1.12.2006 | 09:04
Eyjamatur á uppleið
Ritstjóri fékk vatn í munninn þegar hann rakst á auglýsingu í Blaðinu í fyrradag um humar í neytendapakkningum. Myndin var af stórri og girnilegri nautalund með humarfyllingu. Ekki minnkaði hamingjan þegar ég sá að þarna var Vinnslustöðin að auglýsa. Það er mikið ánægjuefni að vinnslurnar hér í Eyjum séu farnar að færa sig ofar í virðiskeðjuna með því að markaðssetja beint til neytenda.
Með þessu tryggir Vinnslustöðin að mun stærri skerfur af söluverðmætum sjávarfangs í Eyjum skilar sér hingað. Við höfum séð það kraftaverk sem Grímur kokkur hefur unnið í þróun og markaðssetningu á sínum afurðum og nú fylgir Vinnslustöðin í kjölfarið. Það er óskandi að fleiri vinnslur hér í Eyjum fylgi þessu góða fordæmi. Þannig gætu Vestmannaeyjar skapað sér orð um allan heim fyrir frábæra matvælaframleiðslu, en ekki aðeins hráefnisöflun fyrir aðra.
Að lokum langar mig að kasta fram hugmynd. Ég sá í sumar pakka af harðfiski sem framleiðandi á Austfjörðum (að mig minnir) var að selja. Aftan á pakkanum var auglýsing frá sveitarfélaginu hans. Það væri athugandi fyrir Vestmannaeyjabæ að velta fyrir sér að fara í markaðsverkefni með framleiðendum hér í Eyjum. Bærinn gæti keypt staðlaða auglýsingu á pakkningum framleiðendanna og þannig auglýst bæinn okkar samhliða því að styðja við bakið á atvinnurekstri í Eyjunum. Kostnað við verkefnið mætti t.d. reikna sem mótframlag í Vaxtarsamninginn.
Breytt 24.1.2007 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning