27.5.2010 | 23:07
Eyjar: Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, 6. sæti
Segðu okkur frá sjálfri þér?
Ég heiti Sigurbjörg Kristín, alltaf kölluð Sigga Stína og starfa sem tryggingaráðgjafi hjá Sjóvá. Maðurinn minn er Gunnar Kristján Oddsteinsson, vélstjóri og við eigum fjórar dætur og tvö barnabörn. Ég er fædd og uppalin í Vík í Mýrdal og foreldrar mínir búa þar enn. Við hjónin höfum búið í 20 ár í þeirri paradís á jörð sem við köllum Vestmannaeyjar. Ég lauk námi við frumgreinadeild Háskólans á Bifröst vorið 2009 og hef síðan stundað nám í viðskiptafræðum. Starfsreynslan er fjölbreytt, en ég hef unnið við landbúnað, fiskvinnslu og í sláturhúsi, en í seinni tíð við skrifstofustörf. Ég stunda myndlist í frístundum auk stangveiði og fluguhnýtinga. Svo nýt ég þess að ferðast um landið með fjölskyldu og vinum.
Hvers vegna ákvaðstu að fara í framboð?
Mér finnst ákveðin stöðnun í stjórnsýslunni hér í bænum. Meirihlutinn er einráður og minnihlutinn hefur að mínu mati ekki veitt honum nægilegt aðhald. Fleiri raddir þurfa að heyrast og efla þarf lýðræðið. Það tekst ekki nema nýtt fólk gefi kost á sér. Mér fannst ég því ekki geta setið hjá að þessu sinni.
Hver eru þín helstu baráttumál?
Ég vil efla lýðræðið í Eyjum með aukinni þátttöku íbúa í stjórn bæjarins. Lýðræðislegri vinnubrögð með samráði við íbúa á öllum stigum mála, ásamt íbúakosningum er leið til þess. Þannig hefði til dæmis mátt koma í veg fyrir það mikla ósætti sem nú er uppi vegna tjaldsvæðisins. Bætt upplýsingagjöf til íbúanna, t.d með öflugri vefgátt, eflir líka lýðræðið og eykur gagnsæi í stjórnsýslunni.
Þá vil ég tryggja að hér sé raunverulegt jafnrétti til náms. Skóli án aðgreiningar er grundvallar krafa því skólinn verður að geta komið til móts við alla nemendur í samræmi við þroska og þarfir hvers og eins. Það veit ég að er ekki í dag.
Þjónustu við eldri borgara þarf að stórefla. Minn draumur er að bærinn eigi frumkvæði að byggingu nýrra þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, til dæmis með stofnun búsetusamvinnufélags. Með því móti væri hægt að bæta úr brýnni þörf þeirra eldri borgara sem vilja búa sjálfstætt en þurfa á þjónustu að halda.
Fyrir mér snúast bæjarmálin um að byggja upp samfélag sem þjónar hagsmunum okkar allra og í þeirri uppbygginu má ekkert okkar sitja hjá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2010 kl. 20:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.