8.11.2006 | 12:10
Mikil viðbrögð
Það er gaman að sjá hversu mikil viðbrögð pistill gærdagsins hefur vakið meðal lesenda. Þannig hafa okkur borist fjölmörg skeyti, ýmist í tölvupósti eða á öðrum vefmiðlum. Þar hefur fólk ýmist skammað okkur fyrir að ganga ekki nógu langt, eða kallað okkur sóðableðil og öðrum ljótum nöfnum. Þá hefur ritstjóri meira að segja verið sakaður um lygar (fyrir utan að sjálfsögðu dónaskap).
Það verður að segjast eins og er að einu meintu lygarnar sem bent hefur verið á eru misritun á tölum um útstrikanir, sem var snarlega leiðrétt um leið og bent var á hana. Aðrar “lygar” hafa nú ekki fundist í pistlinum. Hins vegar er fólk eðlilega sárt þegar bent er á bresti í mönnum sem það hefur treyst til forystu í góðri trú.
Ég verð þó að játa að lokaorð Sólveigar Adólfsdóttur í pistli á Eyjafréttum fóru aðeins fyrir brjóstið á mér. Þar talar hún um að við þurfum samstöðu en ekki sundrungu. Ritstjóri veit allt um nauðsyn þess að standa saman. Síðasta kjörtímabil kenndi Framsóknarmönnum í Vestmannaeyjum allt um það hversu nauðsynlegt er að standa saman. Þannig lagði forysta Framsóknarfélagsins allt í sölurnar til að halda áfram samstarfi Framsóknar og V-lista í bæjarstjórn og eftir að V-listinn sleit samstarfi við bæjarfulltrúann okkar héldum við samstarfinu áfram þó svo Framsóknarflokkurinn ætti ekki beina aðild að nýjum meirihluta.
Þegar talað er um leiðtoga V-listans og nauðsyn samstöðu meðal Eyjamanna í sömu setningu setur mann samt hljóðan. Síðari hluta síðasta kjörtímabils logaði bærinn í illdeilum, ekki síst vegna stjórnarhátta þessa sama leiðtoga. Hann kom með flugi úr Skerjafirðinum að morgni, gaf út tilskipanir um hreinsanir og umbyltingar í grunnskólum, leikskólum og stjórnkerfi og var svo floginn burt að kvöldi. Fótgönguliðar V-listans þurftu svo að rökstyðja þessar ákvarðanir og verja þær í fjarveru leiðtogans. Enn sér ekki fyrir endan á þeirri sundrungu og glundroða sem þessi vinnubrögð leiðtoga V-listans sköpuðu.
Þegar svo kom að undirbúningi framboðs til sveitarstjórnar fórum við inn í þá vinnu af fullum heilindum og unnum af kappi með stórum hluta V-listafólks til að freista þess að brjóta blað í sögu Vestmannaeyja og tryggja félagshyggjuframboði hreinan meirihluta. Því miður var það svo að leiðtogi V-listans tók fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörinni uppstillingarnefnd og setti nefndinni stólinn fyrir dyrnar. Hans listi yrði samþykktur og annað var ekki til umræðu.
Hvort ástæðan fyrir þessu var að leiðtoginn var þegar farinn að undirbúa framboð til alþingiskosninga og vildi ekki hafa á listanum neina þá sem gætu hugsanlega skyggt á hann í aðdraganda þeirra skal ósagt látið. Að minnsta kosti var hann fljótur að láta sig hverfa að kosningum loknum.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning