7.11.2006 | 13:07
Enn sleppur Lúðvík fyrir horn
Lengi vel stefndi í enn eina snautlega útreiðina fyrir Lúðvík Bergvinsson, alþingismann. Á síðasta ári eða svo hefur hann mátt þola hverja niðurlæginguna af annarri.
Þannig var hann rassskelltur í varaformannskjöri í Samfylkingunni, þar sem ungliðinn Ágúst Ólafur Ágústsson rúllaði yfir hann. Þá fékk hann vægast sagt slaka útkomu í sveitarstjórnarkosningum í Vestmannaeyjum, þar sem V-listinn undir forystu hans náði aðeins rúmum 30% atkvæða auk þess sem tæp 10% kjósenda strikuðu nafn Lúðvíks útaf listanum og D-lista vantaði aðeins um 90 atkvæði til að fella 3ja mann V-listans og ná þannig 5-2 stöðu í bæjarstjórn.
Í gær var svo lengi útlit fyrir að Lúðvík endaði í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, á eftir Björgvin G. Sigurðssyni, sem Lúðvík segir að eigi enga vona á ráðherrasæti komist Samfylkingin í ríkisstjórn, og nýliðunum Róbert Marshall og Ragnheiði Hergeirsdóttur. Á síðustu metrunum tókst þessu sjálfskipaða ráðherraefni þó að skreiðast fram úr nýliðunum og hékk á 2. sætinu með 25 atkvæðum.
Það er aldrei að vita nema vinnubrögð Lúðvíks séu loksins að koma í bakið á honum. Kjósendur í Eyjum höfnuðu honum í vor eftir einræðistilburði við skipan á framboðslista V-listans og væntanlega hafa samherjar Lúðvíks í Eyjum vont bragði í munni eftir prófkjörsbaráttuna nú. Þannig unnu báðir meðframbjóðendur Lúðvíks í Samfylkingarfélagi Vestmannaeyja af heilindum með honum í prófkjörinu en tvennum sögum fer af stuðningi Lúðvíks við þá félaga sína, einkum þegar upp á land var komið.
Svo er náttúrulega spurning hvenær Lúðvík áttar sig á því að kannski ætti hann bara að fylgja fordæmi Jóns Gunnarssonar og finna sér eitthvað annað að gera.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning