styttri og lengri námskeið á vegum Visku.

Nú síðast var sett á stofn Háskólasetur Vestfjarða, en stofnun setursins var ein helsta tillagan í vaxtarsamningi Vestfjarða.

Frekar lítið eftir á óskalistanum, eða hvað?

Undir stjórn núverandi ríkisstjórnar hefur byggðastefnan tekið breytingum, þar sem áherslan er á að sameina krafta heimamanna, hins opinbera og atvinnulífs á viðkomandi svæðum til að styrkja undirstöðu þeirra og sérstöðu, með svokölluðum vaxtarsamningum. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar var sá fyrsti, og er nú unnið að gerð vaxtarsamnings fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar annars vegar og Austfirði með sérstaka áherslu á Hornafjörð hins vegar.

Markmið með háskólasetrum er að styrkja sérstöðu viðkomandi svæða og hlúa að séreinkennum þeirra, og styðja við atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum. Því er af tillögum Eyjamanna fyrir vaxtarsamning fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar að styrkja og efla Rannsókna-og fræðasetur Vestmannaeyja í rannsóknum á auðlindum hafsins. Jafnframt er verið að ræða stofnun Háskólaseturs á Suðurlandi sem mundi sérhæfa sig m.a. í ferðaþjónustu, skógrækt og matvælaframleiðslu. Þess konar svæðisbundin háskólasetur gætu styrkt mjög byggð t.d. í Rangárþingum og stutt við áframhaldandi uppbyggingu í Árnessýslu.

Framsóknarmenn munu halda áfram að vinna að því að bæta stöðu hinna ýmsu byggðarlaga, og “framtíðaraflið” hans Björgvins ætti því að einhenda sér í að útbúa nýjan óskalista.



« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband