Samvinna og lýðræði

Samvinna og samstaða eru hugtök sem voru Eyjamönnum ofarlega í huga fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Átök og upphlaup kjörtímabilsins þar á undan voru okkur erfið og áttu þar allir flokkar einhverja sök. Því er ekki skrýtið að slagorð á borð við “Einn flokk til ábyrgðar” hafi átt upp á pallborðið fyrir fjórum árum. Störf bæjarstjórnar síðustu fjögur árin hafa svo einkennst af því sem kallað hefur verið samvinna, þar sem meirihluti og minnihluti hafa gengið saman hönd í hönd.

En hvað er samvinna í raun? Samvinna felur ekki í sér að allir þurfi alltaf að vera sammála, eða að þeir sem ekki eru sammála þori ekki að tjá skoðanir sínar. Samvinna felur heldur ekki í sér að einhver einn ráði öllu. Slíkir starfshættir kallast einræði. Samvinna er þegar ólíkir hópar, með ólíkar skoðanir eru leiddir saman, allir fá að tjá hug sinn og síðan er leitast við að sætta ólíkar skoðanir og vinna saman að lausn sem er heildinni til hagsbóta. Þannig er samvinna og þannig er líka lýðræðið.

Lýðræðið felst ekki í því að kosið sé á fjögurra ára fresti og þess á milli ráði sá öllu sem flest atkvæðin fékk. Lýðræðið felst í því að kjörnir fulltrúar endurspegli ólíkar skoðanir samfélagsins og vinni að framgangi þeirra í samfélaginu. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða að hvetja almenning til að tjá skoðanir sínar, hversu vel eða illa sem þeim hugnast þær, hlusta á fólk og taka mark á því. Fílabeinsturnar fylltir jábræðrum geta aldrei verið táknmyndir lýðræðisins. Það hefur aldrei verið ljósara en einmitt nú.

Sveitarstjórnarmenn, þingmenn og ráðherrar taka daglega ákvarðanir sem varða okkur öll. Þeir eiga að vera fulltrúar okkar allra, en ekki bara sumra. En ábyrgðin hvílir líka á almenningi. Við verðum að þora að láta rödd okkar heyrast. Við eigum þá kröfu að á okkur sé hlustað og við eigum þá kröfu að geta sagt okkar skoðun án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. Á því byggir lýðræðið og á því byggir samvinnan.

Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja

(Greinin birtist í Fréttum 15. apríl)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband