Prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi

Þá er öðru prófkjöri lokið í Suðurkjördæmi, í þetta sinn hjá Sjálfstæðismönnum. Mikil spenna var í kringum prófkjörið, ekki síst þar sem menn biðu eftir raunverulegri mælingu á fylgi Árna Johnsen í kjördæminu eftir hremmingar hans á liðnum árum. Árni hefur alltaf verið umdeildur og varla til það mannsbarn í landinu sem ekki hefur á honum skoðun, hver svo sem hún síðan er.
Enda kom það í ljós í prófkjörinu þar sem aðeins tæp 54% kjósenda merkti við hann á kjörseðlinum og af þeim settu þrír af hverjum fjórum hann í 1. eða 2. sæti.

Það sem kemur mest á óvart í þessu prófkjöri er slæm útkoma Árna Mathiesen fjármálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra. Að hann skuli ekki hljóta nema um 45% atkvæða í 1. sætið og að réttur þriðjungur sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi skuli ekki vilja sjá hann á listanum í vor getur ekki verið annað en áfall fyrir hann. Það er alveg ljóst að taki nafni hans Sigfússon ákvörðun um að bjóða sig fram að fjórum árum liðnum verður lítið pláss fyrir fjármálaráðherrann í Suðurkjördæmi.

Það hlýtur líka að vera áfall fyrir þau Drífu og Guðjón að sjálfstæðismenn í kjördæminu skuli ekki meta meira við þau störf þeirra á Alþingi. Þau líða kannski fyrir það, líkt og margir aðrir þingmenn sem fallið hafa í nýlegum prófkjörum, að þau eru ekki með minnisstæðustu þingmönnum okkar og ekki nógu dugleg að berja bumbur og vekja athygli á störfum sínum. Það er ekki nóg að vinna bara á bak við tjöldin ef enginn veit af því.

Ég verð þó að hrósa honum Guðjóni fyrir stórmannleg viðbrögð við þessum úrslitum. Hann háði heiðarlega og góða kosningabaráttu og yfirlýsing hans í gær ætti að vera öðrum til fyrirmyndar. Þarna fer greinilega góður keppnismaður sem getur tekið tapi og fer ekki bara í fýlu þegar á móti blæs.

Tvennt að lokum. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því hvernig margir sjálfstæðismenn, einkum í Reykjavík bregðast við árangri Árna Johnsen í prófkjörinu. Má þar t.d. benda á Friðjón R. Friðjónsson, fyrrum starfsmann í dómsmálaráðuneytinu og stuðningsmann Björns Bjarnasonar, sem og skrif Andrésar Magnússonar, sem lengi hefur verið í nánu samneyti við innvígða og innmúraða. Ef þessi viðhorf eru almenn meðal sjálfstæðismanna utan Suðurkjördæmis er hætta á að Árni einangrist innan þingflokksins og að slagkraftur hans verði minni inni á þingi en menn hafa gert sér vonir um.

Hitt er túlkun vinkonu minnar Guðrúnar Erlingsdóttur á úrslitum í prjófkjöri Sjálfstæðismanna. Ég er ekki sammála henni um að útkoma Árna Mathiesen sé einhver vísbending um óánægju með ríkisstjórnina. Ég held að hún sýni mun frekar að Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi, umfram Samfylkinguna (og Frjálslynda), hafa trú á heimamönnum og sjá ekki tilganginn í því að treysta á fólk frá Reykjavík eða Seltjarnarnesi eða Hafnarfirði eða Akranesi sem málsvara sína á Alþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband