Eyjar: Íbúalýðræði

Krafan um aukið lýðræði hefur verið ráðandi í samfélaginu undanfarin misseri. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir glöggt hvaða hættur felast í þeirri lokuðu stjórnsýslu og flokks- og foringjaræði sem ríkt hefur hér á Íslandi undanfarna áratugi og ríkir í raun enn. Bein þátttaka almennings hefur einskorðast við kjörklefann á fjögurra ára fresti og þess á milli hafa litlar klíkur kjörinna fulltrúa og jábræðra þeirra verið einráðar. Afleiðingar þess eru öllum ljósar.

Krafan um aukið og beint lýðræði er réttmæt og á við í sveitarstjórnum, ekki síður en í landsmálunum. Aukið lýðræði kann vissulega að vera þyngra í vöfum og hugsanlega kostnaðarsamara en einræðið, en kostur þess er að ríkari sátt skapast um þær ákvarðanir sem teknar eru. Samvinnan eykst og allir fá að taka þátt í að móta sitt nærumhverfi og það samfélag sem þeir búa í.

Íbúakosningar eru eitt form aukins lýðræðis sem brýnt er að hrinda í framkvæmd hér í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórn getur sett einfaldar reglur sem kveða á um að ákveðinn fjöldi íbúa, t.d. 25-30%, geti farið fram á kosningar um einstök mál. Kosningar gætu farið fram í gegn um heimabanka og á rafrænan hátt í ráðhúsinu og gætu staðið yfir í nokkra daga. Á þann hátt gæfist öllum bæjarbúum færi á að segja sína skoðun án umtalsverðs kostnaðar fyrir bæjarfélagið. Þannig væri hægt að sjá fyrir sér kosningar um framtíðarstaðsetningu tjaldsvæðisins, forgangsröðun í framkvæmdum, áherslur í samgöngum og fleira. Bærinn gæti staðið fyrir opnum kynningarfundum um þá valkosti sem í boði væru hverju sinni og myndi það auka á umræður og upplýstar ákvarðanir kjósenda.

Aukið gegnsæi í stjórnsýslunni er annar mikilvægur þáttur lýðræðisins. Með öflugri vefgátt væri hægt að auka aðgengi bæjarbúa, ekki aðeins að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið, heldur ekki síður að ákvarðanaferlinu sjálfu og hægt væri að gefa íbúum kost á að koma á framfæri athugasemdum og ábendinum á einfaldan og auðveldan hátt. Beinar útsendingar á vefnum frá bæjarstjórnarfundum auka einnig gegnsæið og reglulegir opnir fundir nefnda bæta upplýsingastreymi og aðgengi bæjarbúa að stjórnsýslunni.

Lýðræði, samvinna og gagnsæi eru kjörorð B-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum. Okkar helsta baráttumál er að efla opna umræðu meðal bæjarbúa og gefa þeim tækifæri til að taka beinan þátt í stjórnun og stefnumótun bæjarins allt kjörtímabilið, en ekki aðeins 29. maí.

Sigurður E. Vilhelmsson og Sonja Andrésdóttir skipa 1. og 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra (Britist fyrst í Fréttum)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband