Lýðræði og samvinna í verki

Samfélagið hér í Eyjum minnir um margt á stóra fjölskyldu. Eyjamenn standa saman þegar eitthvað bjátar á og eru ávalt reiðubúnir að rétta náunganum hjálparhönd þegar á þarf að halda. Þessi samvinna og samstaða er ríkari hér en víðast hvar annars staðar og það er eitt af því sem gerir það svo eftirsóknarvert að búa í Vestmannaeyjum. En hvað er það sem býr til sterka fjölskyldu?

Feðraveldið sem ríkt hefur í gegnum aldirnar er á undanhaldi. Sterki fjölskyldufaðirinn sem öllu réði heyrir að mestu sögunni til og fjölskyldur taka sameiginlegar ákvarðanir við eldhúsborðið, þar sem allir eru hafðir með í ráðum. Hlustað er á alla fjölskyldumeðlimi, skoðanir þeirra og hugmyndir metnar að verðleikum og fjölskyldan kemst að sameiginlegri niðurstöðu sem allir eiga þátt í að móta. Þannig er samvinnan og þannig er lýðræðið.

Á sama hátt þarf stórfjölskyldan í Eyjum að vinna. Við sjáum öll hvað gerist þegar ákvarðanir eru teknar í þröngum hópi og ekki er hlustað á skoðanir þeirra sem málið varðar. Tjaldsvæðið er gott dæmi um það. Það er ekki ásættanlegt að börnin í Bessahrauni vakni upp um miðjar nætur með sauðdrukkið fólk að ganga örna sinna við svefnherbergisgluggann þeirra. Það er ólíðandi að fólk komist ekki út úr húsi dögum saman af ótta við innbrot og eyðileggingu. Þegar heildarhagsmunir eru metnir er ekki nóg að horfa á krónur og aura eða hvort gestir þurfi að aka í 4 mínútur eða 5 til að komast í búð. Lífsgæði íbúa Vestmannaeyja hljóta að ganga fyrir.

Það er heldur ekki nóg að vísa til þess að hægt sé að gera athugasemdir eftir að niðurstaðan er fengin. Það er ferlið sem leiðir til ákvörðunarinnar sem skiptir máli. Með því að fá alla að borðinu á meðan stefnan er mótuð er hægt að komast að niðurstöðu sem allir sætta sig við. Því miður hefur það ekki verið raunin með flestar stærstu ákvarðanirnar sem teknar hafa verið hér í bæ á síðustu árum.

Þannig var farið með sameiningu skólanna. Ákvörðunin var tekin í ráðhúsinu og henni varð ekki hnikað. Samvinnan fólst í því að kennurum og stjórnendum skólanna var falið að vinna úr orðnum hlut. Það sama á við um þær framkvæmdir sem standa yfir og fyrirhugaðar eru á næstu árum. Engin umræða fór fram um þær áður en ákveðið var að ráðast í þær og niðurstaðan er að um þær ríkir ekki sátt.

Þegar fjölskyldufaðirinn sest við eldhúsborðið og tilkynnir fjölskyldunni að hann sé búinn að ákveða að byggja bílskúr þar sem sandkassinn stendur er það ekki lýðræði, heldur einræði. Jafnvel þótt börnin geti fengið hann til að fresta framkvæmdum fram á haust svo þau geti að minnsta kosti notað sandkassann yfir sumarið, er ákvörðunin tekin og henni fær ekkert haggað. Telji faðirinn nauðsynlegt að byggja bílskúr er lágmark að hann hlusti á aðra fjölskyldumeðlimi og skoðanir þeirra á staðsetningu skúrsins. Fjölskyldan verður að komast að sameiginlegri niðurstöðu áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Stjórnsýslan í Vestmannaeyjum verður að starfa á grunni samvinnu og lýðræðis. Íbúakosningar og íbúaþing eru ein leið til þess að auðvelda íbúum að koma beint að þeim ákvörðunum sem teknar eru og gerir þeim kleift að móta stefnuna með bæjarstjórn. Með opnum, lýðræðislegum vinnubrögðum og beinni aðkomu íbúa að stjórnun bæjarins getum við gert fjölskylduna hér í Eyjum enn sterkari og samheldnari en áður. Lýðræði, samvinna og gegnsæi eru lykillinn að góðu samfélagi og fyrir því viljum við berjast.

Sigurður E. Vilhelmsson og Sonja Andrésdóttir skipa 1. og 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband