Með allt niðrum sig í eldhúsinu

Ég datt inn í útsendinguna hans Bjarna Jónasar frá bæjarstjórnarfundinum í fyrradag og ég varð eiginlega kjaftstopp. Er þetta fólkið sem var kosið til að stjórna bænum okkar? Aftur og aftur var meirihlutinn uppvís að þvílíkri handabakavinnu og tómu fúski að ég hef bara ekki vitað annað eins. Á tímabili hélt ég að ég væri að hlusta á útvarpsleikhúsið flytja Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur, þar sem börnin gengu í hlutverk fullorðinna og fullorðnir voru orðnir óvitar.

Fyrst var það eldhúsið á nýja Sóla. Í bæjarráði á þriðjudaginn var samþykkt, að tillögu starfshóps um sameiningu á starfsemi Sóla og Rauðagerðis að við gerð fjárhagsáætlunar 2007 verði gert ráð fyrir rekstri fullkomins eldhúss í nýja leikskólanum og að þar verði framreiddur matur. Gott og vel. Faghópur hafði gert ítarlega rekstrarkönnun sem sýndi fram á að hagkvæmara var að reka eldhús í leikskólanum en að kaupa tilbúinn mat. Allt leit mjög eðlilega út, þar til minnihlutinn fór að spyrja.

Svo var það sameining leikskólanna. Þar varð farsinn enn fáránlegri. Ég vorkenndi hreinlega formanni skólamálaráðs þar sem hann reyndi árangurslaust að útskýra allt fúskið. Hver á fætur öðrum fóru svo bæjarfulltrúar D-listans í pontu til að reyna að bera blak af formanni skólamálaráðs. Þetta var orðið svo pínlegt að ég var næstum búinn að slökkva á útvarpinu.

Einhvern veginn svona fór umræðan fram (leikfélaginu er velkomið að stela þessu og nota í gamanleikrit á næsta ári):

V: Hvaða starfshópur var það sem gerði þessa úttekt og hvenær var hann skipaður?

D: Ehhh, það var starfshópur sem átti að meta þörf á hækkun leikskólagjalda… nei, það var einhver annar starfshópur… ehhh, augnablik, ehhh, það var hópur skipaður leikskólastjórunum, leikskólafulltrúa, Páli Marvin Jónssyni og Elliða Vignissyni.

V: Hvers vegna var minnihlutanum ekki boðið að skipa fulltrúa í hópinn?

D: Þetta var faglegur hópur, þ.e. bara faglegir fulltrúar, ekki pólitískir fulltrúar.

V: Eru Páll Marvin Jónsson og Elliði Vignisson ekki pólitískir fulltrúar?

D: Jú, nei, jú, nei, jú, nei, sko, þeir eru ekki í hópnum.

V: Eru þeir í hópnum, eða ekki?

D: Sko, þeir eru ekki í hópnum. Þeir sitja alla fundi með sama rétt og þeir sem eru í hópnum, en þeir eru samt ekki í hópnum. Þess vegna er þetta sko bara faglegur hópur og minnihlutinn á ekkert með að vera með einhverja fulltrúa þar.

V: OK, en áttu foreldrar ekki að hafa fulltrúa í hópnum?

D: Jú, þeir eiga fulltrúa í hópnum og koma sko að allri ákvarðanatöku. Þeir hafa bara ekki verið boðaðir á fundi nema á fundinn í fyrradag þegar búið var að taka allar ákvarðanir.

V: Og hvernig stendur á því að það er búið að ákveða að setja upp fullkomið eldhús í Sóla án þess að það hafi verið rætt, t.d. í Skólamálaráði?

D: Ehhh, það er ekki búið að ákveða að setja upp fullkomið eldhús í Sóla. Það var bara verið að samþykkja að kaupa öll tæki og tól fyrir fullkomið eldhús. Ekki að það verði fullkomið eldhús á Sóla. Sú umræða er eftir.

V: En það á samt að kaupa öll tækin?

D: Já, við sko föttuðum allt í einu um helgina að það þurfti að fara að panta öll tækin í eldhúsið helst í gær og þess vegna þurfti að ákveða hvaða tæki átti að panta. Það var enginn tími fyrir faglega umræðu, svo við ákváðum bara að kaupa öll hugsanleg tæki og taka svo faglegu umræðuna seinna og ákveða þá hvað ætti að gera við tækin.

V: OK, gott og vel, þetta er skítaredding af því þið unnuð ekki vinnuna ykkar. En hvað með sameiningu leikskólanna, stóð ekki í kosningabæklingnum ykkar í vor: “Við viljum að leikskólarnir verði áfram reknir sem sjálfstæðar einingar og á hverjum leikskóla fyrir sig verði starfandi leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.”

D: Jú auðvitað lofuðum við því. Við vildum fá atkvæði allra leikskólakennaranna og foreldranna. En það vissu auðvitað allir að það var ekki hægt svo það er náttúrulega óréttlátt að rukka okkur um það núna. Þetta er bara eins og með knattspyrnuhúsið. Þið vilduð byggja allt of dýrt knattspyrnuhús og við mótmæltum því, en samt ekki of mikið, en við ráðum núna svo við ætlum að byggja ennþá dýrara knattspyrnuhús. Ljúga ekki allir fyrir kosningar hvort sem er?

V: En þið sögðuð líka fyrir kosningar að það væri forkastanlegt að leggja fram tillögur um hagræðingu í rekstri án þess að hafa neina fjárhagslega útreikninga á bak við þær. Sagði Elsa Valgeirs ekki að svoleiðis tillögur væru arfavitlaus grautur? Nú stendur hún að þessum tillögum með ykkur án þess að neinar tölur séu á bak við þær. Er þetta ekki lengur arfavitlaus grautur?

D: Sko… við ráðum og þegið þið svo! Og hættið að rifja upp hvað við sögðum fyrir kosningar. Það voru kosningaloforð. Þið vitið að það er aldrei neitt að marka þau!

V: Svo neituðuð þið að láta okkur í minnihlutanum hafa skýrslu starfshópsins svo við gætum kynnt okkur hana fyrir skólamálaráðsfundinn.

D: Já, auðvitað. Þið lekið alltaf öllu í fjölmiðlana svo það er ekki hægt að treysta ykkur.

V: En skýrslan var samt komin í fjölmiðlana áður en skólamálaráðsfundurinn var haldinn.

D: Já, sko, þegar við látum fjölmiðla hafa trúnaðarskjöl áður en kjörnir fulltrúar fá þau er það náttúrulega bara til að tryggja greiðan aðgang almennings að upplýsingum. Þegar þið gerið það er það alvarlegur trúnaðarbrestur sem verður að stöðva!

V: Já, en þið sögðuð líka fjölmiðlum að faghópurinn hefði lagt til hvernig ætti að standa að sameiningunni, hver yrði skólastjóri og hver aðstoðar og svoleiðis. Það er ekkert um það í skýrslunni.

D: Hvað eruð þið alltaf að hnýta í einhver smáatriði. Þetta var pólitísk ákvörðun og ekkert meira með það. Við vildum bara að þetta hljómaði allt mjög faglegt. Er það ekki í lagi?

V: Jæja, þá erum við hérna með bókanir á 18 blaðsíðum.

D: Já bókið þið bara eins og ykkur sýnist. Það les hvort sem er enginn fundargerðirnar og það eru bara tveir sem hlusta á útsendingarnar hjá Bjarna Jónasar og öllum er hvort sem er sama því við ráðum öllu, nénénéné. Eruð þið ekki hvort sem er sammála okkur? Hvað eruð þið þá að rífast?

V: Sko, við erum kannski ekki efnislega ósammála ykkur í öllum atriðum. Við erum bara mjög ósátt við að þið segið eitt fyrir kosningar og gerið svo annað eftir kosningar. Þá erum við líka mjög ósátt við vinnubrögðin hjá ykkur. Þið eruð alltaf með allt á síðustu stundu og við fáum aldrei að hafa fulltrúa í vinnuhópum og nefndum og svo fáum við aldrei að vita neitt fyrr en 5 mínútum fyrir fund.

D: Góðu bestu hættið þessu tuði. Hvað með það þó við séum alltaf með allt niðrum okkur í stjórnsýslunni? Við ráðum. Og hvað með það þó við náum aldrei að rusla neinu af fyrr en 5 mínútum fyrir fundi? Við ráðum. Og hvað með það þó við tökum pólitískar ákvarðanir án faglegrar umræðu? Við ráðum. Og hvað með það þó við ráðum í stöður eftir pólitískum geðþótta án þess að auglýsa? Við ráðum. Og hvað með það þó við afhendum fjölmiðlum trúnaðargögn áður en þið fáið þau í hendur? Við ráðum. Og hvað með það þó við séum langt komin með að svíkja öll helstu kosningaloforð okkar á fyrstu 6 mánuðum kjörtímabilsins? Við ráðum.

Það verða hvort sem er allir búnir að gleyma þessu þegar kemur að næstu kosningum.

Mundi nokkur í vor að við vorum ein í meirihluta í 12 ár?

Einn flokk til ábyrgðar og hana nú!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband