29.1.2007 | 15:24
Er þetta traustvekjandi?
Maður er eiginlega kjaftstopp eftir lýsingar fjölmiðla á þeim sirkus sem Frjálslyndi flokkurinn stóð fyrir á Hótel Loftleiðum um helgina. Halda menn virkilega að þessu fólki sé treystandi til að fara með stjórn þessa lands, þegar það getur ekki einu sinni haldið skammlaust utan um eitt flokksþing?
Framkvæmd kosninga á þinginu var makalaus og lýsingar á formanni flokksins, Guðjóni Arnari, hlaupandi með kjörkassa um myrka ganga hótelsins, leitandi að lyklum eða bara kúbeini, minna á atriði í lélegum farsa. Hvað var formaður flokksins, yfirlýstur stuðningsmaður Magnúsar Þórs, að gera með kjörkassa í fanginu? Var hann að bera þá inn úr skottinu hjá Magnúsi? Það verður fróðlegt að sjá hver eftirleikurinn verður, en að minnsta kosti er ljóst að búið er að ræna Frjálslynda flokknum og gera hann að deild í Nýju afli.
Það virðist lögmál í stjórnmálum flestra nágrannalanda okkar að a.m.k. einn flokkur gerir út á fordóma og hatur á fólki sem rekur ættir út fyrir landsteinana, er öðru vísi á litinn eða aðhyllist einhverja framandi siði. Nú hefur þetta lögmál að því er virðist náð til Íslands og Guðjón Arnar virðist farinn að feta í fótspor þeirra Carls Hagen, Piu Kjærsgaard og Jörg Heider. Frjálslyndir þræta að sjálfsögðu enn fyrir það, því þeir átta sig á að til að flokkar sem ætla að breyta um kúrs og gera út á lægstu hvatir mannsins verða að taka lítil skref og færa sig hægt og rólega út á hin ystu mörk, til að berja af sér eins fáa fylgismenn og mögulegt er.
Að lokum vil ég benda á góða grein Péturs Gunnarssonar um málið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.