Forystan þarf að taka í taumana

Þegar maður hélt loksins að áralöngu skeiði niðurlægingar Framsóknarflokksins væri að ljúka, að botninum væri náð og nú væri engin leið fær önnur en upp á við, tekst fámennum hópi flokksmanna á höfuðborgarsvæðinu að draga flokkinn enn dýpra.

Þetta eru þeir sömu menn og stjórnuðu helför Halldórs Ásgrímssonar.  Þetta eru sömu mennirnir og lögðu á ráðin um Freyjuklúðrið í Kópavoginum og Fréttastjóramálið í Efstaleitinu.  Þetta eru mennirnir sem eyddu tugum milljóna króna í síðustu sveitarstjórnarkosningum til að tryggja einum manni framtíð í pólitík.  Þetta eru mennirnir sem eru í krafti pólitískra áhrifa búnir að koma sér fyrir allan hringinn á jötu íslenskrar orku og er þar skamms að minnast einkennilegrar skipanar Páls Magnússonar sem stjórnarformanns Landsvirkjunar 5 mínútum fyrir kosningar í vor.  Þetta eru mennirnir sem eru að ná að festa stimpil spillingar og einkavinavæðingar varanlega á Framsóknarflokkinn. 

Og þetta eru mennirnir sem telja sig réttborna foringja flokksins.

Almennir framsóknarmenn hafa mátt sitja undir ýmsu siðustu misseri og einn af öðrum hafa þeir gefist upp á að verja vitleysuna sem runnið hefur undan rifjum þessara manna.  Í Vestmannaeyjum, þar sem menn hafa misst vinnuna fyrir minni sakir en fylgja Framsóknarflokknum að málum, skiljum við sem enn þraukum hreinlega ekki hvernig menn geta verið svona gjörsamlega blindir á afleiðingar eigin gjörða.  Manni dettur helst í hug að þessir menn lifi eftir gamla mottóinu "Heimsyfirráð eða dauði" og ef þeir nái ekki takmarki sínu skuli flokkurinn falla með þeim.  Það er að minnsta kosti einhver einkennileg sjálfseyðingarhvöt sem þar ræður för.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að formaður flokksins, Guðni Ágústsson, hafi boðað til fundar með sveitarstjórnarmönnum á SV-horninu eftir helgi.  Þá er bara að vona að hann hafi kjark til að setja hnefann í borðið.  Það er kominn tími til að sýna þessum greifum að þeir fá ekki að ríða húsum Framsóknarflokksins óáreittir mikið lengur. 

Verði þeir ekki stöðvaðir munu þeir ganga af honum dauðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ritstjóri

Góður punktur.  Það hljóta þó að vera einhverjir fleiri sem koma að starfinu þarna en bara kjörnir fulltrúar.

Því miður er ég samt hræddur um að þessi verði staðan mun víðar um landið haldi þessir greifar uppteknum hætti.

Ritstjóri, 7.10.2007 kl. 12:27

2 identicon

Leitt að segja Arnþór, þá held ég að þú hafir rétt fyrir þér.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 12:51

3 identicon

Til þess að leiðrétta það sem Arnþór segir hér að ofan þá á Framsókn 2 bæjarfulltrúa í Garðabæ. Garðabær, Hafnafjörður, Mosfellsbær og Kópavogur eiga hins vegar ekkert í Orkuveitunni. Orkuveitan er í eigu Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar. Samtals á Framsókn 5 fulltrúa í sveitarstjórnum á svæðinu. 

Eggert (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 15:40

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ef einhverjir ganga af Framsóknarflokknum dauðum þá eru það  Framsóknarmenn á  Vesttmannaeyja-Árborgarsvæðinu með Guðna og Bjarna í fararbroddi.Þeir klára þá það verk sem þeir hafa verið að vinna undanfarin ár.

Sigurgeir Jónsson, 14.10.2007 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband