2.5.2007 | 11:51
Hvor er grænni, Prius eða Hummer?
Í allri umræðunni um gróðurhúsaáhrifin verður sífellt meiri pressa á fólk að láta umhverfissjónarmið stýra neyslunni og eru bílar þar stór þáttur. Þannig hefur t.d. Toyota sett á markað hinn ofurgræna Toyota Prius sem á að vera öllum bílum vænni er kemur að umhverfinu. Þannig hljóta allir að sjá að þeir sem aka um á Prius hljóta að vera miklu meðvitaðri um umhverfið en þeir sem böðlast um á monster trukkum á borð við Hummer. En er það svo einfalt?
Ritstjóri rakst um daginn á athyglisverða rannsókn þar sem reiknaður var út heildar orkukostnaður fyrir annars vegar Toyota Prius og hinsvegar hinn ógurlega Hummer. Þar var horft á orkunotkun við hönnun og framleiðslu bílanna, umhverfisáhrif vegna efnis sem notað er og svo kostnað við förgun bílanna. Eitt af því sem þar kom fram var að nikkelið sem notað er í rafhlöður Priusins veldur ekki aðeins óskaplegri mengun þar sem það er unnið, heldur er því svo siglt hringinn í kringum hnöttinn á leið sinni frá námum í Kanada, í hreinsistöð í Evrópu, áframvinnslu í Kína og svo fullvinnslu í Japan og þaðan á markað.
Til að gera langa sögu stutta er heildar orkukostnaður á hvern ekinn kílómetra í Prius nærri 50% meiri en í Hummer. Ótrúlegt, en satt. Þannig hefur einnig verið bent á að með því að kaupa Prius er maður í raun að flytja stærstan hluta mengunarinnar úr landi. Í stað þess að stærstur hluti mengunarinnar verði til þar sem bíllinn er notaður, verður hún til á framleiðsluferlinum. Þannig geta vestrænir neytendur í raun firrt sig ábyrgð og komið henni yfir á þróunarríki sem í auknum mæli þyrftu að annast mengandi framleiðsluna.
Ekki ætlar ritstjóri að ráðleggja þeim sem áhyggjur hafa af náttúrunni að hlaupa út og kaupa sér Hummer. Hinsvegar væri athugandi fyrir umhverfissinna sem ekki treysta sér til að leggja bílnum alveg að fjárfesta frekar í ódýrum, sparneytnum díselbílum. Þeir eru ólíkt umhverfisvænni en Priusinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.