21.12.2006 | 18:07
Jólahugvekja
Þó enn sé deilt um hvort maðurinn sé kominn af öpum eða skapaður í núverandi mynd eru flestar kirkjur kristinnar trúar farnar að viðurkenna að þróun hafi átt sér stað og að nútímamaðurinn hafi ekki sprottið fram fullskapaður. Ef við gefum okkur að kenning raunvísindanna sé rétt og við séum afrakstur milljarða ára þróunar vaknar spurning sem ég tel ekki síður merkilega. Hvenær urðum við menn?
Meðvituð um framtíð okkar
Margir líta svo á að það að forfeður okkar gátu beitt þumlinum á móti hinum fingrunum og þannig beitt verkfærum með mikilli nákvæmni, marki upphaf mannkyns. Aðrir hafa bent á að þetta sé sameiginlegt öllum mannöpum og jafnvel öðrum dýrategundum og því ekki einstakt fyrir okkur. Þá er bent á þá staðreynd að við erum meðvituð um okkur sjálf og sögu okkar og fortíð. Þó hafa rannsóknir m.a. á górillum og sjimpönsum sýnt að þær tegundir virðast skynja tilveru sína og sjálfa sig sem einstaklinga ekki svo ólíkt okkur. En við erum líka meðvituð um framtíð okkar.
Líf handan dauðans
Þessi skilningur okkar á framtíðinni greinir mannkynið frá öðrum dýrategundum. Við vitum að á endanum deyjum við öll. Í framhaldinu hafa svo óhjákvæmilega vaknað upp vangaveltur um hvað sé handan við dauðann. Þaðan er stuttur vegur í trú á líf eftir dauðann. En hvenær vaknaði þessi skilningur okkar? Þó erfitt sé að finna því nákvæman stað í sögunni, má leiða rök að því að tengja megi hann við upphaf greftrana og grafsiða. Fyrstu merki um að maðurinn trúi á einhvers konar líf eftir dauðann má finna í gröfum Neandertals manna sem voru uppi fyrir 25-200.000 árum síðan. Neandertals menn bjuggu vandlega um hina látnu og grófu með þeim verkfæri og mat sem bendir til að þeir hafi talið þá þurfa á þessum hlutum að halda eftir dauðann.
Reiði guðanna eða uppsafnaðar rafhleðslur?
Sú hugmynd að til séu æðri máttarvöld sem hafi áhrif á umhverfi okkar með aðferðum sem við skiljum ekki er þannig a.m.k. tuga þúsunda ára gömul. Í raun hefur því verið haldið fram að mannlegt samfélag eins og við þekkjum það gæti ekki þrifist án þessarar trúar á æðri máttarvöld. En hluti af þróun okkar er síaukinn skilningur á heiminum, eðli hans og uppruna. Í þrumuveðrum hnipruðu forfeðrar okkar sig saman við eldinn, fylgdust með eldingunum út um hellismunnann og veltu fyrir sér hvað þeir hefðu gert til að kalla yfir sig reiði guðanna. Við vitum að eldingar stafa af uppsafnaðri rafhleðslu í skýjunum og setjum upp eldingarvara sem leiða hleðsluna örugga leið niður í jörðina. Þá teljum við okkur jafnvel skilja að mestu hvernig þróunin sjálf vinnur og höfum með tækni sameindalíffræðinnar greint genin, þær einingar sem náttúruval Darwins verkar á.
Er pláss fyrir Guð?Þegar við horfum á alla þá þekkingu sem við höfum aflað okkur og öll þau vísindi sem útskýra það sem forfeður okkar litu á sem æðri máttarvöld, hlýtur að vakna upp spurningin um hvort eitthvað pláss sé eftir fyrir trúarbrögð og Guð. Kjarninn í öllum stærstu trúarbrögðum heimsins er kærleikur og umhyggja. Hvort við trúum því að þessi kærleikur og umhyggja birtist okkur í Guði almáttugum, syni hans Jesú, spámönnum hans, þeim Múhameð og Móse, eða bara í okkur sjálfum skiptir kannski þegar allt kemur til alls ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er hvernig við notum boðskap þeirra.
Notum gjafir okkar til góðs
Við höfum hugaraflið til að skilja framtíðina og tækni og vísindi til að móta hana. Við getum lesið í rúnir umhverfis- og náttúruvísinda og spáð fyrir um, með nokkurri vissu, hvað næstu ár og áratugir munu bera í skauti sér. Við höfum þekkingu og fjármagn til að brauðfæða allt mannkynið og lækna flesta þá sjúkdóma sem á okkur herja. Allt aðgreinir þetta okkur frá nánustu ættingjum okkar á þróunartrénu. En höfum við vitsmunina til að nota þessar gjafir okkar?
Kjarni jólanna, þessa samofna siðar heiðni og kristni, fæðingu nýrrar sólar í formi frelsara mannkyns er einmitt áminning til okkar mannanna að nota þessar gjafir okkar til góðs.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning