Til hvers eru prófkjör?

Heldur þykir ritstjóra sérkennileg sú ákvörðun kjördæmisþings Samfylkingarinnar um síðustu helgi að munstra í fjórða sæti listans Guðnýju Hrund Karlsdóttur úr Reykjanesbæ.  Opinber ástæða þess að kjördæmisþingið tekur svona fram fyrir hendurnar á þeim sem grunlausir gengu til prófkjörs er sú að sá frambjóðandi sem lenti í 4. sæti í prófkjörinu hefur horfið til annarra starfa.  Þessi aðgerð lýsir þó frekar vantrausti á þá sem næstir komu í prófkjörinu, því eðlilegast hefði verið að þeir hefðu færst upp listann.

Í stað þess er kölluð inn manneskja sem ekki bauð sig fram, ekkert hefur haft sig í frammi í tengslum við prófkjörið og er væntanlega alls ókunn flestum þeim sem þó kusu í prófkjörinu.  Maður veltir fyrir sér hverjar voru raunverulegar ástæður fyrir þessum gjörningi.  Varla hefur það verið skortur á frambjóðendum af Reykjanesinu, því í 7. sæti í prófkjörinu varð Jenný Þórkatla Magnúsdóttir úr Reykjanesbæ.  Hún færðist upp í 6. sæti við að Jón Gunnarsson gekk úr skaftinu og hefði nú með réttu átt að færast upp í það fimmta. 

Það er þá kannski að Samfylkingarmönnum hafi þótt hlutur “Eyjamanna” helst til mikill, því í efstu fjórum sætunum hefðu þannig átt að verða þrír frambjóðendur sem titla sig Eyjamenn, þó aðeins sé einn þeirra búsettur í Eyjum og eigi þar hagsmuna að gæta.

Þeim hlýtur að svíða þessi framkoma sem lögðu í mikla vinnu og mikinn kostnað til að ná árangri í þessu prófkjöri Samfylkingarinnar þegar inn á listann kemur manneskja sem engan áhuga hafði á að taka þátt í prófkjörinu, ekkert lagði á sig til að vinna sér sæti á listanum en er greinilega talin frambærilegri en þær góðu konur sem náðu verðskulduðum árangri en njóta ekki náðar flokkseigendafélagsins.


Ekki til fyrirmyndar! (með athugasemd)

Þar sem ég hef það sem vinnureglu að breyta hvorki né eyða færslum hér á vefnum, set ég þessa athugasemd ofan við upprunalegan pistil. Bjallaði í Ómar Garðarsson eftir að ég setti þessa færslu inn og hann var í þeim töluðum orðum að ljúka við að setja inn svar við bréfi nafna míns. Ég hefði náttúrulega átt að hringja fyrst og skrifa svo :) Þakka Ómari skjót viðbrögð og vona að þetta verði ekki til að draga athyglina frá mjög svo mikilvægri umræðu, sem er aðgengi fatlaðra að þjónustu hér í bæ.

Ég verð að játa að nú þykja mér vinnubrögð ritstjórnar Eyjafrétta engan veginn til fyrirmyndar. Þeir hafa birt, athugasemdalaust, í uppslætti á vefsíðu sinni bréf frá Sigurði Friðrikssyni, viðskiptastjóra Glitnis í Vestmannaeyjum, sem augljóslega er birt á misskilningi. Þar eignar nafni minn mér skrif um húsnæði Glitnis við Kirkjuveg. Þau skrif voru alfarið á ábyrgð ritstjórnar Eyjafrétta. Ég benti aðeins á aðgengi að Safnahúsinu og eins og allir vita var þar engu logið. Mér þykir miður að ritstjórn Eyjafrétta reyni á þennan hátt að kasta rýrð á skrif mín hér á vefnum okkar og einkennilegt að hún skuli ekki taka ábyrgð á sínum eigin skrifum.


Kyndarar á Fréttum

Blaðamenn Frétta virðast stundum hafa lúmskt gaman af því að kynda undir einhverju sem ekkert er.  Nú virðast þeir telja að ritstjóri sé kominn í eitthvert stríð við Guðrúnu Erlingsdóttur.  Því fer fjarri.  Eins og kom skýrt fram í pistli mínum um varaformennsku í fjölskylduráði er honum ekki á nokkurn hátt beint gegn persónu Guðrúnar, enda þekki ég hana af góðu einu.  Ég var aðeins að benda á að þar væri bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar, sem V-listinn samdi ásamt D-lista síðastliðinn vetur, brotin.
Hvað varðar pistil um aðgengi fatlaðra að bæjarstjórnarfundum, beindi ég því til varaformanns fjölskylduráðs sem fulltrúa minnihlutans, að taka málið upp á næsta fundi, því ekki virðist meirihlutinn hafa miklar áhyggjur af aðgengi fatlaðra hér í bæ.


Fleiri greinar úr bæjarmálasamþykkt

Ákvæði bæjarmálasamþykktar um aðgengi fatlaðra var gróflega brotið á síðasta bæjarstjórnarfundi. Eins og lesendur muna varð sá fundur að yrkisefni hér á síðunni og kom ekki til af góðu. Væntanlega hefur vandræðagangur meirihlutans valdið því að hann ákvað að halda fundinn uppi á háalofti í Safnahúsinu og vonast þannig til að sem fæstir mættu. Og til að bæta gráu ofan á svart stenst það húsnæði ekki kröfur bæjarmálasamþykktarinnar, en þar segir:

Bæjarstjórnarfundur skal haldinn í húsnæði sem fullnægir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um aðgengi fatlaðra.

Það væri athugandi fyrir varaformann fjölskylduráðs að taka þetta upp á næsta fundi ráðsins.


Situr varaformaður fjölskylduráðs í trássi við bæjarmálasamþykkt?

Ritstjóri var að dunda sér við lestur bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar er hann rak augun í eftirfarandi í 1. málsgrein 41. greinar um ráð stjórnir og nefndir:

…skulu formenn og varaformenn rá́ðanna koma úr hópi aðal- og varabæjarfulltrúa.

Nú háttar svo til að varaformaður fjölskylduráðs er hvorki aðal- né varabæjarfulltrúi. Ekki svo að skilja að ég vilji á nokkurn hátt draga í efa hæfni varaformannsins til að sinna þessum málaflokki, enda hefur hún gert það um árabil af kostgæfni. En reglur eru settar til þess að fara eftir þeim og því þykir mér þetta skjóta skökku við. Ef brjóta má þessa grein þegar hentar, hvaða grein verður þá brotin næst, þegar það hentar?  Hafi ég hinsvegar bara misskilið reglurnar svona illilega vona ég að einhver bendi mér á hvernig öðruvísi er hægt að skilja málið.


Aðsendur pistill

Heil og sæl.
Það var vægast sagt skelfilegt aðupplifa þátt auglýsinga á annars ágætum þætti um starfsemi Unicef á Íslandi í gærkvöld. Frábært framtak, sem er söfnun heimsforeldra til styrktar börnum í Afríku. Það lá við að maður fengi ógeð á ósmekklegum auglýsingum ýmissa fyrirtækja á “nauðsynjavörum” fyrir jólin. S.s. smákökum Jóa Fel. bráðnauðsynlegum jólaseríum og ýmsu fleira drasli, sem verið er að telja okkur trú um, að fylgi jólaundirbúningi landsmanna. Með tilliti til umfjöllunaefnis þáttarins, hefði mér fundist eðlilegra, að hin ýmsu fyrirtæki hefðu sent önnur skilaboð inn á heimilin. Erum við Íslendingar orðnir svo veruleikafirrtir, að við skiljum ekki lengur einföldustu umhugsunarefni.
Kveðja Friðbjörn Valtýsson

Er Sjálfstæðisflokkurinn kommúnistaflokkur?

Ég verð að segja eins og er að ég átta mig hreinlega ekki á því á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þjóðlendumálinu. Verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar veldur því að Framsóknarflokkurinn virðist enga aðkomu hafa að málinu og það alfarið á hendi fjármálaráðherra. Enda er alveg ljóst að Framsóknarráðherrar hefðu aldrei samþykkt að farið yrði fram með þessum hætti ef það hefði legið fyrir í upphafi. Gríðarleg óánægja er meðal framsóknarmanna með framferði ríkisstjórnarinnar í málinu þar sem um er að ræða einhverja mestu eignaupptöku í sögu þjóðarinnar.

Þannig virðist engu máli skipta þó einstaklingar og sveitarfélög haldi á þinglýstum kaupsamningum frá ríkinu, sem blekið er varla þornað á, öllu skal mótmælt og gengið eins langt og mögulegt er í kröfum ríkisins. Svona vinnubrögð þekkjast varla nema úr gamla Sovétinu og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað orðið er um Sjálfstæðisflokkinn þegar hann stendur fyrir slíkri aðför að eignarréttinum. Það er greinilega ekki sama hvort sameign þjóðarinnar er í sjónum eða á heiðum uppi. Bændur hafa kannski bara ekki borgað nógu mikið í kosningasjóðina.
Framsóknarþingmenn eru þó fráleitt stikkfrí í þessu máli. Það er löngu kominn tími á að þeir berji í borðið og segi hingað og ekki lengra. Við svona framkomu ríkisins við borgarana verður ekki unað.


Eyjamatur á uppleið

Ritstjóri fékk vatn í munninn þegar hann rakst á auglýsingu í Blaðinu í fyrradag um humar í neytendapakkningum. Myndin var af stórri og girnilegri nautalund með humarfyllingu. Ekki minnkaði hamingjan þegar ég sá að þarna var Vinnslustöðin að auglýsa. Það er mikið ánægjuefni að vinnslurnar hér í Eyjum séu farnar að færa sig ofar í virðiskeðjuna með því að markaðssetja beint til neytenda.

Með þessu tryggir Vinnslustöðin að mun stærri skerfur af söluverðmætum sjávarfangs í Eyjum skilar sér hingað. Við höfum séð það kraftaverk sem Grímur kokkur hefur unnið í þróun og markaðssetningu á sínum afurðum og nú fylgir Vinnslustöðin í kjölfarið. Það er óskandi að fleiri vinnslur hér í Eyjum fylgi þessu góða fordæmi. Þannig gætu Vestmannaeyjar skapað sér orð um allan heim fyrir frábæra matvælaframleiðslu, en ekki aðeins hráefnisöflun fyrir aðra.

Að lokum langar mig að kasta fram hugmynd. Ég sá í sumar pakka af harðfiski sem framleiðandi á Austfjörðum (að mig minnir) var að selja. Aftan á pakkanum var auglýsing frá sveitarfélaginu hans. Það væri athugandi fyrir Vestmannaeyjabæ að velta fyrir sér að fara í markaðsverkefni með framleiðendum hér í Eyjum. Bærinn gæti keypt staðlaða auglýsingu á pakkningum framleiðendanna og þannig auglýst bæinn okkar samhliða því að styðja við bakið á atvinnurekstri í Eyjunum. Kostnað við verkefnið mætti t.d. reikna sem mótframlag í Vaxtarsamninginn.


Eygló á Útvarpi Sögu

Eygló Harðardóttir, stjórnarmaður í Framsóknarfélagi Vestmannaeyja var í beinni hjá Jóhanni Haukssyni á Útvarpi Sögu í morgun. Hún ræddi þar m.a. stjórnmálaástandið í Eyjum og kynnti vef Framsóknarfélagsins. Fyrir þá sem eru að koma inn á vefinn eftir þá kynningu bendum við á pistilinn “Með allt niðrum sig í eldhúsinu” hér fyrir neðan.


Frábær miðstjórnarfundur

Ritstjóri sat miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í gær. Þar stimplaði Jón Sigurðsson sig rækilega inn sem öflugur leiðtogi flokksins.  Ræða hans var frábær og þurfti hann margoft að gera hlé á máli sínu vegna lófataks fundarmanna.  Mörg ummæli hans hafa fengið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum enda má segja að í gær hafi orðið nýtt upphaf í sögu flokksins.Formaðurinn gerði upp við mörg erfið mál liðins kjörtímabils og virðist kominn í gott samband við grasrót flokksins eftir fundaherferð forystunnar um landið síðustu vikur.  Framsóknarmenn geta litið björtum augum til komandi kosningavetrar með þessa öflugu og samstilltu forystu flokksins sem lagði línurnar á miðstjórnarfundinum í gær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband