Íhaldið og þunglyndið

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig spunameistarar íhaldsins hafa reynt að stjórna umræðu síðustu daga um meirihlutaskiptin í Reykjavík. Hver á fætur öðrum hafa þeir skrifað leiðara, blogg og innsendar greinar þar sem hamrað er á því að borgarfulltrúar minnihlutans standi fyrir ófrægingarherferð á hendur nýjum borgarstjóra, Ólafi F. Magnússyni. Spunameistararnir tyggja það upp hver eftir öðrum að hér sé á ferðinni svívirðilegasta mannorðsmorð sem sögur fara af. Ekkert sé heilagt og minnihlutinn nýti sér veikindi Ólafs til að gera hann tortryggilegan.

Það er nú samt svo að þeir sem mest hafa rætt veikindi Ólafs síðustu vikuna eru einmitt þessir spunameistarar íhaldsins, í veikburða tilraun til að þeyta skít í allar áttir og vona að eitthvað festist. Og nú hefur bæjarstjórinn okkar í Vestmannaeyjum bæst í þennan hóp.

Maður hélt nú að Elliði hefði látið af svona löguðu þegar hann komst aftur í meirihluta á síðasta kjörtímabili. Sérstaklega eftir að hann endurfæddist í hlutverki hins algóða og alltumlykjandi bæjarstjóra eftir síðustu kosningar. Umskiptin voru reyndar svo svakaleg að stundum hélt maður að sá Elliði sem froðufelldi í ræðustól, blaðagreinum og viðtölum á meðan hann hamaðist á Andrési bakara hefði hreinlega verið einhver allt annar Elliði en nú situr á stóli bæjarstjóra sem sameiningartákn Eyjamanna og talar vel um minnihlutann í öðru hverju orði. En þetta er sennilega bara munurinn á því að vera í minnihluta eða meirihluta.

Það er svo efni í annan pistil hvernig nýr borgarstjóri í Reykjavík hefur tekist á við umræðuna um veikindi sín. Að heimilislæknir skuli vera haldinn svo miklum fordómum gagnvart geðsjúkdómum að hann neitar að tala um þunglyndi heldur vill aðeins tala um "andlegt mótlæti" er sorglegt. Ef Ólafur hefði lent í bílslysi, brotnað illa og farið í endurhæfingu hefði enginn talað um "líkamlegt mótlæti". Sennilega hefðu allir hrósað Ólafi fyrir þann viljastyrk og dugnað sem þurfti til að ná fullri heilsu og starfsorku. Hann hefði jafnvel verið talinn öflugri borgarstjóri fyrir vikið. Hefði Ólafur getað horfst í augu við eigin sjúkdóm líkt og Kjell Magne Bondevik, fyrrum forsætisráðherra Noregs gerði, væri málinu líklegast lokið.

Að pennar íhaldsins skuli telja að umræða um veikindi Ólafs verði til þess að grafa undan stöðu hans sem borgarstjóri afhjúpar í raun fordóma þeirra sjálfra gagnvart geðsjúkdómum. Að sálfræðingurinn Elliði skuli reyna að nýta sér þau í pólitískum tilgangi er raunalegt að sjá. Að Ólafur skuli sjálfur leiða þessa umræðu er þó sorglegast af öllu. Fordómar hans sjálfs gætu orðið honum að falli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband