Nú er að duga eða drepast

Í Silfri Egils í dag lýsti Sigurður Kári Kristjánsson því yfir að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra ætti að segja af sér.  Og hver var ástæðan?  Jú, hún fór fram á að Sjálfstæðismenn stæðu við stjórnarsáttmálann sem þeir gerðu við Framsóknarflokkinn.  Sigurður Kári lítur svo á að hér sé svo alvarlega brotið á rétti Sjálfstæðismanna til að fara sínu fram að ráðherranum sé ekki sætt.

Það er greinilegt að ekki er sama hver er.

Sigurði Kára væri nær að líta í eigin barm og samflokksmanna sinna. 

Hvað með það þegar Davíð Oddsson lýsti einn og óstuddur yfir stuðningi við George Bush og innrásarstríð hans í Írak og dró svo Framsóknarflokkinn með sér í svaðið? 

Hvað með þegar Geir H. Haarde, núverandi formaður flokksins ákvað að gengið yrði út á ystu nöf í þjóðlendumálinu og eins langt og dómstólar leyfðu, þvert á vilja Framsóknarmanna og reyndar Alþingis alls? 

Hvað með þegar formaður Samfylkingarinnar lýsir yfir í Morgunblaðsviðtal að Sjálfstæðismenn hafi í allan vetur verið í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna, væntanlega undir forystu Þorgerðar Katrínar?

Hvað með þegar Sjálfstæðismenn neita að uppfylla ákvæði stjórnarsáttmálans þess efnis að ákvæði um að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar skuli bundið í stjórnarskrá?

Aftur og aftur hefur Sjálfstæðisflokkurinn vaðið yfir Framsóknarflokkinn og meirihluta þjóðarinnar á skítugum skónum og allt of lengi hefur honum liðist það.  Þar er vissulega við núverandi og fyrrverandi forystu Framsóknarflokksins að sakast.  Allt of lengi hefur hún látið Sjálfstæðisflokkinn ráða för.  Og jafnvel nú, þegar Siv Friðleifsdóttir bendir á alvarleika þess að svíkja stjórnarsáttmálann á síðustu metrunum, dregur formaðurinn úr og segir alla umræðu á misskilningi byggða.

Það er mikilvægt að ráðherrar Framsóknarflokksins reyni nú að halda höfði fram að þinglokum.  Þeir verða að tryggja að ákvæðið um auðlindirnar í stjórnarskránni verði samþykkt fyrir þinglok.  Þeir verða einnig að tryggja að þjóðlendumálið verði stöðvað nú þegar.  Til þess hafa þeir meirihluta á þingi svo þeir hafa enga afsökun.  Nái þeir þessum málum ekki í gegn er tími til kominn að endurskoða veru þeirra á þingi, sem og í forystu flokksins.


Frumhlaup í fréttaflutningi

Á vef Eyjafrétta í dag er frétt um stýrihóp þann sem nú er að störfum vegna aldursskiptingar Grunnskóla Vestmannaeyja sem nýlega var samþykkt í bæjarstjórn.  Í fréttinni segir að 1. til 5. bekkur verði  í Hamarsskóla og 6. til 10. í Barnaskóla.  Jafnframt segir að stýrihópurinn sé sammála skólastjórnendum um skiptinguna.

Nú er það svo að stýrihópurinn hefur aðeins haldið tvo fundi síðan hann hóf störf og langt í land með að hann skili af sér niðurstöðum.  Jafnframt er ljóst að engar ákvarðanir hafa verið teknar um við hvaða aldur skiptingin verði og þaðan af síður hvernig skipt verði milli starfsstöðva.  Þá er mikil vinna í gangi hjá kennurum beggja starfsstöðva hvað varðar framtíðarskipulag skólans og sýnist þar sitt hverjum.

Ekki veit ritstjóri hvaðan Eyjafréttir hafa sínar heimildir, því fundargerðir stýrihópsins er ekki að finna á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.  Það er hinsvegar ljóst að vinna stýrihópsins er á viðkvæmu stigi og margar hugmyndir á lofti sem eftir er að vinna úr.  Því er fréttaflutningur á borð við þann sem kemur fram á Eyjafréttum í dag varhugaverður og ekki til eftirbreytni.


Klofningur í Sjálfstæðisflokknum

Það er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður þegar kemur að samgöngum til Vestmannaeyja.  Forysta flokksins, með Sturlu Böðvarsson í fararbroddi hefur útilokað jarðgöng til Eyja, en stór hluti flokksins í Eyjum, með Árna Johnsen í fararbroddi (en hann kemur fram í boði Magnúsar Kristinssonar) blæs á Bakkafjöru og neitar að ræða annað en göng.  Og milli steins og sleggju situr meirihlutinn í bæjarstjórn.  Ekki mega þeir móðga Sturlu, því þá hættir Sturla (og forystan) að tala við þá og ekki mega þeir heldur móðga Árna (og Magnús), því þá hættir stór hluti baklandsins í Eyjum að styðja við bakið á þeim. 

Það er ljóst að meirihlutinn í bæjarstjórn verður í erfiðri stöðu fram á vorið því samgöngumál verða væntanlega mál málanna í kosningabaráttunni, a.m.k. hér í Eyjum, og þar veit meirihlutinn hreinlega ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.


Öldungurinn allur

Nú er um það bil að ljúka merkum kafla í atvinnusögu Vestmannaeyja.  Um þessar mundir er unnið hörðum höndum við að rífa grafskipið sem þjónað hefur höfninni um áratuga skeið.  Skipið var smíðað í Danmörku, sérstaklega fyrir Eyjamenn og kom það hingað árið 1929.  Það átti því tvö ár í áttrætt á þessu ári.  Nú hefur það hlotið sömu örlög og fjölmörg önnur menningarverðmæti okkar Eyjamanna, sem horfið hafa til feðra sinna á.  Svo er spurning hvort betra sé að fornminjar fái skjótan dauðdaga með því að verða rifnar í brotajárn, eða taki mörg ár að grotna niður í vanrækslu og volæði.


Eftir allt sem á undan er gengið hefur ekkert breyst

Á skólamálaráðsfundi í fyrradag var samþykkt einróma tillaga um að frá og með næsta hausti verði Grunnskóla Vestmannaeyja aldursskipt.  Mun þá yngra stigið verða í öðrum skólanum og það eldra í hinum.  Í Fréttum í dag lýsir bæjarstjórinn mikilli ánægju með þessa niðurstöðu.  Hann segir að fyrirhugaðar breytingar hafi verið mikið ræddar innan skólans og því tímabært að taka ákvörðun.

En hvaða umræða er þetta sem farið hefur fram innan skólans?  Jú, kennurum var talin trú um að þeir hefðu eitthvað um það að segja hver framtíðarskipan Grunnskóla Vestmannaeyja yrði.  Ekki nóg með það, heldur var þeim att út í viðamikla hugmyndavinnu og áætlanagerð þar sem markmiðið var að leggja fram tillögur um hvernig ná mætti faglegum, félagslegum og fjárhagslegum ávinningi í skólakerfinu. 

Kennarar skiluðu frá sér skýrslu þar sem mikill meirihluti lagði til að í stað þess að aldursskipta skólanum yrði lokið við byggingu Hamarsskóla, hætt yrði að innrita nemendur í Barnaskólann og í stað þess færu allir nýnemar í Hamarsskóla og þannig væri hægt að flytja alla nemendur á einn stað á 5-6 ára tímabili.  Með þessum aðgerðum töldu kennararnir að til yrði fullbúinn og fullkláraður grunnskóli í bæjarfélaginu, öll starfsemin endaði á einum stað, með tilheyrandi hagræðingu og síðast en ekki síst að þetta yrði sársaukaminnsta leiðin til breytinga, minnst rót á börnum og starfsfólki.

En hvað gerðist svo?  Ekkert tillit var tekið til tillagna kennara.  Bæjarstjórn sat fast við þá ákvörðun sem hún virðist hafa tekið fyrir löngu og  nuddar svo salti í sárin með eftirfarandi klausu í greinargerð með tillögunni:

Skólafólk hefur nú á yfirstandandi skólaári lagt á sig mikla vinnu í að móta sína framtíðarsýn og skilað inn tillögum um það í hverskonar rekstrar og faglegu umhverfi það teldi skólastarfi best háttað næstu árin. Kennarar hafa með tillögum sínum sýnt það að þeir eru tilbúnir til að ráðast í gagngera endurskoðun á öllu grunnskólastarfi í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir að ekki sé með tillögu þessari komið að fullu til móts við óskir og framtíðarsýn kennara tekur hún mið af þessari góðu vinnu kennara...

 

Það er hreinlega ómögulegt að sjá hvernig bæjarstjórn hefur komið til móts við kennara með þeirri tillögu sem nú hefur verið samþykkt.  Það liggur við að þakka beri fyrir að ekkert samráð hefur verið haft við foreldra í þessu ferli öllu, því að minnsta kosti þurftu þeir ekki að leggja á sig mikla vinnu sem svo hefði verið hunsuð.

Það er sérkennilegt að það skuli einmitt vera bæjarstjórn undir forystu þeirra tveggja manna sem mest gagnrýndu vinnubrögð fyrri meirihluta í skólamálum sem ganga nú fram með miklum einstrengingshætti.  Núverandi minnihluta er sosum vorkunn í þessu máli en hann situr uppi með stefnu brottflúins leiðtoga síns í skólamálum.

Svo er að sjá hvort þeir kennarar og foreldrar sem hæst töluðu gegn aldursskiptingu Grunnskóla Vestmannaeyja í fyrra muni mótmæla þessari ákvörðun bæjarstjórnar jafn kröftuglega, nú þegar allir eiga að lifa saman í sátt og samlyndi með sól í hjarta skv. ráðleggingum bæjarsálfræðingsins okkar.


Hjálmar og Birkir leggja til atlögu við Sturlu

Í fyrradag var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þeirra Framsóknarþingmanna Hjálmars Árnasonar og Birkis Jónssonar um endurskoðun á gjaldskrám ferja.  Hún felur í sér að kostnaður farþega við að sigla með ferjum á staði utan þjóðvegakerfisins verði sambærilegur við akstur á vegum.  Gert er ráð fyrir að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir 1. maí á þessu ári.

Þetta er gott framtak hjá þeim Hjálmari og Birki og gott innlegg í hagsmunabaráttu Eyjamanna.  Þá er að vona að Sjálfstæðismenn sjái sóma sinn í að hleypa þessu máli í gegn svo hægt verði að klára það fyrir kosningar.


Til hamingju ÍBV

Ritstjóri vill óska ÍBV innilega til hamingju með nýja framkvæmdastjórann.  Friðbjörn er mikill happafengur fyrir félagið.  Framundan eru erfiðir tímar ef takast á að snúa við erfiðum rekstri og snúa vörn í sókn.  Til þess þarf að nást að sameina alla Eyjamenn, hvar sem þeir eru fæddir eða hvar sem þeir eru búsettir, að baki ÍBV.  Ef einhver getur leitt slíkt starf er það Friðbjörn.  Ritstjóri óskar honum velfarnaðar í nýja starfinu.

Utandagskrárumræða á Alþingi

Lúðvík Bergvinsson blés til utandagskrárumræðu um Vestmannaeyjar á Alþingi í dag.  Það er ótvírætt merki um að kosningar eru í nánd.  Umræðan varð að vísu heldur sérkennileg þar sem fyrirspurnir Lúðvíks snéru allar, að því er virðist, að samgöngu- og hafnarmálum en þrátt fyrir það beindi hann þeim til viðskipta- og iðnaðarráðherra, en ekki samgönguráðherra.

Líklegast er þó að þingmanninum sé orðið ljóst að ekkert gagn er að leita til ráðherra Sjálfstæðisflokksins varðandi málefni Vestmannaeyja.  Það hefur sýnt sig aftur og aftur.  Þannig hafði Framsóknarflokkurinn
frumkvæði að þeim vaxtarsamningum sem gerðir hafa verið um landið og miklar vonir eru bundnar við, m.a. í Vestmannaeyjum.  Þá hafa ráðherrar Framsóknarflokksins beitt sér fyrir auknum fjárframlögum til Hraunbúða og Heilbrigðisstofnunarinnar.

Þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins verið duglegir við að taka upp samgöngur til Vestmannaeyja.   Þannig hefur Hjálmar Árnason staðið fyrir umræðum utan dagskrár um málið og nú síðast er hann  meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu um bættar samgöngur til Eyja, einn stjórnarliða.

Það er því gott að sjá að Samfylkingin er farin að átta sig á að ef einhverjir innan núverandi ríkisstjórnar standa vörð um hag Vestmannaeyja eru það Framsóknarmenn.

Gróusögur

Bæjarstjórinn okkar í Eyjum, hann Elliði Vignisson er farinn að blogga.  Er það virðingarvert framtak og verður gaman að fylgjast með þessu alter egói bæjarstjórans næstu misseri.  Hann fer mikinn í síðustu færslu sinni þar sem kjaftasögur og slúður eru umfjöllunarefnið.  Eins og flestir Eyjamenn vita er bæjarstjórinn okkar sérfróður um Gróusögur og hefur meira að segja haldið námskeið á vegum Visku, símenntunarstöðvar þar sem meðal annars er farið í uppbyggingu, dreifingu og viðhald á slíkum sögum.

Eitthvað virðast þó vopnin snúast í höndunum á bæjarstjóranum á leið hans í gegnum þessa bloggfærslu sína.  Pistill hans þróast svo að þegar honum lýkur liggur helmingur bæjarbúa Vestmannaeyja undir grun um að útbreiða sögur um bæjarstjórann.  Hann segir aðeins að þar eigi í hlut; "[kona] sem hafði horn í síðu mína vegna ákvarðana sem ég átti þátt í".

Þá eru allir þeir sem titla sig ritstjóra vændir um að vera fótgönguliðar í einhverju meinsæri gegn bæjarstjóranum; "þar með eru komnir fótgönguliðar (og ritstjórar ;) til að breiða út boðskapinn".  Ekki það að undirritaður hafi tekið þetta til sín.

Ég held að bæjarstjórinn sé haldinn óþarfa vænisýki vegna þessa símtals frá ónefndum blaðamanni (aftur liggja allir blaðamenn undir grun).  Getur ekki bara verið að einhverjir bæjarbúar sakni skelegga kennarans úr Framhaldsskólanum og vilji bara fá hann aftur uppeftir?  Ég held að flestir geti verið sammála um að þar stóð hann sig vel. 


Víti til varnaðar

Var að enda við að hlusta  á umfjöllun Kastljóss um málefni upptökuheimilisins að Breiðuvík á Barðaströnd, að ég held. Hvers eiga þessir blessaðir drengir að gjalda. Ég verð að segja, að ef þessar lýsingar eru réttar, sem engin sérstök ástæða er til að draga í efa, þá þarf að gera allt til að hjálpa þeim til að losa sig við þessar skelfilegu minnningar. Einföld afsökunarbeiðni af hálfu yfirvalda mun eflaust hjálpa. Meira þarf þó augljóslega að koma til. Það er engin tilviljun að flestir drengirnir skyldu leiðast af réttri braut, og komast í kast við lögin. Þar getur sjálfsagt enginn, nema sá er reynt hefur ímyndað sér líðan óharðnaðra unglinga við svona aðstæður. Ekki veit ég hvort það þjónar einhverjum tilgangi, að draga menn til  ábyrgðar í þessu máli. Ef til vill hjálpar það fórnarlömbunum, en greinilega er þetta flókið mál og alla vega víti til varnaðar.

Friðbjörn Ó. Valtýsson

Þessi færsla kom í athugasemdir við síðustu færslu.  Mér þykir hún eiga heima hér á forsíðunni.
Ritstjóri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband