Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýr kraftur

Heldur hefur verið rólegt undanfarið hér á Framsóknarblaðinu.  Á það sér einkum tvær skýringar.  Í fyrsta lagi var pólitíkin í kjötheimum heldur fyrirferðarmikil fram yfir miðjan mánuð og svo var ritstjóri að skipta um starfsvetvang.  Það hefur tekið drjúgan tíma síðustu daga.  Lofar ritstjóri að heldur muni fjölga færslum hér á blogginu næstu daga.

Er þetta traustvekjandi?

Maður er eiginlega kjaftstopp eftir lýsingar fjölmiðla á þeim sirkus sem Frjálslyndi flokkurinn stóð fyrir á Hótel Loftleiðum um helgina.  Halda menn virkilega að þessu fólki sé treystandi til að fara með stjórn þessa lands, þegar það getur ekki einu sinni haldið skammlaust utan um eitt flokksþing?

Framkvæmd kosninga á þinginu var makalaus og lýsingar á formanni flokksins, Guðjóni Arnari, hlaupandi með kjörkassa um myrka ganga hótelsins, leitandi að lyklum eða bara kúbeini, minna á atriði í lélegum farsa.  Hvað var formaður flokksins, yfirlýstur stuðningsmaður Magnúsar Þórs, að gera með kjörkassa í fanginu?  Var hann að bera þá inn úr skottinu hjá Magnúsi?  Það verður fróðlegt að sjá hver eftirleikurinn verður, en að minnsta kosti er ljóst að búið er að ræna Frjálslynda flokknum og gera hann að deild í Nýju afli.

Það virðist lögmál í stjórnmálum flestra nágrannalanda okkar að a.m.k. einn flokkur gerir út á fordóma og hatur á fólki sem rekur ættir út fyrir landsteinana, er öðru vísi á litinn eða aðhyllist einhverja framandi siði.  Nú hefur þetta lögmál að því er virðist náð til Íslands og Guðjón Arnar virðist farinn að feta í fótspor þeirra Carls Hagen, Piu Kjærsgaard og Jörg Heider.  Frjálslyndir þræta að sjálfsögðu enn fyrir það, því þeir átta sig á að til að flokkar sem ætla að breyta um kúrs og gera út á lægstu hvatir mannsins verða að taka lítil skref og færa sig hægt og rólega út á hin ystu mörk, til að berja af sér eins fáa fylgismenn og mögulegt er.

Að lokum vil ég benda á góða grein Péturs Gunnarssonar um málið.


Ályktun stjórnar Framsóknarfélags Vestmannaeyja

Í kjölfar þeirrar umræðu sem orðið hefur í þessari viku um að einhverjir óþekktir aðilar innan Framsóknarflokksins hyggist hagræða úrslitum prófkjörs Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi, samþykkti stjórn Framsóknarfélags Vestmannaeyja eftirfarandi ályktun á fundi í gær.

Framsóknarfélag Vestmannaeyja lýsir ánægju með góða þátttöku í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi um nýliðna helgi.  Jafnframt leggur félagið ríka áherslu á að framboðslisti flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor verði skipaður því góða fólki sem lagði á sig mikla vinnu og mikinn kostnað við þátttöku í prófkjörinu.  Framsóknarfélag Vestmannaeyja leggur ríka áherslu á að lýðræðisleg kosning verði látin ráða og ákveði frambjóðendur að taka ekki þau sæti sem þeim ber á listanum skuli þeir frambjóðendur sem á eftir koma færast upp listann.  Það er mikilvægt að almennar leikreglur séu virtar svo flokkurinn þurfi ekki enn á ný að þola umræðu um spillingu, klíkuskap og reykfyllt bakherbergi.

Stjórn Framsóknarfélags Vestmannaeyja


Framsóknarblaðið flytur

Þá hefur Framsóknarblaðið flutt sig um set og er nú hluti af blog.is, bloggvef Morgunblaðsins.  Allar færslur hafa verið fluttar, en því miður er meira mál að flytja athugasemdir og verða þær því ekki fluttar.  Slóðin á vefinn verður eftir sem áður www.framsoknarbladid.is, en einnig verður hægt að nálgast vefinn um framsoknarbladid.blog.is.

Hækkun fargjalda í Herjólf

Enn er hoggið í sama knérunn og enn er það ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem ber þar ábyrgð. Nú munu fargjöld í Herjólf hækka um rúm 10% og þótti mörgum nóg þegar. Á meðan við Eyjamenn berjumst fyrir þeim sjálfsögðu réttindum að fá felld niður fargjöld farþega þráast samgönguráðherra ekki bara við, heldur skellir framan í okkur hækkun. Strax heyrast fréttir af því að Eyjamenn muni bregðast við þessari ákvörðun af hörku. Jafnvel hefur heyrst að efna skuli til harðra mótmælaaðgerða um næstu mánaðamót. Það er kominn tími til að við setjum hnefann í borðið og segjum “hingað og ekki lengra” við þessa sjálfstæðismenn.


Eygló í Silfrinu

Fyrir þá sem misstu af Eygló Harðardóttur í Silfri Egils í dag má horfa á þáttinn hér. Fyrir þá sem ekki vilja sitja yfir öllum þættinum er hægt að spóla 1 klst og 30 mín eftir að þátturinn byrjar.


Jólablað

Jólaútgáfa Framsóknarblaðsins fór í dreifingu í dag og ætti að hafa skilað sér inn á öll heimili í Vestmannaeyjum fyrir kvöldið. Þar má meðal annars finna greinar eftir séra Kristján Björnsson, Guðna Ágústsson varaformann Framsóknarflokksins og Kára Bjarnason handritasérfræðing. Fyrir þá sem ekki fá blaðið heim má nálgast það á pdf formi hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband