26.4.2010 | 08:45
Nýjir tímar með Landeyjahöfn
Með opnun Landeyjahafnar í sumar verður bylting í samgöngumálum Eyjamanna. Til þessa hafa menn einkum einblínt á þær breytingar sem hin nýja siglingaleið hefur á þá sem þegar ferðast milli lands og Eyja. Breytingarnar sem verða með hinni nýju höfn eru hins vegar miklu víðtækari. Nýjir möguleikar opnast í flutningum á fólki og farmi og ef við höldum rétt á spilunum geta Vestmannaeyjar öðlast nýtt hlutverk sem hlið Íslands að umheiminum.
Með höfn í Bakkafjöru getum við reynt að breyta ferðamynstri farþega skemmtiferðaskipa. Nú eru Eyjarnar aðeins viðkomustaður á leið til Reykjavíkur, þaðan sem farið er í útsýnisferðir um Suðurland. Ný höfn á miðju Suðurlandi getur gert Vestmannaeyjar að upphafsstað slíkra ferða, þar sem farþegar koma í land í Eyjum, fara með Herjólfi upp í Bakkafjöru og áfram að Gullfossi og Geysi, austur á Skóga eða í Skaftafell, á meðan skipin sigla til Reykjavíkur. Slíkt yrði ekki aðeins til mikilla hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum, heldur munu Rangæingar njóta góðs af aukinni umferð ferðamanna um svæðið.
Vöruflutningar um Vestmannaeyjahöfn geta einnig stóraukist, þar sem flutningaleiðir til og frá Austfjörðum og allt vestur á Reykjanes gætu styst verulega. Auknir vöruflutningar með Herjólfi og aukin útskipun í Eyjum gætu leitt af sér aukna ferðatíðni og aukin umsvif í Vestmannaeyjahöfn og þar með treyst samgöngur til Eyja og aukið atvinnu. Aftur gætu Rangæingar notið góðs af, t.d. með vörugeymslum og annarri umsýslu, þar sem nægt landrými er til staðar.
En á þessum tímamótum þurfum við að hugsa stórt. Við þurfum að kanna til hlítar alla möguleika í nýtingu hinnar nýju hafnar og þeirra tækifæra sem hún býður upp á. Í síðustu viku lögðu þingmenn Framsóknarflokksins fram tillögu til þingsályktunar um að kannaðir verði möguleikar á ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og Bretlands. Ætlunin er að kanna forsendur þess að flytja vörur og ferðamenn beint milli Eyja og Evrópu á svipaðan hátt og gert er með Norrænu milli Seyðisfjarðar og Danmerkur. Með slíkum ferjusiglingum væri hægt að stórauka straum ferðamanna, innlendra sem erlendra, um Vestmannaeyjar og Suðurland, auk þess sem nýjir möguleikar opnast í útflutningi frá Eyjum og Suðurlandinu öllu.
Fyrirkomulag slíkra siglinga má hugsa sér á margan hátt. Þannig gætu útgerðarfyrirtæki í Eyjum átt samstarf við ferðaþjónustuaðila í Eyjum og á Suðurlandi öllu um rekstur slíkrar ferju, eða samið við skipafélög, innlend eða erlend um reksturinn. Hægt væri að leggja áherslu á flutning ferðamanna yfir sumarið, en aukið hlut fraktflutninga yfir vetrartímann. Áfangastaðir á Bretlandseyjum gætu þannig ráðist af árstíma og áherslu á ferðamenn eða frakt.
Ítarleg hagkvæmniathugun á borð við þá sem Framsóknarmenn leggja til er forsenda þess að farið verði af stað í slíkt verkefni. Mikil vinna er framundan, en ávinningurinn getur verið gríðarlegur í sköpun starfa, aukinni hagkvæmni í flutningum og stóraukinni ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta, út- og innflytjendur, ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög komi að þessari vinnu, sem og skipafélög og aðrir hugsanlegir rekstraraðilar. Ríkið getur leikið stórt hlutverk við að koma þessari vinnu af stað, en skipulag og framkvæmd verður að vera í höndum heimamanna.
Mikilvægi samvinnu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga í Vestmannaeyjum, Rangárþingi og á Suðurlandi öllu hefur aldrei verið meira en einmitt nú, því samvinnan er afl hinna smáu og með samvinnunni eru okkur allar leiðir færar.
Sigurður E. Vilhelmsson
formaður Framsóknarfélags Vestmannaeyja
(Greinin birtist í Fréttum 8. apríl síðastliðinn)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.4.2010 kl. 10:14 | Facebook
Athugasemdir
Þvílíkt bull, til þess að þessi draumsýn geti orðið að veruleika þarf að vera fært í höfnina MEIRA en einn þriðja af árinu. Hingað til hefur ekki verið fært þarna meira en einn þriðja af árinu (samkvæmt gögnum frá veðurstofunni) og þá er einungis tekið tillit til veðurs ekki sandburðar eða neins annars.
Jóhann Elíasson, 26.4.2010 kl. 09:24
Sæll Jóhann,
Samkvæmt skýrslu stýrihóps um hafnargerð í bakkafjöru byggja þeir spár um frátafir á öldumælingum árin 2004-2006. Samkvæmt þeim eru heils dags frátafir 7-8 dagar á ári. Til viðbótar eru svo hálfsdags frátafir 7-9 á ári. Samtals eru því frátafir vegna ölduhæðar 3-4% á ársgrundvelli og 6-12% frá nóvember fram í mars. Miðað við áætlaða ferðatíðni er því gert ráð fyrir að um 3% ferða falli niður á ári og þá tölu má lækka með því að hliðra til ferðum um 1-2 klst.
Það væri áhugavert að sjá þessi gögn sem þú vitnar í. Getur þú gefið mér upp tengil á þau?
Ritstjóri, 27.4.2010 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.