1.12.2006 | 13:58
Er Sjálfstæðisflokkurinn kommúnistaflokkur?
Ég verð að segja eins og er að ég átta mig hreinlega ekki á því á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þjóðlendumálinu. Verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar veldur því að Framsóknarflokkurinn virðist enga aðkomu hafa að málinu og það alfarið á hendi fjármálaráðherra. Enda er alveg ljóst að Framsóknarráðherrar hefðu aldrei samþykkt að farið yrði fram með þessum hætti ef það hefði legið fyrir í upphafi. Gríðarleg óánægja er meðal framsóknarmanna með framferði ríkisstjórnarinnar í málinu þar sem um er að ræða einhverja mestu eignaupptöku í sögu þjóðarinnar.
Þannig virðist engu máli skipta þó einstaklingar og sveitarfélög haldi á þinglýstum kaupsamningum frá ríkinu, sem blekið er varla þornað á, öllu skal mótmælt og gengið eins langt og mögulegt er í kröfum ríkisins. Svona vinnubrögð þekkjast varla nema úr gamla Sovétinu og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað orðið er um Sjálfstæðisflokkinn þegar hann stendur fyrir slíkri aðför að eignarréttinum. Það er greinilega ekki sama hvort sameign þjóðarinnar er í sjónum eða á heiðum uppi. Bændur hafa kannski bara ekki borgað nógu mikið í kosningasjóðina.
Framsóknarþingmenn eru þó fráleitt stikkfrí í þessu máli. Það er löngu kominn tími á að þeir berji í borðið og segi hingað og ekki lengra. Við svona framkomu ríkisins við borgarana verður ekki unað.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning