Eyjar: Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, 6. sæti

Segðu okkur frá sjálfri þér?

Ég heiti Sigurbjörg Kristín, alltaf kölluð Sigga Stína og starfa sem tryggingaráðgjafi hjá Sjóvá. Maðurinn minn er Gunnar Kristján Oddsteinsson, vélstjóri og við eigum fjórar dætur og tvö barnabörn. Ég er fædd og uppalin í Vík í Mýrdal og foreldrar mínir búa þar enn. Við hjónin höfum búið í 20 ár í þeirri paradís á jörð sem við köllum Vestmannaeyjar. Ég lauk námi við frumgreinadeild Háskólans á Bifröst vorið 2009 og hef síðan stundað nám í viðskiptafræðum. Starfsreynslan er fjölbreytt, en ég hef unnið við landbúnað, fiskvinnslu og í sláturhúsi, en í seinni tíð við skrifstofustörf. Ég stunda myndlist í frístundum auk stangveiði og fluguhnýtinga. Svo nýt ég þess að ferðast um landið með fjölskyldu og vinum.

Hvers vegna ákvaðstu að fara í framboð?

Mér finnst ákveðin stöðnun í stjórnsýslunni hér í bænum. Meirihlutinn er einráður og minnihlutinn hefur að mínu mati ekki veitt honum nægilegt aðhald. Fleiri raddir þurfa að heyrast og efla þarf lýðræðið. Það tekst ekki nema nýtt fólk gefi kost á sér. Mér fannst ég því ekki geta setið hjá að þessu sinni.

Hver eru þín helstu baráttumál?

Ég vil efla lýðræðið í Eyjum með aukinni þátttöku íbúa í stjórn bæjarins. Lýðræðislegri vinnubrögð með samráði við íbúa á öllum stigum mála, ásamt íbúakosningum er leið til þess. Þannig hefði til dæmis mátt koma í veg fyrir það mikla ósætti sem nú er uppi vegna tjaldsvæðisins. Bætt upplýsingagjöf til íbúanna, t.d með öflugri vefgátt, eflir líka lýðræðið og eykur gagnsæi í stjórnsýslunni.

Þá vil ég tryggja að hér sé raunverulegt jafnrétti til náms. Skóli án aðgreiningar er grundvallar krafa því skólinn verður að geta komið til móts við alla nemendur í samræmi við þroska og þarfir hvers og eins. Það veit ég að er ekki í dag.

Þjónustu við eldri borgara þarf að stórefla. Minn draumur er að bærinn eigi frumkvæði að byggingu nýrra þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, til dæmis með stofnun búsetusamvinnufélags. Með því móti væri hægt að bæta úr brýnni þörf þeirra eldri borgara sem vilja búa sjálfstætt en þurfa á þjónustu að halda.

Fyrir mér snúast bæjarmálin um að byggja upp samfélag sem þjónar hagsmunum okkar allra og í þeirri uppbygginu má ekkert okkar sitja hjá.

 


Framsókn og óháðir 2. tölublað

Hér er annað tölublað málgagns Framsóknar og óháðra 2010.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eyjar: Viðtal Eydís Tórshamar, 4.sæti

Segðu okkur frá sjálfri þér?

Eydís Tórshamar heiti ég og er sjúkraliði og er á öðru ári í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.  Ég er fædd í Færeyjum og flutti ásamt mömmu minni og bróður til Vestmannaeyja 1978.  Mamma mín er Guðný Anna Tórshamar, kölluð „Dinna“ og hún er ekkja  Jóhannesar Esra Ingólfssonar sem gekk mér í föðurstað. 

Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og gekk í Barnaskólann en fór snemma að þvælast.  Átján ára fór ég sem Au-pair í til Bandaríkjanna og var þar í tæp tvö ár og svo með annan fótinn þar í mörg ár á eftir.  Ég fór líka að vinna á Jersey á Ermarsundi 1997-1998 sem var stórkostleg upplifun þar sem ég var svo heppin að kynnast ensk/franskri menningu en þar sem eyjan er mitt á milli Englands og Frakklands voru öll nöfn á frönsku sem enginn gat borið fram því allir töluðu ensku, svo ég minnist ekki á vinstri umferðina!
Árið 1999 flutti ég til Álaborgar í Danmörku og bjó þar fram á haust. 2006.  Þar var ég að vinna í skólum og var í námi sem „pædagog“ sem er sambland af leikskólakennara og þroskaþjálfa og líka á barnaspítala, sem kveikti áhuga minn á heilbrigðisgeiranum.  Ég fékk vinnu á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum stuttu eftir að ég flutti heim og byrjaði í sjúkraliðanáminu í FÍV.  Ég kláraði sjúkraliðanámið og stúdentsprófið á 35 ára afmælisdeginum mínum og var ákveðin ði að halda áfram í hjúkrunarfræði eftir það. 

Hvers vegna framboð?

Stjórnmál hafa verið áhugamál hjá mér en ég hef verið  meira í því að kvarta heima. Tækifærið til að geta  tekið þátt í að gera samfélaginu til bóta í Vestmannaeyjum er núna.  Bæta þarf þjónustu við aldraða, við börnin okkar og nýta þann mannauð sem við eigum hérna í Eyjum.  Það verður að sjá til þess að þjónustan spítalanns skerðist ekki meira og að hér sé öruggt að vera.  Hér er stórkostlegt fólk og náungakærleikurinn er mikill og til þess að það haldi áfram verðum við að passa uppá hvort annað og vinna saman að því að hér vilji fólk eyða ævinni.  Ég er óháð flokkspólitík því ég trúi því að stjórnmál snúist um fólk, en ekki flokka. Á B-listanum er góður hópur sem á eftir að gera góða hluti í bæjarstjórn Vestmannaeyja.


Eyjar: Gagnsæi - hvað þýðir það?

Til að við getum tekið þátt í að móta samfélagið okkar þurfum við að vita hvað er að gerast. Við þurfum að vita hvað bæjarstjórnin er að brasa svo við höfum tækifæri til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru. Gagnsæ stjórnsýsla snýst um það. Hún snýst um að miðla upplýsingum og opna allt ákvörðunarferli bæjarstjórnar. Reykfylltu bakherbergin heyra sögunni til og vinna þarf hlutina fyrir opnum tjöldum. Í Eyjum hefur löngum skort á þetta gagnsæi og allt of oft standa íbúar ráðalausir gagnvart orðnum hlut. En hvað er til ráða?

Umboðsmaður íbúa
Nauðsynlegt er að koma á fót embætti umboðsmanns íbúa. Hann þarf að vera sjálfstæður gagnvart stjórnkerfinu og hefur það hlutverk að aðstoða íbúa í samskiptum við bæinn, hvort sem um er að ræða kvartanir eða ábendingar. Þá getur hann aðstoðað bæjarbúa sem þurfa á þjónustu eða upplýsingum að halda. Slíkur umboðsmaður gæti til dæmis tekið á móti þeim sem flytjast í bæinn og verið þeim til halds og trausts. Þá gæti hann leitt þróun íbúalýðræðis og annast íbúakosningar.

Virk vefgátt
Stórefla þarf vef Vestmannaeyjabæjar. Hann þarf að verða raunveruleg íbúagátt, þar sem hver íbúi getur skráð sig inn og nálgast auðveldlega allar upplýsingar, umsóknir, og önnur gögn. Þar ættu bæjarbúar að geta fylgst með gangi sinna mála er varða bæinn og náð sambandi við umboðsmann og aðra starfsmenn ef þörf krefur.

Útsendingar funda
Til að auðvelda bæjarbúum að fylgjast með vinnu bæjarstjórnar þarf að senda fundi hennar út á vef bæjarins og vista þar upptökur af eldri fundum. Þá ættu fastanefndir að halda opna fundi a.m.k. árlega, sem einnig mætti senda út á netinu.

Þetta eru aðeins nokkrar þeirra leiða sem við leggjum til svo auka megi gagnsæi stjórnsýslunnar og efla þannig lýðræðið í Eyjum. Lýðræði, samvinna og gagnsæi er það sem við þurfum á að halda.

Sigurður E. Vilhelmsson skipar 1. sæti á B-lista Framsóknar og óháðra

Eyjar: Hvers virði eru börnin okkar?

"Hlustaðu á mig, leyfðu mér að segja þér hvernig mér líður þegar ég heyri ekki í kennaranum....... það er erfitt..."

Menntun er forsenda framfara.  Við gerum kröfu á að hafa skóla án aðgreiningar, skóla sem mætir þörfum nemenda í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins og skóla þar sem börnin okkar fá jöfn tækifæri.

Foreldra eiga ekki að þurfa að berjast fyrir rétti barns síns í grunnskóla.  Það á að vera sjálfsagt að þeir sem þurfa á meiri aðstoð við nám en aðrir fái hana og þeir sem eiga við  fötlun að stríða t.d. skerta heyrn fái tilhlítandi úrræði önnur en þau að þurfa að sitja á fremsta bekk eða að leita á náðir líknafélaga. Það er skylda skólans að mæta þörfum allra nemenda skólans og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Því miður hafa foreldrar barna alltof oft komið að lokuðum dyrum og ekki fengið þá sértæku aðstoð sem sum hver þurfa  á að halda í skólastofu.

"Hlustaðu á mig, leyfðu mér að segja þér hvernig mér líður þegar ég heyri ekki í kennaranum....... það er erfitt mamma..."

Dæmi eru um það í Eyjum að foreldrar heyrnaskerts barns hafi þurft að leita til líknafélaga til að fá hljóðkerfi í skólastofu, til að barn þeirra hefði sömu möguleika á að heyra það sem fram fór í kennslustofunni því ekki var til fjármagn til slíkra kaupa. Forgangsröðun bæjarins hafa ekki náð til þessara þarfa nemenda því miður og þess vegna eiga þessir einstaklingar erfitt uppdráttar.

Það er útbreidd skoðun foreldra að hlutverk skólans sé að standa vörð um velferð barna sinna.  Jafnrétti á að vera í orði sem og á borði.  Sú staðreynd að foreldrar fatlaðra barna í Grunnskóla Vestmannaeyja verði að leita til líknarfélaga til að tryggja jafnrétti til náms er fráheyrt.

Börnin okkar eru meira virði en svo.

Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir skipar 6.sæti B-lista Framsóknar og óháðra

(Greinin birtist fyrst í Fréttum)


Framsókn og óháðir 1. tölublað

Hér er fyrsta tölublað málgagns Framsóknar og óháðra 2010.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eyjar: Íbúakosningar

Helsta baráttumál B-listans er að teknar verði upp íbúakosningar í Vestmannaeyjum. Við leggjum til að 25% bæjarbúa geti með undirskriftalistum óskað eftir kosningum um einstök mál, önnur en lögbundin verkefni sveitarfélagsins og þannig haft bein áhrif á mótun samfélagsins í Eyjum. Með því móti teljum við að bæjarstjórn geti unnið í betri sátt við íbúana en verið hefur. En hvað er íbúakosning og hvernig fer hún fram?  Við getum tekið dæmi um hvernig vinna má skipulag tjaldsvæðisins á mun lýðræðislegri hátt en gert hefur verið.

Íbúar Bessahrauns gætu staðið fyrir undirskrifasöfnun meðal kosningabærra íbúa. Takist þeim að safna undirskriftum 25% kjósenda væri bæjarstjórn skylt að láta fara fram kosningar um staðsetningu tjaldsvæðisins. Þá gæti bæjarstjórnin auglýst eftir hugmyndum um nýja staðsetningu og bæjarbúum gæfist þannig kostur á að skila inn hugmyndum. Bærinn ynni í framhaldinu úr tillögunum, greindi kosti þeirra og galla út frá sjónarmiðum ferðaþjónustu, íbúa og annarra sem hagsmuna ættu að gæta,  auk þess að gera kostnaðaráætlun fyrir hvert svæði.

Að því loknu má fækka valkostunum, t.d. miðað við það fjármagn sem ætlað væri í framkvæmdina. Þessir valkostir væru svo kynntir ítarlega, með opnum fundi og auglýsingu. Að lokum yrði boðað til kosninga þar sem bæjarbúar tækju endanlega ákvörðun um staðsetningu tjaldsvæðisins.

En er þetta ekki óþarflega flókið og dýrt? Vissulega er þetta flóknara ferli en ef bæjarstjórn gæti tekið ákvörðunina einhliða. Hins vegar má benda á að þau kærumál, breytingar á skipulagi og tafir á framkvæmdum sem geta fylgt einhliða ákvörðunum kosta líka mikinn tíma og peninga. Kosningarnar sjálfar þurfa svo ekki að kosta mikið. Hægt er að gefa fólki kost á að kjósa rafrænt, t.d. í gegnum heimabanka, auk þess sem hægt væri að setja upp tölvur í ráðhúsinu þar sem fólk gæti fengið aðstoð við að greiða atkvæði. Með því að láta kosningarnar standa yfir í nokkra daga þyrftu þær ekki að valda umtalsverðu álagi á þá starfsmenn bæjarins sem þeim sinntu, auk þess sem talning og úrvinnsla yrði öll rafræn.En er þetta ekki óþarflega flókið og dýrt? Vissulega er þetta flóknara ferli en ef bæjarstjórn gæti tekið ákvörðunina einhliða. Hins vegar má benda á að þau kærumál, breytingar á skipulagi og tafir á framkvæmdum sem geta fylgt einhliða ákvörðunum kosta líka mikinn tíma og peninga. Kosningarnar sjálfar þurfa svo ekki að kosta mikið. Hægt er að gefa fólki kost á að kjósa rafrænt, t.d. í gegnum heimabanka, auk þess sem hægt væri að setja upp tölvur í ráðhúsinu þar sem fólk gæti fengið aðstoð við að greiða atkvæði. Með því að láta kosningarnar standa yfir í nokkra daga þyrftu þær ekki að valda umtalsverðu álagi á þá starfsmenn bæjarins sem þeim sinntu, auk þess sem talning og úrvinnsla yrði öll rafræn.

(Greinin birtist fyrst í 1.tölublaði blaðs B-lista Framsóknar og óháðra í Vestmannaeyja)


Eyjar: Stórkostlegir tónleikar!

Ég fór á stórkostlega tónleika með hljómsveitinni Tríkot og Lúðrasveit Vestmanneyja í gær.  Eftir að hafa notið þess að hlusta á þau spila hverja perluna á fætur annari fór ég að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum svo stór hópur ólíkra einstaklinga gæti myndað svona heild. Hvernig 75 manns, hver með sitt hljóðfæri, gætu hljómað svo vel saman.  Þarna var samankominn hópur fólks, hver með sína hæfileika, sem starfaði saman sem ein heild.  Lykilorðið er samvinna, sem er grundvöllurinn að svo mörgu. 

Útkoman hefði ekki orðið svona glæsileg ef Tríkot hefði spilað sitt án þess hlusta eftir því sem lúðrasveitin var að gera og öfugt.  Hvað þá ef t.d.  trompetleikararnir hefðu nú spilað hver eftir sínu nefi eða túbuleikararnir tekið sóló í hverju lagi, eða bara þegar þá langaði til.  Á svona tónleikum þurfa allir að vinna saman eins og ein stór fjölskylda. Hver og einn þarf að hlusta á alla hina og samvinnan er fyrir öllu.
Það sama á við um samfélagið okkar ef okkur á að ganga vel.  Hver eining getur getur ekki starfað nema í samvinnu við heildina og það eru einstaklingar sem skapa heildina.  Heildin væri ekki neitt án einstaklinganna.  Hvað væri lúðrasveit án hljóðfæraleikara?  Hvað væru tónleikar án áhorfenda? Hvað væri bæjarfélag án íbúa? Hver og einn er mikilvægur og allar raddir þurfa að heyrast, en heildin er sterkari en einstaklingarnir sem hana skipa.  Hver einstaklingur er mikilvægur og rödd hans verður að heyrast. Allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu.

Eydís Tórshamar skipar 4. sæti á lista Framsóknar og óháðra

(Birtist fyrst í Fréttum)


Eyjar: Íbúalýðræði

Krafan um aukið lýðræði hefur verið ráðandi í samfélaginu undanfarin misseri. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir glöggt hvaða hættur felast í þeirri lokuðu stjórnsýslu og flokks- og foringjaræði sem ríkt hefur hér á Íslandi undanfarna áratugi og ríkir í raun enn. Bein þátttaka almennings hefur einskorðast við kjörklefann á fjögurra ára fresti og þess á milli hafa litlar klíkur kjörinna fulltrúa og jábræðra þeirra verið einráðar. Afleiðingar þess eru öllum ljósar.

Krafan um aukið og beint lýðræði er réttmæt og á við í sveitarstjórnum, ekki síður en í landsmálunum. Aukið lýðræði kann vissulega að vera þyngra í vöfum og hugsanlega kostnaðarsamara en einræðið, en kostur þess er að ríkari sátt skapast um þær ákvarðanir sem teknar eru. Samvinnan eykst og allir fá að taka þátt í að móta sitt nærumhverfi og það samfélag sem þeir búa í.

Íbúakosningar eru eitt form aukins lýðræðis sem brýnt er að hrinda í framkvæmd hér í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórn getur sett einfaldar reglur sem kveða á um að ákveðinn fjöldi íbúa, t.d. 25-30%, geti farið fram á kosningar um einstök mál. Kosningar gætu farið fram í gegn um heimabanka og á rafrænan hátt í ráðhúsinu og gætu staðið yfir í nokkra daga. Á þann hátt gæfist öllum bæjarbúum færi á að segja sína skoðun án umtalsverðs kostnaðar fyrir bæjarfélagið. Þannig væri hægt að sjá fyrir sér kosningar um framtíðarstaðsetningu tjaldsvæðisins, forgangsröðun í framkvæmdum, áherslur í samgöngum og fleira. Bærinn gæti staðið fyrir opnum kynningarfundum um þá valkosti sem í boði væru hverju sinni og myndi það auka á umræður og upplýstar ákvarðanir kjósenda.

Aukið gegnsæi í stjórnsýslunni er annar mikilvægur þáttur lýðræðisins. Með öflugri vefgátt væri hægt að auka aðgengi bæjarbúa, ekki aðeins að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið, heldur ekki síður að ákvarðanaferlinu sjálfu og hægt væri að gefa íbúum kost á að koma á framfæri athugasemdum og ábendinum á einfaldan og auðveldan hátt. Beinar útsendingar á vefnum frá bæjarstjórnarfundum auka einnig gegnsæið og reglulegir opnir fundir nefnda bæta upplýsingastreymi og aðgengi bæjarbúa að stjórnsýslunni.

Lýðræði, samvinna og gagnsæi eru kjörorð B-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum. Okkar helsta baráttumál er að efla opna umræðu meðal bæjarbúa og gefa þeim tækifæri til að taka beinan þátt í stjórnun og stefnumótun bæjarins allt kjörtímabilið, en ekki aðeins 29. maí.

Sigurður E. Vilhelmsson og Sonja Andrésdóttir skipa 1. og 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra (Britist fyrst í Fréttum)


Lýðræði og samvinna í verki

Samfélagið hér í Eyjum minnir um margt á stóra fjölskyldu. Eyjamenn standa saman þegar eitthvað bjátar á og eru ávalt reiðubúnir að rétta náunganum hjálparhönd þegar á þarf að halda. Þessi samvinna og samstaða er ríkari hér en víðast hvar annars staðar og það er eitt af því sem gerir það svo eftirsóknarvert að búa í Vestmannaeyjum. En hvað er það sem býr til sterka fjölskyldu?

Feðraveldið sem ríkt hefur í gegnum aldirnar er á undanhaldi. Sterki fjölskyldufaðirinn sem öllu réði heyrir að mestu sögunni til og fjölskyldur taka sameiginlegar ákvarðanir við eldhúsborðið, þar sem allir eru hafðir með í ráðum. Hlustað er á alla fjölskyldumeðlimi, skoðanir þeirra og hugmyndir metnar að verðleikum og fjölskyldan kemst að sameiginlegri niðurstöðu sem allir eiga þátt í að móta. Þannig er samvinnan og þannig er lýðræðið.

Á sama hátt þarf stórfjölskyldan í Eyjum að vinna. Við sjáum öll hvað gerist þegar ákvarðanir eru teknar í þröngum hópi og ekki er hlustað á skoðanir þeirra sem málið varðar. Tjaldsvæðið er gott dæmi um það. Það er ekki ásættanlegt að börnin í Bessahrauni vakni upp um miðjar nætur með sauðdrukkið fólk að ganga örna sinna við svefnherbergisgluggann þeirra. Það er ólíðandi að fólk komist ekki út úr húsi dögum saman af ótta við innbrot og eyðileggingu. Þegar heildarhagsmunir eru metnir er ekki nóg að horfa á krónur og aura eða hvort gestir þurfi að aka í 4 mínútur eða 5 til að komast í búð. Lífsgæði íbúa Vestmannaeyja hljóta að ganga fyrir.

Það er heldur ekki nóg að vísa til þess að hægt sé að gera athugasemdir eftir að niðurstaðan er fengin. Það er ferlið sem leiðir til ákvörðunarinnar sem skiptir máli. Með því að fá alla að borðinu á meðan stefnan er mótuð er hægt að komast að niðurstöðu sem allir sætta sig við. Því miður hefur það ekki verið raunin með flestar stærstu ákvarðanirnar sem teknar hafa verið hér í bæ á síðustu árum.

Þannig var farið með sameiningu skólanna. Ákvörðunin var tekin í ráðhúsinu og henni varð ekki hnikað. Samvinnan fólst í því að kennurum og stjórnendum skólanna var falið að vinna úr orðnum hlut. Það sama á við um þær framkvæmdir sem standa yfir og fyrirhugaðar eru á næstu árum. Engin umræða fór fram um þær áður en ákveðið var að ráðast í þær og niðurstaðan er að um þær ríkir ekki sátt.

Þegar fjölskyldufaðirinn sest við eldhúsborðið og tilkynnir fjölskyldunni að hann sé búinn að ákveða að byggja bílskúr þar sem sandkassinn stendur er það ekki lýðræði, heldur einræði. Jafnvel þótt börnin geti fengið hann til að fresta framkvæmdum fram á haust svo þau geti að minnsta kosti notað sandkassann yfir sumarið, er ákvörðunin tekin og henni fær ekkert haggað. Telji faðirinn nauðsynlegt að byggja bílskúr er lágmark að hann hlusti á aðra fjölskyldumeðlimi og skoðanir þeirra á staðsetningu skúrsins. Fjölskyldan verður að komast að sameiginlegri niðurstöðu áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Stjórnsýslan í Vestmannaeyjum verður að starfa á grunni samvinnu og lýðræðis. Íbúakosningar og íbúaþing eru ein leið til þess að auðvelda íbúum að koma beint að þeim ákvörðunum sem teknar eru og gerir þeim kleift að móta stefnuna með bæjarstjórn. Með opnum, lýðræðislegum vinnubrögðum og beinni aðkomu íbúa að stjórnun bæjarins getum við gert fjölskylduna hér í Eyjum enn sterkari og samheldnari en áður. Lýðræði, samvinna og gegnsæi eru lykillinn að góðu samfélagi og fyrir því viljum við berjast.

Sigurður E. Vilhelmsson og Sonja Andrésdóttir skipa 1. og 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband