26.10.2006 | 12:15
Stjórnmálaafl óskast fyrir landsbyggðina!
Skoðanakannanir á fylgi stjórnmálaflokka síðustu mánuði hefur verið hreinn og klár hryllingslestur fyrir flesta Framsóknarmenn. Sumir segja að helsta ástæðan sé sú að við séum hreinlega búin að gera allt sem við ætluðum okkur að gera!
Ég held ekki. Ég tel helstu ástæðuna vera að við höfum gleymt uppruna okkar. Við höfum verið svo önnum kafin við að berjast um molana sem hrjóta af borðum stóru Reykjavíkurflokkanna að við höfum gleymt upprunanum og kjölfestu flokksins, þ.e.a.s. landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri-grænir eru flokkar höfuðborgarsvæðisins, sem má t.d. sjá á því að 6 af 7 ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru af höfuðborgarsvæðinu.
Við höfum alls ekki staðið okkur í stykkinu gagnvart fylgismönnum okkar og kjósendum. Almennar aðgerðir sem tryggja velsæld íbúa á landinu öllu, s.s. samgöngubætur, efling fjárhags sveitarfélaganna, aukin menntun og jákvæð íbúaþróun eru grunnforsendur fyrir möguleika ALLRA svæða til að þróast frekar.
Kjósendur Framsóknarflokksins hafa kosið hann til að tryggja velsæld sína, en hver er niðurstaðan? Fjárhagur margra sveitarfélaga á landsbyggðinni er mjög slæmur, helstu mennta- og rannsóknastofnanir eru enn staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og íbúaþróun hefur aðeins verið á einn veg, af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið.
9 af 12 þingmönnum með landsbyggðarfylgi?
Framsóknarflokkurinn hefur ætíð sótt sitt kjarnafylgi fyrst og fremst til dreif- og þéttbýlis á landsbyggðinni.
Smá upprifjun fyrir þá sem eru búnir að gleyma kosningaúrslitunum.
- NA-kjördæmi: Nær 33% fylgi eftir mjög áhrifaríkar byggðaaðgerðar, nú síðast byggingu álversins í Reyðarfirði og staðsetningu háskóla á Akureyri = 4 þingmenn.
- NV-kjördæmi: Ríflega 20% fylgi í NV-kjördæmi þrátt fyrir geysisterka stöðu Frjálslynda flokksins og mikla fækkun íbúa = 2 þingmenn.
- Suðurkjördæmi: Tæp 24% þrátt fyrir umfangsmiklar fyrirætlanir um eignaupptöku lands í Skaftafells- og Árnessýslunum = 2 þingmenn (og næg aukaatkvæði til að tryggja uppbótarmann í Reykjavík-Norður.)
Þannig eiga 9 af 12 þingmönnum flokksins sæti sitt landsbyggðinni að þakka!
Nýtt hátæknisjúkrahús og Sundabrú
Landssíminn er seldur og það eina sem lagt er til að gert verði við hagnaðinn er að auka enn á þensluna á höfuðborgarsvæðinu með því að byggja Sundabrú og hátæknisjúkrahús fyrir tugi milljarða í miðri Reykjavík.
Mikil þörf virðist greinilega vera á að auka enn við fjölda hátæknistarfa á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir yfirlýsingar Heilbrigðisráðuneytisins um að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) verði hátæknisjúkrahús landsbyggðarinnar.
Ef nýtt og fullkomið hátæknisjúkrahús verður byggt í Reykjavík, er örugglega ekki langt í að draga þurfi saman rekstur FSA og annarra sjúkrahúsa á landsbyggðinni, t.d. á Akranesi, Vestmannaeyjum og Sauðárkróki, vegna aukinna umsvifa nýja sjúkrahússins í Reykjavík. Það verður nefnilega svo miklu hagkvæmara og öruggara að hafa sem mesta starfsemi á einum stað.
Mætti ekki alveg eins nýta hluta af fjármagninu af sölu Landssímans í að halda áfram að byggja upp FSA sem hátæknisjúkrahús? Kjósendur Jóns Kristjánssonar, Valgerðar Sverrisdóttur, Dagnýjar Jónsdóttur og Birkis J. Jónssonar yrðu eflaust mjög ánægðir með þá ákvörðun.
Byggðastefna skilar árangri, - í Reykjavík
Í skýrslu sem sem var unnin fyrir Forsætisráðuneytið um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni kennir ýmissa grasa. Þar nefnir Heilbrigðisráðuneytið m.a. sem dæmi um eflingu opinberra starfa á landsbyggðinni að Lýðheilsustöð hafi verið stofnuð og forstjóri sé tekinn til starfa. Ef efla hefði átt opinber störf á landsbyggðinni, hefði þá ekki verið tilvalið að setja stofnunina niður á landsbyggðinni, en ekki á Laugaveginum?
Nei, greinilega ekki. En í staðinn eru uppi hugmyndir um að efla tengsl stofnunarinnar við stofnanir á landsbyggðinni t.d. Háskólann á Akureyri og FSA með þróun nýrra lýðheilsuverkefna í samvinnu við þær stofnanir. Landbúnaðarráðherra tók nýlega skref í rétta átt og staðsetti nýstofnaða Landbúnaðarstofnun á Selfossi. Það hefði verið óskandi að heilbrigðisráðherra hefði gert það sama með Lýðheilsustöðina og staðsett hana t.d. á Egilsstöðum og viðskiptaráðherra hefði gjarnan mátt staðsetja hina nýju Neytendastofu á Húsavík, Ísafirði, eða jafnvel í Reykjanesbæ þar sem störfum hefur fækkað mikið vegna fækkunar hjá varnarliðinu.
Um 60% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru staðsett um 72% opinberra starfsmanna. Uppbyggingin á svæðinu hefur verið gífurleg, sem gerir Reykjavík og nágrenni eitt besta dæmið um að virk byggðastefna skilar úrvalsárangri.
Staðsetning opinberra starfa s.s. í stjórnsýslu, mennta-, heilbrigðis- og rannsóknastofnunum skiptir miklu máli til að auka arðsemi viðkomandi svæða.
Það sýnir Reykjavík og sannar.
2.700 störf flutt
Á síðustu áratugum hefur sú þróun verið stöðug að fólki af landsbyggðinni hefur fækkað, hvort sem litið er til þéttbýlis á landsbyggðinni eða dreifbýlis.
Byggðastofnun hefur bent á að hvergi, ekki einu sinni á hinum Norðurlöndunum, hafi fólk safnast jafn mikið saman á einu svæði og Stór-Reykjavíkursvæðinu. Til 1970 var íbúaþróun mjög svipuð í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og hér. Ungt og menntað fólk flutti í miklum mæli af landsbyggðinni, oft konur fyrst með börnin og svo karlarnir á eftir. Um 1970 gripu stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum inn í þessa þróun með því að flytja umtalsverðan fjölda opinberra starfa út á landsbyggðina og hafa haldið þeim aðgerðum áfram. Nú síðast í byrjun þessa árs ákvað sænska ríkisstjórnin að flytja 2.700 störf út á land, þar af sex stofnanir í heilu lagi og hluta 12 annarra, þrátt fyrir að aðeins tæp 10% af Svíum búi í höfuðborginn Stokkhólmi. Með þessum aðgerðum hefur að mestu tekist að stöðva þessa þróun.
Hér á landi hefur þessi fólksflótti hinsvegar staðið stöðugt, án þess að stjórnvöld hafi gripið til neinna marktækra aðgerða. Við erum enn að velta fyrir okkur að flytja nokkur láglauna fjarvinnsluverkefni út á land, jafnframt því sem við viljum gjarnan eyða ágóðanum af síðustu stóru einkavæðingunni í að byggja flott hátæknisjúkrahús og risastóra brú í miðri Reykjavík.
Örsmár Reykjavíkurflokkur?
Hvað ef við myndum gera það sama í NV-kjördæmi og Suðurkjördæmi og við gerðum í NA-kjördæmi? Gripa til marktækra byggðaaðgerða sem skila árangri? Það gæti þýtt rúmlega þriðjungsfylgi í landsbyggðarkjördæmunum þremur, íbúaþróun yrði snúið við og hver veit, kannski færi þingmönnum að fjölga á landsbyggðinni í stað Kragans? Við gætum verið með 12 þingmenn bara af landsbyggðinni! Allt í viðbót væri hreinn plús og við værum í oddastöðu í íslenskum stjórnmálum um ókomna tíð.
Ég vil því hvetja flokkinn til að fara horfast í augu við uppruna sinn og eðli sem breiðfylking landsbyggðarinnar og kasta fyrir róða tilburðum til að gerast örsmár Reykjavíkurflokkur.
Eygló Harðardóttir
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning